Sigríður Sunneva Eggertsdóttir, oftast kölluð Sunneva, hefur verið búsett í Kaupmannahöfn í tvö ár. Hún flutti upphaflega til Danmerkur til að hefja meistaranám við Copenhagen Business School í stjórnun skapandi viðskiptaferla eftir að hafa lokið við viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík.
Ásamt náminu hefur hún starfað hjá versluninni Illum og sinnir markaðsmálum í fjarvinnu. Hún segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á tísku.
„Tískuáhuginn hefur klárlega magnast eftir að ég flutti út og byrjaði að vinna í tískusenunni. Ég gæti ekki verið ánægðari með námið sem ég lauk síðasta sumar, það opnaði svo margar dyr og kynnti mig fyrir fólki sem ég get kallað bestu vini mína í dag,“ segir Sunneva.
Ferðalög munu einkenna 2025
Hvað er á döfinni hjá þér á nýju ári?
„Það er margt á döfinni fyrir árið 2025 og ég get ekki trúað öðru en að þetta verði frábært ár. Stór ástæða þess að ég flutti til Danmerkur var að ferðast meira og kynnast mismunandi menningarheimum. Ævintýrið heldur áfram þar sem ég er nú þegar búin að setja saman þó nokkur ferðaplön fyrir árið 2025. Þar með talið er Búdapest, Spánn, Ástralía og Japan. Svo eru að sjálfsögðu ferðir til Íslands þar með í pakkanum líka.“
Hún er nýflutt inn í íbúð í Norrebro-hverfinu og hefur verið að koma sér fyrir síðustu vikur. „Það er yndislegt. Ég hlakka mikið til að kynnast hverfinu betur þar sem það er endalaust af sætum kaffihúsum, vintage-búðum og veitingastöðum í göngufæri. Einnig er pilates-stúdíó rétt hjá íbúðinni okkar sem hefur verið nýjasta æðið hjá mér þessa dagana.“
Sunneva ætlar sér að setja fyrir sig nýjar áskoranir á árinu. „Það hefur verið svo skemmtilegt að vinna hjá Illum. Ég starfa með frábæru fólki sem veitir mér svo mikinn innblástur þegar kemur að tísku. Árið 2025 langar mig að byrja að vinna í hugmyndum sem ég hef verið að spá í lengi. Þetta verður klárlega spennandi ár.“
Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?
„Ég myndi segja að fatastíllinn minn sé mjög breytilegur og fer voða eftir því hvaða tímabili ég er á. Almennt myndi ég segja að ég hallast að fötum sem eru þægileg og nokkrum númerum of stór á mig. Ég legg mikla áherslu á að kaupa gæðaflíkur sem endast vel og ég veit að ég fæ ekki leið á strax. Ég hef verið að leika meira með liti síðustu ár eftir að hafa verið vön að vera alltaf bara í svörtu. Til að taka það saman snýst það bara voða mikið um hvaða stuði ég er í frekar en eitthvað eitt fagurfræðilegt.“
Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?
„Það sem er svo frábært við Illum að það er í rauninni engin ein regla þegar kemur að klæðaburði. Við erum hvött til að klæða okkur eftir eigin stíl til að veita kúnnum og samstarfsmönnum innblástur. Það hefur haft gífurleg áhrif á hvernig stíllinn minn hefur þróast síðustu ár og mér finnst fátt skemmtilegra en að gera mig til fyrir vinnuna.
Suma daga er ég í meira „Office-core“-stuði þar sem ég er í stórum blazer-jakka eða skyrtu við jakkafatabuxur. Aðra daga er ég í meira götustílsstuði þar sem ég er meira í flíkum eins og víðum gallabuxum eða parachute-buxum, skyrtum, víðum bolum og/eða polo-bolum. Ég hef unnið mikið með merkjavöru síðustu ár og finnst mér því einstaklega gaman að setja hælaskó við föt sem maður hefði ekki endilega parað hæla við.“
Hefur starfið þitt áhrif á hversdagslegan klæðnað?
„Já, klárlega. Eins og ég nefndi áðan erum við hvött til að prófa okkur áfram og láta persónuleikann skína í gegnum fatastílinn. Ekki nóg með það en þá eru allir svo duglegir að hrósa og hvetja í vinnunni og það byggir klárlega upp sjálfsöryggið.“
En þegar þú ert að fara eitthvað fínt?
