lau. 8. feb. 2025 10:00
Helga segist hafa fundið jafnvægið í lífinu með fjölbreyttum störfum.
Úr skurðaðgerðum í skriftir og leiðsögn

Dagur fimm var hvíldardagur og þá þurfti fólk að veiða sér sjálft til matar svo ég þurfti að læra stangveiði. Við þurftum líka að gera að fiskinum og ég sem skurðlæknir lærði það náttúrulega á núll einni.“ Þetta segir Helga Medek, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir, um fyrstu ferðina sem hún fór í sem leiðsögumaður á Arnarvatnsheiði.

Helga er 48 ára gömul og lærði læknisfræði í Medical University of Vienna, í Vínarborg í Austurríki, þar sem hún ólst upp. Móðir hennar var íslensk og faðir hennar austurrískur og liggja því ræturnar annars vegar hér í Norður-Atlantshafi og hins vegar á meginlandi Evrópu.

Æskudraumurinn

Hægt er að segja að Helga hafi að einhverju leyti horfið aftur til æskudraumanna þegar hún hóf nám í Leiðsöguskólanum við Menntaskólann í Kópavogi og fjarnám við ritlistarskólann Schule des Schreibens í Hamborg, eftir að hafa starfað á kvensjúkdómadeild Landspítalans um árabil.

„Þegar ég var krakki var ég mikið í útivist,“ byrjar Helga þegar hún lýsir æskunni í Vínarborg. „Ég var í skátunum og byrjaði á skíðum þriggja ára gömul. Ég man að ég öfundaði krakkana sem bjuggu á skíðasvæðunum og gátu nánast rennt sér í skólann.“

Þótt útivist hafi átt hug hennar og hjarta sem barns átti hún einnig rólegar stundir með penna í hendi þegar hún dundaði sér við að skrifa sögur. „Ég byrjaði að skrifa sögur þegar ég lærði að skrifa og var alltaf að semja smásögur.“ Stafsetning var þó ekki styrkleiki hjá henni og segist hún einfaldlega hafa skrifað orðin eins og hún heyrði þau og hlaut skammir í skólanum fyrir vikið. Málfræðin hafi þó komið með tímanum.

Í krefjandi læknanáminu lagði Helga skrifin til hliðar en sköpunargleðin blundaði þó alltaf innra með henni og byrjaði hún aftur að skrifa sem deildarlæknir.

„Þegar ég fann að það var svo margt annað fyrir utan spítalann sem ég hafði ekki upplifað í mörg ár þá kom þessi tímapunktur, að gera það sem mig langaði alltaf til að gera og það var að skrifa þessa bók sem ég hafði gengið með í maganum í mörg ár.“

Læknaferillinn

Eftir stúdentspróf flutti Helga, þá 18 ára, til San Francisco í eitt ár til að læra ensku á meðan hún ígrundaði hvaða nám hún vildi stefna á. Hún hafði alltaf haft mikinn áhuga á annars vegar náttúruvísindum og hins vegar þýsku og bókmenntafræði. Það síðarnefnda langaði hana að læra en að lokum varð læknisfræðin fyrir valinu.

Þegar Helga lauk læknisfræði árið 2003 pakkaði hún niður í lítinn Wolksvagen Polo sem hún hafði keypt af systur sinni á 500 evrur og hélt til Þýskalands til að hefja kandídatsárið á háskólasjúkrahúsinu í Tübingen, stúdentaborg ekki langt frá Stuttgart.

„Ég vissi frá upphafi að ég vildi að minnsta kosti prófa kvensjúkdómalækningar því það heillaði mig að fá að fylgja konum frá unglingsaldri og fram eftir aldri.“

Það lá því beinast við hver sérhæfingin yrði og hóf Helga sérnám í kvensjúkdómalækningum í Tübingen að kandídatsárinu loknu.

Á meðan hún var í sérnáminu fann hún fyrir þörf til að læra íslensku betur og verja tíma með ömmu sinni hérlendis, sem þá var á lífi. Hún kom því til Íslands og hóf störf sem deildarlæknir á kvensjúkdómadeild Landspítalans, þar sem hún starfaði í tvö og hálft ár.

Eftir það flutti hún til Austurríkis og lauk sérfræðiprófi sem kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir. Næsti viðkomustaður var Belgía þar sem hún vann að rannsóknarverkefni og þaðan flutti hún til Kufstein í Týrol í Austurríki þar sem hún fékk fasta stöðu á spítalanum í bænum.

„Mér fannst æðislegt að vera í Ölpunum. Spítalinn var meðalstór og teymið flott. Ég fékk að prófa ýmislegt en var mest í skurðaðgerðum og fæðingarhjálp.“ Ekki skemmdi umhverfið fyrir en Helga segist hafa farið mikið á skíði eftir vinnu ásamt samstarfsfólki enda mikil hefð fyrir skíðaiðkun á stöðum sem þessum.

