sun. 9. feb. 2025 06:00
Heilsan er miklu meira en það að fara á æfingu klukkustund á dag að mati Söru Snædísar.
Líkaminn þarf á æfingu að halda

Sara Snædís Ólafsdóttir telur sig hafa hitt á hárrétta tímasetningu þegar hún stofnaði heilsuog æfingasíðuna Withsara.com. Æfingarnar geta farið fram hvar sem er í heiminum og eru viðskiptavinir hennar alþjóðlegur hópur kvenna.

„Þetta eru heilnæmar æfingar sem henta öllum, sama hvar þú ert í þínu lífi, í hvaða formi sem þú ert eða á hvaða aldri. Þetta er í rauninni fyrir alla,“ segir Sara Snædís um heilsu- og æfingasíðuna Withsara.com. Í heimsfaraldrinum stofnaði hún fyrirtækið og bjóst ekki við því að þetta yrði atvinnan hennar fimm árum síðar. Viðtökurnar komu verulega á óvart. Viðskiptavini má finna úti um allan heim sem geta valið úr yfir fimm hundruð æfingum allt frá pilates, barre, jóga og öndunaræfingum til teygju- og styrktaræfinga svo eitthvað sé nefnt.

„Ég held að tímasetning skipti alveg ótrúlega miklu máli. Við byrjuðum þegar verið var að loka stöðvum og fólk almennt í vandræðum með hvar og hvernig það átti að æfa. Ég kem akkúrat inn á þeim tíma. Ég bjóst aldrei við þessu, hélt ég myndi aðeins fá nokkrar konur en þetta var ótrúlegt. Ég bjóst ekkert endilega við að vera að gera þetta fimm árum síðar,“ segir Sara Snædís.

Stór hópur kvenna hefur verið viðskiptavinir alveg frá upphafi.

„Það er dýrmætt og sýnir að það er hægt að byggja upp góða rútínu heima hjá sér. Þú getur auðvitað æft hvar sem er, heima hjá þér, í útlöndum eða farið í ræktina og gert æfingarnar. Af því að ég er að bjóða upp á nýjar æfingar í hverri viku, nýjar áætlanir og æfingaplön þá er hægt að halda svakalega góðum dampi, byggja upp gott form, heilsu, úthald og líða svakalega vel.”

Sara Snædís kennir í kringum 90% af öllum æfingum sem eru inni á síðunni en hefur fengið kennara víða að til að halda námskeið. Þetta eru hugleiðslu-, öndunar- og styrktaræfingar meðal annars en uppáhaldsnámskeið Söru Snædísar er námskeið sem var ár í þróun. „Þetta er svona „cycle-zincing“-námskeið. Þetta er í raun í formi viðtals þar sem við tölum um mikilvægi þess að lifa í takt við tíðahringinn sinn. Jen, sem kennir þetta með mér, er ótrúlega fróð um hormónaheilsu kvenna og mataræði sem er gott fyrir konur að fylgja á tíðahringnum og öllum stigum svo hún kom með góða vitneskju inn í námskeiðið,“ segir hún.

 

Lifðu eins og í draumi á Spáni

Þegar hún stofnaði Withsara var hún búsett ásamt fjölskyldu sinni í Svíþjóð. Eftir viðkomu á Suður-Spáni eru þau flutt heim og hafa komið sér vel fyrir.

Hvað varð til þess að þið fluttuð heim?

„Það var alltaf planið að koma heim en svo fór svo vel um okkur í Svíþjóð að við tímdum ekki að koma heim strax. Upphaflega fluttum við til að fara í nám fyrir um sjö árum en svo, eins og lífið er, þá breyttust aðstæður. Ég stofnaði fyrirtæki og maðurinn minn var með fyrirtæki sjálfur úti líka svo við duttum aðeins í annan gír en við byrjuðum í. Þá var orðið erfiðara að flytja heim og vorum ekki tilbúin í það strax. Stelpurnar okkar elskuðu að búa þarna og okkur leið svo vel. Við hugsuðum: af hverju að rífa okkur úr aðstæðum sem okkur líður vel í? En hugurinn leitaði alltaf heim og við vissum að við myndum leita heim á endanum,“ segir Sara Snædís.

„Fyrir rúmu ári ætluðum við að kaupa okkur húsnæði í Svíþjóð en ákváðum áður en við keyptum að eyða ári annars staðar. Systur mínar bjuggu báðar á Spáni og við ákváðum að flytja þangað áður en við myndum fjárfesta í eign í Stokkhólmi. Við fórum þangað og áttum algjört draumaár með stelpunum, systrum mínum og fjölskyldum. Eftir á er þetta eins og að hafa lifað í einhverjum draumi.“

Fjarlægðin frá Stokkhólmi og tíminn með fjölskyldunni fékk hjónin til að hugsa sig betur um áður en þau keyptu sér húsnæði. „Eldri dóttir okkar var að verða tíu ára og við ætluðum alltaf heim. Svo það var annaðhvort að kaupa í Stokkhólmi og vera þar eða prófa að fara heim. Við ákváðum að fara heim og sjáum ekki eftir því. Við fundum dásamlegt hús og það fer ótrúlega vel um okkur,“ segir hún.

Hún getur unnið hvar sem er í heiminum.

