Sex einstaklingar voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur eftir árekstur sem varð við Fagurhólsmýri í Öræfum rétt fyrir klukkan 13 í dag.
Þyrlan lenti við Fagurhólsmýri og voru sex einstaklingar fluttir með þyrlunni. Aðeins tveir voru fluttir á Landspítalann til frekari aðhlynningar en hinir fjórir voru með minni háttar meiðsli, að sögn Garðars Más Garðarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is
Aðspurður segir hann að þeir fjórir sem ekki hlutu alvarlega áverka hafi verið fluttir með þyrlunni þar sem hún hafði flutningsgetu.
Eitt barn í öðrum bílnum
Tveir bílar rákust saman og voru alls sex manns um borð, þrír í hvorum bíl. Einstaklingarnir voru allir erlendir ferðamenn.
Eitt barn var í öðrum bílnum en það hlaut ekki alvarlega áverka. Garðar hafði ekki upplýsingar um aldur barnsins.
Bílarnir tveir urðu fyrir miklu tjóni og eru óökuhæfir.
Uppfært klukkan 17:05
Upphaflega var greint frá því að tveir hefðu verið fluttir með þyrlunni en síðar fengust upplýsingar um að allir sex farþegarnir hefðu verið fluttir til Reykjavíkur með þyrlunni.