lau. 15. feb. 2025 08:30
Erla Rut Rögnvaldsdóttir og Davíð Þór Gunnarsson með soninn.
Láta barneignir ekki stoppa ferðalögin

Davíð Þór Gunnarsson og Erla Rut Rögnvaldsdóttir hafa verið saman í fjórtán ár eða nánast hálfa ævina. Þau kynntust á menntaskóla árunum en í dag starfar Davíð sem lyfjafræðingur og Erla er í sérnámi í almennum lyflækningum. Ferðalög hafa einkennt samband þeirra en þau hafa komið til 44 landa saman. Þau létu fæðingu frumburðarins ekki stoppa ævintýrin og hefur sonur þeirra, Elvar Freyr, komið til fjórtán landa á sínu fyrsta ári.

„Við höfum bæði alltaf haft gaman af ferðalögum en þessi mikli áhugi byrjaði eftir fimm mánaða Asíureisu sem við fórum í árið 2014,’’ segja þau.

Farið þið í ferðalag á hverju ári?

„Við förum árlega í nokkrar ferðir, venjulega í eina til tvær langar ferðir sem eru þá oft um fjórar til sex vikur og svo í styttri ferðir til Bandaríkjanna eða Evrópu á vorin og haustin,“ segir hún. 

Er annað ykkar meira í því að plana og undirbúa ferðirnar?

„Davíð er mun duglegri að plana og undirbúa ferðirnar. Hann hefur í gegnum tíðina sankað að sér alls konar aðferðum og trixum til þess að finna ódýrustu flugin, hótel góðu verði og þess háttar,“ segir hún. 

 

Hvaða lönd eru í uppáhaldi hjá ykkur og af hverju?

„Það er mjög erfitt að velja en þau lönd sem við förum endurtekið til eru Taíland, Víetnam og Mexíkó. Stór hluti af okkar ferðalögum snúast um matarmenningu landanna sem er líklega ástæðan fyrir því að þessi lönd eru í uppáhaldi.“

Er einhver áfangastaður sem ykkur hefur fundist krefjandi að ferðast um?

„Við erum orðin mjög vön því að ferðast á afskekktum og framandi stöðum svo það er hægt að segja að lítið komi okkur á óvart núna. Þegar við fórum í reisuna okkar árið 2014 tókum við eftir því hvað umferðin var hæg milli borga í mörgum löndum. Kílómetrafjöldinn var oft lítill en það tók samt sem áður mjög langan tíma að keyra á milli,“ segir hann. 

Hvernig var fyrsta ferðalagin ykkar með barn?

„Við eignuðumst son okkar hann Elvar Frey þann 17. janúar árið 2024. Við höfðum ákveðið að þegar við eignuðumst börn myndu þau ferðast með okkur og fannst okkur tilvalið að fara í aðra reisu í fæðingarorlofinu. Við ákváðum að fara þegar hann væri búinn að fá barnabólusetningarnar tvisvar svo hann fór út tæplega fimm mánaða og kom heim tæplega átta mánaða. Ferðin var því um þrír mánuðir og fórum við til Grikklands, Kýpur, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Indlands, Malasíu, Indónesíu, Víetnam, Taívan, Taílands og Singapúr. Ferðalagið með barn gekk vonum framar. Við erum vön að ferðast um allan heim og við þurftum í rauninni bara að aðlaga ferðina að honum. Við t.d. pöntuðum bílaleigubíl mun oftar en við erum vön og á stöðum þar sem erfiðara var að keyra sjálf, þá vorum við með einkabílstjóra. Elvar var mjög fljótur að aðlagast hitanum en það var í kringum þrjátíu gráður allan tímann. Það skemmir heldur ekki fyrir að hann elskar að leika sér í sundlaugum,“ segir hún. 

 

„Tímamismunurinn var okkur í hag, þ.e. háttatíma seinkaði því austar sem við fórum svo við náðum að gera meira en við bjuggumst við. Við náðum að fara á alla kvöldmarkaði sem okkur langaði til að skoða því Elvar fór oft ekki að sofa fyrr en klukkan tíu á kvöldin og vaknaði á móti seinna á morgnanna en hann er vanur,“ segir hún. 

 

Voruð þið fjölskyldan ein allan tímann í ferðinni?

„Við vorum með hóp þrisvar sinnum í ferðinni. Fyrsti áfangastaðurinn var Grikkland þar sem okkur hafði verið boðið í brúðkaup hjá vinapari og vorum við þá í viku með vinum. Næsti áfangastaður var Kýpur þar sem við vorum í tvær vikur með fjölskyldu Davíðs. Svo í miðri ferð vorum við með minni fjölskyldu í þrjár vikur í Indónesíu en milli þess vorum við ein. Það var æðislegt að fá hjálp frá fjölskyldu og vinum svona inn á milli,“ segir hún. 

 

Uppfull af ferðaráðum

Eru þið með einhver ráð varðandi það að ferðast með ungbarn?