Ástin dró hana aftur til Íslands

Það var á Íslandi 2010, þegar Helga sótti námskeið fyrir fæðingarlækna, Advanced Life Support í fæðingarhjálp, að Amor bankaði upp á. Í þessari Íslandsferð hitti hún Kristínu Jónsdóttur kvensjúkdómalækni.

„Við urðum yfir okkur ástfangnar.“ Helga var þó ekki tilbúin að yfirgefa Týrol strax enda leið henni vel þar. Hún segir Kristínu reglulega hafa hnippt í hana um hvort hún ætlaði ekki að flytja til Íslands.

Þegar Helga fór svo á læknaráðstefnu í Salzburg vorið 2011 hitti hún íslenska fyrrverandi kollega sína af kvensjúkdómadeild og þáverandi yfirlækni, Hildi Harðardóttur. Hildur bauð henni stöðu á Íslandi því það vantaði svo sérfræðinga.

Vitaskuld var ekki annað hægt, með ástina og atvinnuboð hérlendis, en að flytja til Íslands svo að Helga flutti hingað aftur þá um sumarið.

Kristín starfaði þá sem sérfræðingur kvensjúkdómamegin og Helga byrjaði sem fæðingarlæknir en skipti svo um teymi og fór yfir í kvensjúkdómahlutann um það leyti sem Kristín varð yfirlæknir á kvensjúkdómadeild.

Helga lætur vel af vinnuumhverfinu á Landspítalanum og gæðunum í þjónustu við sjúklinga. Hún segir læknana fá að sækja ráðstefnur reglulega og að það sé inni í kjarasamningum að þeir fái námsleyfi. „Ég get allavega talað fyrir kvenna- og fæðingarhjálp og myndi segja að við fylgjum öllum nýjungum og því sem er að gerast erlendis.“

Læknirinn sem varð leiðsögumaður

„Fyrstu fimm árin sem sérfræðingur voru mjög spennandi og gefandi,“ segir Helga sem sérhæfði sig í grindarbotnsvandamálum. Eftir tíu ár hafi dagarnir einkennst af ákveðinni rútínu og var hún farin að finna fyrir þörf á breytingu.

„Það vantar samkeppni í heilbrigðisumhverfinu hérlendis og auðvitað er minna um að hægt sé að færa sig til í starfi eða skipta um spítala, líkt og erlendis.“

Helga segir þær Kristínu hafa verið mikið í útivist, í fjallgöngum og alls kyns hreyfihópum. Helgu langaði til að læra meira í tengslum við útivist og íslenska náttúru svo þær Kristín gætu farið meira tvær saman. Eftir að hafa fengið GPS-tæki og námskeið í gjöf fór Helga að leita að fleiri námskeiðum til að læra meira um rötun og fjallamennsku.

Eitt leiddi af öðru og veturinn 2020/2021 var Helga komin í Leiðsöguskólann þar sem hún stundaði nám meðfram vinnu í gönguleiðsögn.

Þrisvar í viku brunaði Helga eftir vinnu í Menntaskólann í Kópavogi til að læra það sem kennt er í menntaskóla hérlendis, sagnfræði, landafræði og líffræði. Henni þótti þetta afar skemmtilegt en krefjandi á sama tíma.

Þegar samgöngutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins gerðu það að verkum að kennt var í fjarnámi auðveldaði það Helgu lífið töluvert. „Þá gat ég farið inn á skrifstofu eftir vinnu og verið með á námskeiðinu, keyrt heim í hléinu og haldið áfram.“

Helga segir samnemendur sína í Leiðsöguskólanum hafa verið fólk á hennar aldri, allt í sömu sporum og hún; þráði breytingar. „Þetta voru kennarar, lögfræðingar og fólk sem vildi prófa eitthvað nýtt.“

Skrefið tekið lengra

Haustið eftir að hún útskrifaðist úr Leiðsöguskólanum var Helga beðin um að leiðsegja hópi af Þjóðverjum yfir Arnarvatnsheiði, enda sjálf þýskumælandi. Það var gengið með allt á bakinu í alls tíu daga og nýtti Helga sumarleyfi sitt í ferðina.

„Mér var treyst til þessa verkefnis þar sem ég er læknir. Það var ýmislegt sem ég vissi ekki fyrir fram en ég hafði minnstar áhyggjur af að eitthvað kæmi fyrir.“ Þegar leiðsögumenn óttast alla jafna mest að eitthvað komi upp á og einhver meiði sig í hópnum er það nokkuð sem læknirinn Helga hræðist ekki.

