Hin 28 ára Guðbjörg Ósk Einarsdóttir er með marga bolta á lofti. Hún er menntaður rekstrarverkfræðingur og leggur nú stund á mastersnám í verkefnastjórnun. Einnig rekur hún vefverslunina melba.is ásamt systur sinni. En Guðbjörg býr erlendis og hefur gert síðastliðin ár vegna vinnu unnustans.
„Unnusti minn, Guðmundur Þórarinsson, er atvinnumaður í fótbolta og erum við svo heppin að hafa upplifað að búa saman á hinum ýmsu stöðum í gegnum vinnuna hans. Við höfum búið í New York í Bandaríkjunum, í Álaborg í Danmörku, svo bjuggum við í tvö ár á Krít í Grikklandi og núna búum við í Yerevan í Armeníu en við fluttum hingað síðastliðið haust.“
Hvernig var þín upplifun af því að búa á Krít?
„Mín upplifun var mjög góð, á Krít skín sólin flesta daga ársins og menningin er allt önnur en ég er vön. Lífið þar er mikið hægara og fólk er ekki mikið að stressa sig á hlutunum. Ég var ófrísk þegar við fluttum til Krítar og það var mikill kostur að geta undirbúið sig fyrir komu barnsins í þessu afslappaða andrúmslofti. Að geta svo farið í göngutúra allan ársins hring í góðu veðri er eitthvað sem ég kunni vel að meta með lítið barn og komandi frá Íslandi. Það spilar svo kannski líka stóran sess í okkar upplifun af Krít, að við eignuðumst okkar fyrsta barn þar. Við eigum því margar dýrmætar minningar þaðan og munum við alltaf eiga fallega tengingu við eyjuna.“
Dóttir Guðbjargar og Guðmunds fæddist fyrra árið þeirra á í Grikklandi og heitir hún Hera Malen og er skírð eftir borginni sem hún fæddist í, Heraklion og grísku gyðjunni Heru.
Hvernig var að eignast barn erlendis?
„Það gekk sem betur fer rosalega vel að eignast barn á Krít. Ég var mjög heppin með fæðingarlækni sem fylgdi mér alla meðgönguna. Hún talaði góða ensku svo að samskiptin gengu vel og hún var svo viðstödd í fæðingunni. Það virðist ekki vera mikil hefð fyrir því þarna að makinn fái að taka virkan þátt í fæðingunni, en ég frekjaðist til að fá að hafa Gumma með mér. Hinir makarnir sátu frammi á biðstofunni. Að geta svo labbað heim af spítalanum í febrúarmánuði í 20 gráðum var einstakt. Næstu mánuðir voru yndislegir, en það var líka krefjandi að vera ein erlendis, frá fjölskyldu og vinum.“
Eigið þið fjölskyldan ykkur uppáhalds svæði á Krít?
„Já, það er mikið af flottum svæðum á Krít. Fyrra árið bjuggum við í höfuðborginni Heraklion. Borgin er lítil og þægileg og miðbærinn er með marga fína veitingastaði. Uppáhalds veitingastaðirnir okkar í borginni eru Via Pastarella og Petousis Restaurant. Frankly Cafe er kaffihús sem við fórum oft á og er það við hliðin á fallegu kirkjunni Agios Minas. Seinna árið fluttum við svo í strandbæinn Kato Gouves sem er í um tuttugu mínútna keyrslu frá borginni. Á því svæði er mikið af fínum ströndum og hótelum. Þar nálægt eru hótelin The GDM Island Hotel, Stella Island og Amirandes Grecotel Resort og getum við mælt með þeim öllum. Svo dvöldum við Daios Cove Luxury Resort þegar Hera Malen var lítil og það var virkilega gaman. Uppáhalds strendurnar okkar voru sem dæmi Psaromoura strönd, Agia Pelagia strönd og Sarandaris strönd sem er mjög lítil og eru fáir sem vita af henni. Svo er ein aðeins þekktari strönd sem heitir Matala og er hún mikið fyrir augað. Á Krít er líka skemmtileg upplifun að skoða bæi sem eru ekki þekktir og sjá hvernig fólk lifir þar. Við tókum stundum rúnt og leyfðum tilviljunum að ráða förinni, þá fengum við oft skemmtilegar upplifanir af litlum bæjum sem voru ekki litaðir af túrismanum sem er á eyjunni. Annars getum við mælt með bænum Agios Nikolaos.“
Hvernig er að búa í Yerevan?
„Yerevan hefur komið mér mjög skemmtilega á óvart. Veðrið er gott, maturinn er góður og borgin býður upp á alla helstu þjónustu og mikið af fallegum kennileitum. Það eru leifar hér og þar af gamla Sovét stílnum og byggingum, í bland við nýjar byggingar. Ég vil líka nefna það hvað Armenar eru yndislegir, alveg sérstaklega hjálplegir og góðir. Ég vissi ekki mikið um borgina áður en við fluttum hingað en ég hafði reynt að kynna mér það sem ég gat á netinu. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað allt er vandað í Yerevan. Heimamenn leggja mikið upp úr því að halda borginni snyrtilegri og fallegri og það er mikið af fallegum gróðri.“
Hvað eru þið lengi að aðlagast nýjum stöðum?
„Gummi fer alltaf út á undan okkur og leggur grunninn að því að við getum komið í framhaldinu. Hann er þá búinn að skoða hvar er gott að búa í borginni og við finnum svo húsnæði í sameiningu, með því að senda myndir og myndbönd á milli okkar. Eftir að við komum út reynum við svo að græja það sem þarf sem allra fyrst og koma rútínu á hlutina. Þetta hefur alltaf gengið mjög hratt og örugglega fyrir sig, svo lærum við hægt og rólega að finna bestu leikvellina, kaffihúsin og fleira.“
Hvað er það besta og versta við að búa erlendis?
„Það besta er að fá að kynnast ólíkri menningu og upplifa öll ævintýrin sem fylgja hverjum stað. Það versta er án efa að vera í burtu frá fjölskyldu og vinum.“
Ertu að ná að læra tungumálin þar sem þú býrð?
„Gríska og armenska eru mjög ólík íslensku og er því krefjandi að læra þessi tungumál. Ég hef ekki lagt neitt almennilega á mig að læra þau en pikka þó upp svona þessi mest notuðu orð og frasa.“
Hvað er á döfinni hjá þér?
„Ég stefni á að klára námið sem ég er í og svo erum við systur alltaf að vinna í því að stækka vefverslunina okkar. Það er skemmtilegt að segja frá því að verslunin Melba varð einmitt til þegar við bjuggum á Krít. Systir mín bjó í Grikklandi á sama tíma ég og hún býr þar enn. Við féllum báðar fyrir grískri menningu og vildum því opna verslunina okkar til þess að geta boðið Íslendingum upp á fallegar grískar vörur. Þetta eru m.a. ótrúlega flottar styttur úr leir og alls konar vandaðar vörur úr marmara. Eftir að ég flutti svo til Armeníu kynntist ég frábærum konum sem framleiða einstaklega vel gerðar textíl vörur og nú er hægt að fá þær vörur á inn á melba.is.““