lau. 1. feb. 2025 10:00
Litagleði einkennir fatastíl Andreu.
„Afi, ef þú ert að lesa þá er ég með veiðijakkann þinn“

Það er nóg um að vera hjá Andreu Sigurðardóttur en hún tók nýverið við stöðu í markaðsdeild Bestseller á Íslandi. Samhliða því starfi er hún Barre-þjálfari í Kötlu Fitness og er að þróa og hefja nýtt æfingakerfi. 

Andrea er einnig fyrirsæta fyrir Define The Line og hefur hún verið í ýmsum verkefnum með merkinu frá upphafi. 

Hvað er á döfinni á nýju ári?

„Það sem er framundan hjá mér er vinnuferð til Kaupmannahafnar með samstarfsfélögum sem ég er ekkert smá spennt fyrir. Í febrúar hefst svo fyrsta Empower Barre-námskeiðið mitt sem ég kynni með stolti. Þetta kerfi sameinar hefðbundna Barre-þjálfun sem á uppruna sinn í ballet. Ég legg mikið úr því að fá endurgjöf frá iðkenndum og hef sett saman valdeflandi kerfi sem samanstendur af grunn Barre-kerfinu, meiri lengingu, öndun, markmiðasetningu, cardio-lotum og Jane Fonda-ívafi.“

Það verður að vinna vinnuna

Hún segir lykillinn að árangri liggja í því að vinna vinnuna. „Hvort sem það er í líkamsrækt eða kaupa sér hús þá er eins og Mel Robbins og Jeff Walker segja: „Doing the Reps.“ Þetta eru litlu skrefin sem við tökum alla daga sem koma okkur þangað sem við stefnum. En hvernig ætlum við að gera þau skemmtilegri og með glimmeri til að hvetja okkur áfram? Ef þú vilt sterkari kviðvöðva eða fjárfesta í eign þá þarf að vinna vinnuna. Það eru ekki alltaf stór stökk í lífinu, það eru litlu sigrarnir. Við náum árangri með því að mæta og vinna að markmiðinu okkar hvert sem þú stefnir. Ef það væri auðvelt að vera með six-pack eða eiga margar eignir þá værum við öll þar. Það eina sem þú þarft að gera er að mæta á dýnuna og ég sé um rest,“ segir hún.  

 

 

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Ef ég er ekki í Barre-gallanum þá er ég litaglöð. Ég er annað hvort í víðri dragt, lausri peysu eða buxum og pilsi með nóg af skarti. Það kemur ekki sá dagur sem ég er ekki með neitt skart.“

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Þú myndir sjaldnast sjá mig í öllu svörtu. Ég aðhyllist ekki minna er meira hugmyndafræðina. Meira er meira væri mögulega besta lýsingin og með auka glimmeri.“

Hefur starfið þitt áhrif á dagsdaglegan klæðnað?

„Heldur betur. Ég starfa í markaðsdeild Bestseller á Íslandi og því mikilvægt að vera með puttan á púlsinum. Það er alls ekki leiðinlegt og það hefur alla tíð verið stórt áhugasvið hjá mér. Einnig koma sendingar vikulega sem gefur augaleið á að ég finn mér yfirleitt alltaf eitthvað til að bæta við fataskápinn.“

En þegar þú ert að fara eitthvað fínt?

„Þá dreg ég fram pallíetturnar, pelsinn, rauða varalitinn og stóru lokkana.“

 

 

Fyrir hverju fellur þú oftast?

„Ég fell fyrir smáatriðum og litum. Axlapúðar, púff-ermar, stroff og öll litlu en stóru smáatriðin eru fyrir mig.“ 

Bestu fatakaupin eða uppáhaldsflík?

„Afi, ef þú ert að lesa þetta þá er ég með gamla veiðijakkann þinn í láni. Hann er allra uppáhalds. Hann er gamaldags vaxjakki í yfirstærð líkt og Barbour-jakkarnir. Svo verð ég að nefna kúrekahattinn minn sem ég keypti í Kolaportinu. Annars silfurlituðu Moon Boots-stígvélin mín sem runnu undir jólatréð.“

Verstu fatakaupin?

„Það skulu vera hvít leðurstígvél þegar ég var sextán ára, litla pæjan.“

Uppáhaldsskór/fylgihlutir?

„Það eru támjóir lakkhælaskór sem ég keypti í uppáhaldsskóbúðinni minni, Apríl Skór.“ 

Áttu þér uppáhaldsmerki eða búðir til að versla í?

„Já! Vero Moda, Selected, Vila, Define the Line, Apríl Skór, Sign, Rotate, Uniqlo, Ugg og litlar sérverslanir úti í heimi.“

Áttu þér uppáhaldsliti?

„Blár og grænn. Aldrei að segja aldrei en ég hef aldrei verið mikið fyrir bleikan. En horfðu á mig núna, ég er bleik frá toppi til táar og elska það.“

Hvað er á óskalistanum þínum?

„Hinn fullkomni æfingasamfestingur og síður silkikjóll.“

Hvaðan sækir þú innblástur þegar þú setur saman dress?

„Ég sæki oftast innblástur í vinnuna, á Pinterest og Instagram og á ferðalögum. Ég starfaði lengi sem flugfreyja og elskaði að fá mér kaffi, skoða mismunandi borgir og götustílinn.“

Ef peningar væru ekki vandamál, hvað myndir þú kaupa þér?

„Við eigum nóg. Ég myndi frekar láta gott af mér leiða.“

til baka