„Ég hafði mestar áhyggjur af að brenna matinn því ef hann brennur er ekkert sem kemur í staðinn, nema kannski hrísgrjón.“

Þrátt fyrir að hafa ekki beinlínis ætlað sér að breyta um starfsvettvang þegar hún lauk Leiðsögumannaskólanum sagði hún upp starfi sínu á kvensjúkdómadeild árið 2023. „Það var örugglega bara einn slæmur dagur í vinnunni sem ýtti mér fram af brúninni. Þá kom þetta loks til mín.“ Og segist Helga hafa verið mjög sátt við ákvörðunina þrátt fyrir óttann.

„Ég er rosalega samviskusöm og auðvitað búin að fjárfesta mörg ár í læknanáminu.“ Í Austurríki er læknanámið frítt og finnst Helgu hún hafa skuldbundið sig samfélaginu þar sem skattgreiðendur greiði yfir námið.

„Og ég hugsaði, má þetta bara, má bara hætta?“ Hún segir Kristínu hafa stutt hana í breytingunum og að hún hafi einnig hugsað mér sér að þetta gæti allt eins verið tímabundið.

Eftir að Helga hætti á Landspítalanum var hún leiðsögumaður í ýmsum ferðum á borð við hringferðir í rútu, fjórhjólaferðir og norðurljósaferðir, fyrir nokkur fyrirtæki. Nóg er af verkefnum og segir hún það fljótt að spyrjast út innan greinarinnar ef leiðsögumaður stendur sig vel.

Nýtt jafnvægi í leik og starfi

Mest krefjandi leiðsöguverkefnið hingað til segir Helga hafa verið þegar hún fór með hóp Íslendinga til Suður-Týrol á vegum Bændaferða því að hennar helsta áskorun sé að leiðsegja á íslensku. Nokkur menningarmunur er á milli þýskumælandi ferðamanna og þeirra íslensku. Þjóðverjarnir eru stundvísir og yfirleitt mættir nokkru fyrir settan tíma á meðan þeir íslensku eru öllu afslappaðri.

Á ferðum sínum hefur Helga hitt fjöldann allan af áhugaverðu fólki og segir það blása lífi í sköpunargleðina. Samskipti séu svo gefandi og flestir eigi svo merkilega sögu.

Þegar sköpunargáfan örvaðist á ný og Helga hafði ögn meiri tíma milli túra tók hún ákvörðun um að láta gamlan draum verða að veruleika og skráði sig í ritlist í ritlistarskólanum Schule des Schreibens í Hamborg.

Ef allt gengur eftir, eins og hún segir sjálf, mun hún útskrifast næsta vor.

Í náminu hefur hún haft leiðbeinanda sem sjálfur er rithöfundur og hefur gefið út fjölda bóka. Hún hefur nú nánast klárað handritið að fyrstu bók sinni, hugmynd sem hún gekk lengi með en skorti verkfærin og tæknina til að geta byrjað á.

„Handritið er á lokametrunum og svo er bara að taka stökkið. Ég hef aðeins ýtt því á undan mér að finna umboðsmann, því það er það sem þarf úti til að komast að hjá útgefanda,“ segir Helga en hún skrifar bókina á þýsku.

Aðspurð segist hún fara í ákveðið flæði þegar hún situr og skrifar og líkir því við hvernig hún gleymir sjálfri sér þegar hún framkvæmir aðgerðir. „Þá fer ég í mitt „zone“.“

Það reyndist rétt hugsað hjá henni þegar hún sá fyrir að fjarveran frá lækningum yrði aðeins tímabundin. Ekki leið á löngu áður en byrjað var að toga aftur í hana úr „hinni áttinni“ þegar hún var fengin sem afleysingalæknir á kvensjúkdómadeild Landspítalans síðastliðið vor. Þá fann hún hve mjög hún saknaði þess að starfa við það sem hún menntaði sig í og í dag er hún í hlutastarfi á Heilbrigðisstofnun Vesturlands.

„Þá er ég tvo daga í viku að skera og hitta konur. Restina af vikunni hef ég til að skrifa og fara í ferðir.“

Helga er hæstánægð með fyrirkomulagið og þetta nýja jafnvægi í lífinu. Hún segir fólk oft verða hissa á þessum sviptingum í starfi, að fara úr læknasloppnum, í útvistarfatnaðinn og upp á fjöll. Hún lýsir því hvernig hún verði bara skemmtilegri leiðsögumaður og betri læknir fyrir vikið.

Það krefst hugrekkis að breyta til í lífinu og oft er það einungis hausinn sem stoppar þegar óttinn nær yfirhöndinni. Þessi „hvað ef“-hugsun, líkt og Helga segir hafa hringsólað í höfðinu á sér. Margt geti spilað inn í hræðsluna við breytingar, til dæmis áhyggjur af tekjuhliðinni. „Þetta var ferðalag sem tók sinn tíma. Stundum tók ég eitt skref fram á við, fékk svo efasemdir og fór þá eitt skref til baka. En maður veit aldrei nema prófa og nú er ég búin að finna jafnvægið.“

til baka