Einar Hugi Bjarnason lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem spyr hvort hann þurfi að borga innheimtufyrirtæki.
Sæll Einar Hugi.
Þarf ég að greiða eða semja við innheimtu fyrirtæki sem hafa tekið við innheimtu á skuld hjá mér. Er ekki fyrirtækið sem ég skuldaði reikninga hjá búinn að selja t.d. Momentum skuldina og þar sem ég var aldrei í viðskiptum við Momentum þá er ég í raun orðin skuldlaus við þann sem ég skuldaði og Momentum að senda mér tilhæfulausa reikninga.
Kveðja,
KL
Góðan dag.
Ef krafan er lögmæt og til hennar stofnað með réttmætum hætti er hún virk nema að hún hafi verið greidd að fullu, sé fyrnd eða fallin niður vegna tómlætis.
Það að krafa sé send til innheimtuaðila til innheimtu jafngildir því ekki að krafan hafi verið framseld til innheimtuaðila og kröfuréttarsambandi þínu við upphaflegan kröfuhafa sé þar með lokið. Slíkt er þó ekki útlokað í þeim tilvikum þegar innheimtuaðili kaupir kröfur í þeim tilgangi að innheimta þær sjálfur í atvinnuskyni.
Miðað við lýsingu þína eru líkur til þess að innheimtuaðilanum hafi aðeins verið falin krafan til innheimtu og er innheimtufyrirtækið því að innheimta skuldina fyrir hönd kröfuhafans á grundvelli samnings þeirra á milli. Undir þessum kringumstæðum eru innheimtubréfin sem þú færð ekki tilhæfulaus, en þess ber að geta að innheimtuaðili er við innheimtu sína bundinn af reglum innheimtulaga nr. 95/2008.
Kveðja,
Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Einari Huga og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.