sun. 26. jan. 2025 22:00
Samskiptahættir á stefnumótasíðum geta verið slæmir.
Fannst ljótt að hundsa þar til hún gerði það sjálf

Rithöfundurinn Bec Oakes var alltaf þeirrar skoðunar að það væri ljótt að „gósta“ eða hundsa fólk í samskiptum. Svo neyddist hún til þess að slökkva umsvifalaust á samskipti sín við mann og það reyndi mjög á hana.

„Stefnumótaheimurinn getur verið harður og samskiptin á stefnumótasíðum geta verið afar slæm og óheilbrigð. Það er orðið æ vinsælla að „gósta“ einhvern en þá hættir viðkomandi snögglega öllum samskiptum án útskýringa. Sá sem er „góstaður“ situr eftir með sárt ennið og veltir fyrir sér hvað hann gerði rangt.“

„Mér fannst þetta alltaf mjög köld leið í samskiptum en svo kynntist ég Harry. Við hittumst á stefnumótasíðu og hittumst í drykk. Kynnin voru ekki jafngóð í eigin persónu og á netinu. Samtölin voru stirð og mér fannst upplifunin óþægileg. Ég bjó til afsökun og kvaddi.“

„Daginn eftir fékk ég skilaboð frá Harry þar sem hann sagðist hafa skemmt sér vel og mér leið samstundis illa. Ég vissi að ég ætlaði aldrei að hitta hann aftur en gat ekki fengið mig til þess að segja honum það. Hann hélt áfram að senda á mig næstu vikur en ég hundsaði hann og á endanum hætti hann að reyna.“

„Mér leið illa, stundum grét ég af nagandi samviskubiti yfir að gera honum þetta. Í marga mánuði var ég með í maganum og þessi reynsla varð til þess að ég sá „góstara“ í öðru ljósi en áður. Það að hundsa einhvern þýðir ekki endilega að manni sé sama. “

„Sambandssérfræðingar segja að þeir sem hundsa aðra séu bara ekki reiðubúnir fyrir alvarleg samtöl. Aðrir óttast að særa tilfinningar hins aðilans eða hafa bara ekki tilfinningaþroska til að taka á slíkum samskiptum með almennilegum hætti. Fólk reynir að forðast átök og vill ekki upplifa vanlíðan þess sem verið er að særa. Stundum er auðveldara að láta sig hverfa.“

„Sumir eru bara sjálfhverfir en aðrir eiga það til í að ofhugsa allt og mikla fyrir sér að segja þeim að þeir hafi ekki áhuga á frekari kynnum. Slá því stöðugt á frest og á endanum gera ekki neitt. Það gerðist einmitt með Harry, ég var svo lengi að ákveða hvernig ég ætti að segja honum að ég hefði ekki áhuga að á endanum var það orðið of seint.“

til baka