„Þegar ég er að fara eitthvað fínt finnst mér mjög gaman að fara alla leið. Þessa dagana hef ég verið að vinna mikið með síð pils við boli eða sæta kjóla við flotta hælaskó. Ég er svo alveg eins og hún amma mín Sigríður Kolbeinsdóttir sem var alltaf skínandi af glingri þegar hún fór eitthvað fínt. Eins og amma er ég alltaf með fullt af eyrnalokkum, hringum og armböndum. Ég set svo hárið oftast upp í snúð og þá er ég tilbúin.“
Fyrir hverju fellur þú oftast?
„Ég fell fyrir mjög mörgu ef ég á að segja eins og er. Ég horfi mikið á lögun, hvernig flíkin mótast að líkamanum, sem og efnin í flíkinni. Það skiptir miklu fyrir mér þegar ég er að setja saman dress. Ég elska brúnar litapallettur sem og skemmtileg mynstur og áferðir. Í rauninni þegar ég horfi á flík þá er þetta svona „ég veit þegar ég veit“ hvort að hún sé minn stíll eða ekki.“
Bestu fatakaupin?
„Ég keypti skyrtu frá Stockholm Surfboard Club um daginn og ég er búin að nota hana svo oft. Hún er mjög fallega köflótt með brúnni, bleikri og gulri litasamsetningu. Ég elska litina og sniðið. Annars er mjög erfitt að velja eina uppáhalds flík þar sem það eru svo margar flíkur í skápnum mínum sem ég elska. Ég verð líka að nefna stóru gallabuxurnar mínar frá Jaded London sem ég keypti á Vinted. Ég nota þær við flestalla toppana mína og para dressið síðan saman með sætum kisuhælaskóm.“
Verstu fatakaupin?
„Verstu fatakaupin mín hafa í gegnum tíðina meira verið tengd sundfötum og skóm. Ég er á milli stærða í skóm þannig hef oft brennt mig á því að kaupa annaðhvort of lítil eða of stór númer. Sama gegnir með sundföt. Mér hefur alltaf þótt erfitt að finna snið sem fara mér vel og hef ég því oft séð eftir kaupum þar.“
Flest hátískumerkin í vinnunni
Uppáhaldsfylgihlutir?
„Uppáhaldsskórnir í skápnum mínum eru Gia Borghini-stígvélin mín sem eru sandlituð úr rúskinni og Maison Margiela Tabi-slingback-hælaskórnir mínir úr lökkuðu leðri.“
Áttu þér uppáhaldsmerki - eða búðir til að versla í?
„Ég fæ mikinn innblástur í vinnunni þar sem að við erum með flestöll hátískumerkin. Ég versla hins vegar mest á Vinted þar sem er hægt að finna svo mikið úrval af ótrúlega flottum vintage-flíkum frá flestöllum merkjum. Uppáhaldsmerkin hjá mér þessa dagana eru líklegast Acne Studios, Jil Sander, Oval Square og Entire Studios.“
Áttu þér uppáhaldsliti?
„Ég hef í rauninni aldrei getað svarað þessari spurningu. Ég á mér ekki uppáhaldslit en það eru klárlega sumir litir sem ég myndi ekki klæðast af því þeir fara mér bara alls ekki vel, eins og dökkrauður til dæmis.“
Hvað er á óskalistanum þínum?
„Mig langar í flestallt úr línu 9 frá fatamerkinu Entire Studios. Þau eru svo ótrúlega klár að vinna með fallegar litapallettur og snið. Það væru flíkur sem ég myndi eiga í langan tíma. Ég hef einnig verið á höttunum eftir fallegri kápu í þó nokkuð langan tíma en einhvern veginn finn ég aldrei neina sem talar fullkomlega til mín.“
Hvaðan sækir þú innblástur þegar þú setur saman föt?
„Ég sæki mikinn innblástur frá fólkinu í kringum mig. Vinkonur mínar klæða sig allar svo vel sem og vinir mínir í vinnunni. Einnig gæti ég eytt tímunum saman á Pinterest til að fá fatahugmyndir og ég sæki mjög mikinn innblástur þangað líka. Ég fæ svo auðvitað líka voða mikinn innblástur frá samfélagsmiðlum eins og Instagram og Tiktok.“
Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndir þú kaupa þér?
„Allan óskalistann minn! Og fallegt málverk í nýju stofuna okkar.“