„Við erum með þónokkur ráð sem við uppgötvuðum á ferðalaginu með Elvar. Varðandi flugferðir þá er oftast óþarfi að borga sæti fyrir barn á þessum aldri, börn undir tveggja ára fá yfirleitt aukasæti ef það er laust í vélinni. Við keyptum stundum sæti fyrir Elvar ef flugið var í lengri kantinum, þá vorum við að miða við fimm klukkustunda flug eða lengra. Okkur þótti þá gott að vera alveg örugg að fá sæti fyrir hann. Við mælum með því að taka bílstól með í vélina og nota hann þá í þessu aukasæti. Flest flugfélög eru samt mjög rög við að leyfa manni að taka bílstólinn alveg að flugvélinni. Við heyrðum endurtekið af því að vélin væri full en í flestum tilfellum var það ekki rétt, og við fengum aukasæti. Ef það færi á versta veg og raunin væri sú að ekkert sæti væri laust, þá er möguleiki að innrita bílstólinn sem farangur, þegar komið er að vélinni. En það að hafa stólinn bjargaði lengri flugunum okkar þar sem hann svaf yfirleitt vel í honum. Fyrir svona langt ferðalag með mörgum flugum þá er mikilvægt að taka með sér ferðakerru sem er hægt að koma fyrir í farargsrýminu fyrir ofan sætin. Okkur þótti afar þægilegt að hafa okkar eigin kerru á öllum flugvöllum,“ segir hún. 

 

Svefn sonarins var vel skipulagður þrátt fyrir að fjölskyldan væri á ferð og flugi. 

„Hann gat alltaf tekið fyrsta og síðasta lúr dagsins á ferðinni hér og þar. Miðju lúrinn hann var lengstur og við pössuðum okkur að hafa hann uppi á hótelherbergi eða í bíl. Með því að gera þetta svona þá gátum við gert eitthvað öll saman í u.þ.b. fimm klukkustundir, bæði fyrir og eftir langa lúrinn. Varðandi gistingarnar sem við bókuðum, þá ákváðum við að leyfa okkur að vera á hótelum í fínni kantinum og hafa þægindin í fyrirrúmi. Við vorum annað hvort í villu með einkasundlaug eða reyndum að vera á hótelherbergi sem var við sundlaug. Þannig gátum við bæði verið við sundlaugarbakkann á meðan hann lagði sig, þar sem við sáum innganginn að herberginu okkar. Síðast en ekki síst vorum við með tvær ferðaviftur fyrir Elvar sem var mjög mikilvægt í hitanum,“ segir hún. 

 

Eru einhver eftirminnileg atvik sem standa upp úr frá ferðum ykkar?

„Við höfum minnst ferðast um Afríku en fyrir nokkrum árum fórum við þangað ásamt bróður Davíðs. Við heimsóttum Rúanda, Úganda og Kenía. Það kom okkur mikið á óvart hversu auðvelt var að ferðast þar um en við leigðum bíl sjálf og keyrðum um Rúanda. Þar voru vegirnir almennt góðir og þægilegt að keyra. Við fylgdum hins vegar Google Maps aðeins of bókstaflega á leið okkar að landamærum Úganda, sem leiddi okkur um mikla sveitavegi. Eftir langan akstur komum við að mjög ótraustvekjandi timburbrú. Við vorum í smá tíma að skoða hana og mana okkur upp í að keyra yfir, en nokkrir heimamenn voru þá komnir og voru þeir fullvissir um að þetta væri ekkert mál. Á endanum löbbuðu Erla og bróðir Davíðs yfir brúna og Davíð keyrði hratt yfir á þungum Land Cruiser bíl. Brúin hristist og það brakaði hressilega í henni en þetta lukkaðist sem betur fer,“ segir hún. 

 

Erla segir að frá þessari ferð sé líka eftirminnilegt hvað safaríið í Úganda og Kenía. 

„Það var stórkostlegt, það fór langt fram úr okkar væntingum. Það er svo rosalega mikið líf á sléttunum á þessu svæði, sérstaklega á Masai Mara svæðinu í Kenía. Það leið varla meira en mínúta milli þess sem við urðum vitni af dýralífinu þar. Okkur þykir svo alltaf skemmtilegt þegar við kynnumst fólki frá landinu sem við erum í. Fyrir nokkrum árum vorum við tvö í Srí Lanka og sátum þar á bar. Við spjölluðum við nokkra heimamenn sem endaði með því að þeir buðu okkur í heimabæinn sinn daginn eftir. Við þáðum það, ætluðum að fara annað daginn eftir en lengdum dvölina þarna um eina nótt. Við vörðum svo öllum deginum með þeim og sýndu þeir okkur bæinn sinn og buðu okkur svo í kvöldmat heim til sín. Það var alveg ótrúlega skemmtilegt.“

 

Erla og Davíð leigðu einkabílstjóra á Indlandi þegar þau voru á ferð með son sinn. 

„Við tókum bílstólinn alltaf með í bílinn sem bílstjóranum fannst skrítið og sagði hann endurtekið ,,það notar enginn bílbelti í Indlandi og börn eru ekki í bílstólum”, og honum þótti afar fyndið hvað við vorum taugaveikluð með þetta. Aftur á móti hafði hann miklar áhyggjur af Elvari þegar það var pínulítil rigning og við ekki með regnhlíf fyrir hann en samt var þrjátíu gráðu hiti. Svo þegar Elvar var að leika sér að naga viftuna sína hafði hann miklar áhyggjur af því að viftan myndi skera tunguna á honum. Forgangsröðunin var eitthvað skrítin þar sem hann myndi slasast mun meira í bílslysi en að fá nokkra dropa á sig eða lítinn viftuspaða í tunguna.“

Eru einhver ferðaplön á næstunni?

„Við fórum í foreldrafrí fyrir stuttu til Boston á meðan Elvar var í pössun hjá ömmu sinni og afa. Árið 2025 langar okkur að fara í ferð með Elvari Frey, til Bandaríkjanna og Mið- Ameríku, þá erum við mest að skoða Kosta Ríka, Gvatemala og Dóminíska Lýðveldið.“

til baka