„Það er náttúrlega það þægilega við þetta. Það er ákveðinn lúxus sem fylgir því að vera í eigin rekstri sem er algjörlega á netinu. Ég get tekið upp tímana alls staðar í heiminum og er ekki bundin við eitt stúdíó. Maðurinn minn hefur svo unnið með mér í Withsara síðustu ár sem gerði okkur til dæmis kleift að fara til Spánar með stuttum fyrirvara. Hann hefur verið í þessu með mér hingað til en er í sínum eigin verkefnum líka eftir að við komum heim. Við skiptum þessu svolítið upp.“

Sara Snædís segist brenna fyrir að styðja við heilsu kvenna. „Mig langar að halda áfram að bjóða upp á framúrskarandi æfingar sem virka vel fyrir allar konur, halda áfram að veita innblástur að heilsu, minna konur á hvað heilsan er dýrmæt og að við þurfum að sinna henni vel. Við verðum að gefa okkur tíma og megum ekki taka heilsunni sem sjálfsögðum hlut.“

 

Fylgir engum öfgum

Öfgar og ýkjur séu ekki það sem eigi að búast við frá henni.

„Ég fylgi engum öfgum og hef aldrei gert. Það eru engin svakaleg matarplön og enginn að segja að þú þurfir að æfa í klukkustund á dag til að ná árangri. Þetta snýst um að hlúa vel að sér á hverjum degi og vilja líða sem best í eigin skinni. Æfingarnar eru þannig byggðar upp, sumar eru aðeins fimm til tíu mínútur og engin er lengri en þrjátíu mínútur. Þú getur alltaf fundið æfingu sem hentar þér frá degi til dags, stundum höfum við ekki lengri tíma en það er alltaf betra að taka tíu mínútur en að sleppa því. Líkaminn þarf á æfingu að halda á hverjum degi, bara mismikið,“ segir hún.

Eru margar íslenskar konur að æfa með Withsara?

„Já, ég er með ótrúlega stóran og tryggan íslenskan hóp sem mér þykir svo vænt um sem hefur verið með mér frá upphafi. Ég bjó auðvitað í Svíþjóð, var að kenna þar og var komin með stórt net þarna úti. Áður en ég flutti út var ég að kenna í Hreyfingu svo ég var með minn hóp, en með tíð og tíma breytast aðstæður. Maður veit aldrei en það hafa verið konur með mér frá upphafi og hafa líka bæst við á síðustu árum. Það sýnir sig líka þegar ég held viðburði, þeir fyllast fljótt og það er ótrúlega gaman. Ég held því áfram hér á Íslandi.“

Tekurðu eftir nýjum tískubylgjum í heilsu?

„Ég fagna því að það sem ég hef reynt að koma út er að verða algengara. Þetta snýst ekki lengur um að brenna sig út í æfingu, brenna eins mörgum kaloríum og hægt er eða svitna eins mikið og maður getur. Þetta snýst um að æfa til lengri tíma, engar skammtímalausnir og það sýnir sig í mataræði og æfingum. Skammtímalausnir eru ekki lykillinn að heilbrigðu líferni. Þetta snýst um samræmi í æfingu og mataræði og ég vona svo innilega að þetta haldi áfram að blómstra í samfélaginu og á meðal fólks. Þetta er langtímaverkefni,“ segir hún.

„Svo eru skemmtilegar lausnir eins og rauðljósatískan sem mér finnst frábær og heit og köld þerapía sem er bráðholl fyrir okkur. Það er engin nýjung í raun og veru en það er það fyrir stórum hópi. Nú er almenningur farinn að sinna þessu meira, sem ég fagna. Heilsa er miklu meira en að fara á æfingu í klukkutíma á dag og vera á sérstöku mataræði. Heilsa er líka gæði svefns og þetta er svo fjölþætt. Mér líður eins og við séum svolítið á leið í þessa átt.“

Mikill hraði í samfélaginu

Hvað ætlar þú að gera á nýju ári?

„Nýir kaflar finnst mér mikilvægir. Það er nýr kafli í byrjun árs, mér finnst vera nýr kafli í byrjun september og stundum eru mánudagar líka nýr kafli. Að byrja fersk finnst mér mikilvægt. Ég horfi til baka, þannig læri ég og get bætt úr því sem ég vil gera betur. Ég fer yfir gamla árið, skoða myndir og punkta hjá mér hvað ég lærði á árinu, hverju ég er stolt af og hvað ég hefði viljað gera betur. Ég nota það til að byrja nýtt ár fyrir sjálfa mig,“ segir Sara Snædís.

Árið ætlar hún að hefja með fjögurra vikna janúaráskorun sem hundruð kvenna um allan heim taka þátt í. „Til að byrja árið á sem besta og heilnæmasta hátt. Allir geta tekið þátt í henni sem vilja byrja árið vel, byggja upp líkamann og komast í góða rútínu fyrir komandi ár.“

Hún ætlar þó að reyna að hægja á sér.

„Við fluttum til Íslands frá Spáni og íslenska samfélagið er svolítið hratt. Það er mikið í gangi og ég datt í þann takt. Ég var svo meðvituð um það, ætlaði ekki að gera það. En ég ætla að fara inn í nýtt ár meðvituð; þótt ég búi á Íslandi og þótt ég sé í þessu samfélagi þá þurfi það ekki að þýða að maður sé í þessum förum. Það má stíga skref til baka, hlúa að sér og hlusta á líkamann. Ég hef alltaf gert það og það er mottó í mínu lífi. Sama hvað gengur á er heilsan ekki sjálfsagður hlutur og ég verð að hugsa vel um mig. Stundum er það í formi góðrar æfingarútínu, hugsa vel um svefninn eða drekka vel af vatni. Þetta kemur í alls konar formi og ég hlusta á hvað ég þarf hverju sinni.“

til baka