fim. 26. des. 2024 22:05
Curtis Jones fagnar marki sínu.
Endurkoma og forskot Liverpool sjö stig

Liverpool vann 3:1 sigur á liði Leicester í ensku úrvalsdeildinni á Anfield í kvöld. Það voru gestirnir sem komust yfir strax á 6. mínútu leiksins en þá setti Jordan Ayaw boltann í netið en rétt fyrir lok fyrri hálfleiks jafnaði Cody Gakpo metin með glæsilegu skoti.

Curtis Jones og Mohamed Salah skoruðu svo fyrir Liverpool í seinni hálfleik og tryggðu heimamönnum stigin þrjú sem í boði voru. Þessi úrslit þýða að Liverpool er komið með sjö stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildinnar og eiga leik til góða á Chelsea sem er í öðru sæti deildarinnar. Liverpool er með 42 stig eftir 17 leiki. Leicester er aftur á móti í fallsæti en liðið er í 18. sæti deildarinnar með 14 stig.

Leikmenn Liverpool byrjuðu leikinn í kvöld með látum og strax á fjórðu mínútu leiksins fékk Mohamed Salah flotta sendingu á fjarstöngina og náði fínu skoti úr þröngu færi en Jakub Stolarczyk, markvörður Leicester, varði vel frá honum.

Þrátt fyrir góða byrjun Liverpool voru það gestirnir sem skoruðu fyrsta mark leiksins en það gerðist á 6. minútu leiksins. Þá átti Stephy Mavididi góða sendingu fyrir mark Liverpool og þar var Jordan Ayaw sem snéri Andy Robertson af sér og setti boltann smekklega í netið. Eftir þetta tóku heimamenn öll völd á vellinum og sóttu án afláts að marki Leicester.

Það var samt ekki fyrr en á fyrstu mínútu í uppbótartíma í fyrri hálfleik að Liverpool jafnaði metin. Þá fékk Cody Gakpo fína sendingu frá Alexis Mac Allister og lét vaða á markið og smellhitti boltann sem endaði í bláhorninu. Í millitíðinni hafði Andy Robertson meðal annars skallað boltann í stöngina og Mohamed Salah átt skot í þverslánna.

Það tók Liverpool aðeins fjórar mínútur í seinni hálfleik til að komast yfir í leiknum. Þá átti Salah góða sendingu á Alexis Mac Allister inn í teig Leicester en hann var kominn að endalínu vallarins  og náði að setja fastan bolta fyrir markið og þar kom Curtis Jones á ferðinni og negldi boltanum inn at stuttu færi.

Leikmenn Leicester héldu áfram að verjast ansi aftarlega og ætluðu áfram að reyna að treysta á skyndisóknir. Þeir fengu einmitt eina slíka á 60. mínútu leiksins en þá fékk Patson Daka flotta sendingu inn á teig Liverpool og hann var í mjög góðu skotfæri en Daka hitti ekki boltann. Þetta var eini möguleiki Leicester í seinni hálfleik.

Liverpool hélt áfram að sækja á Leicester en voru ekki finna leiðir framhjá Jakub Stolarszyk. Hann varði til dæmis mjög vel frá Darwin Nunez á 62. mínútu leiksins og svo aftur frá Cody Gakpo mínútu síðar. Gakpo kom reyndar boltanum í netið á 67. minútu leiksins en eftir langa skoðun í VAR-herberginu var markið dæmt af vegna rangstöðu.

Liverpool náði loksins að setja þriðja markið á 82. mínútu leiksins en þá átti Cody Gakpo, besti maður vallarins í kvöld, góða sendingu á Salah sem gerði eitthvað sem allir hafa séð hann gera ansi oft áður. Tók hlaupið inn á völlinn og setti boltann í fjarhornið. Það var lítið sem gerðist eftir þetta og lokatölur því 3:1 fyrir Liverpool þrátt fyrir hetjulega baráttu hjá leikmönnum Leicester.

Liverpool spilar næst í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn en þá fer liðið til London og mætir West Ham. Leicester á einnig leik á sunnudaginn en það er heimaleikur á móti Manchester City.

til baka