Á aðeins hálfri öld hefur Dúbaí, í arabísku furstadæmunum, þróast úr litlu sjávarþorpi yfir í blómlega stórborg með glamúr og lúxus. Þar er m.a. að finna Burj Khalifa, hæsta turn heims, Deep Dive Dubaí, dýpstu sundlaug í heimi og nú er verið að byggja risaverslunarmiðstöðina Dubaí Square, fyrir tvo milljarða bandaríkjadali.
Árið 2024 var Dúbaí útnefnt besti heilsulindaáfangastaður í heimi á World Spa Awards.
Huda Kattan, stofnandi Huda Beauty, hefur verið búsett í borginni frá 2008 og þekkir vel til þegar kemur að lúxus og dekri. Sjálf ferðast hún um víða veröld vegna snyrtivörumerkis síns en er með höfuðstöðvarnar í Dúbaí. Hún segist nýta tímann vel þegar hann gefst og ver honum þá í heilsulind, nuddi og öðru dekri. Á BBC Travel fer hún yfir sinn uppáhalds lúxus og hvar sé besta dekrið.
1. Besta nuddið: Guerlain Spa
Kattan fór í sitt fyrsta nudd í Dúbaí fyrir sextán árum og varð samstundis háð því. Hún segir að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem er í heilsulind eða heimanuddi. The Guerlain Spa býður upp á laufi skrýddan arabískan garð með gosbrunnum og glæsilegri móttöku og lítilli Guerlain-verslun. Þar fer hún yfirleitt í djúpvefjanudd á meðan eiginmaður hennar, kaupsýslumaðurinn Christopher Goncalo, kýs frekar taílenskt nudd.
2. Besta tyrkneska baðið: Talise Ottoman Spa
Kattan mælir með Talise Ottoman-heilsulindinni fyrir tyrkneskt bað (hammam). Þar segist hún hafa fundið bestu upplifunina. Þar hefst hreinsunarathöfnin í marmarahvelfingu skreyttri með mósaíkflísum. Gestir slaka á, á upphituðu marmararúmi og eru skrúbbaðir á meðan. Gestir fá hunangs-, lárviðar- eða myntumaska á eftir og geta slakað á í einkaherbergjum (majlis) sem umlykja stóra sundlaug.
3. Að kaupa arabískt ilmvatn
Ef Kattan ætlar virkilega að dekra við skilningarvitin heimsækir hún ilmhús. Hennar uppáhaldsvörumerki er Abdul Samad Al Qurashi, ekki einungis fyrir ilminn sjálfan heldur einnig fyrir fallegar umbúðir. Abdul Samad Al Qurashi-ilmirnir eru í takt við tælandi ilm sem Bedúínar hafa búið til um aldir, með blandi af oud (moskus, reyk og munúðarfullum ilm) og reykelsi. Hún ítrekar að ekki þurfa allir ilmir að kosta handlegg heldur er einnig hægt að fara á markaði og kaupa minna þekkt merki.
4. Best fyrir glitrandi lúxus: Ooakstones
Dúbaí hefur orðið vinsæll áfangastaður til að kaupa lúxusskartgripi. Þegar Kattan þráir eitthvað glitrandi þá splæsir hún í skrautkristalla. Ein uppáhaldsverslun Kattan sem selur skrautkristalla er Ooakstones eða One Of A Kind stones. Verslunin er staðsett í listahverfinu á Alserkal Avenue og býður upp á sérstakt úrval kristalla, allt frá handverksskarti til heimilisskreytinga.
5. Besta útislökunin: SAL-strandklúbburinn
Þar er hægt að horfa á kvikmyndir ofan í sundlaug, hvíla sig í loftkældu sólskýli og setjast í sólstóla skreytta hátískumerkjum, svo eitthvað sé nefnt. SAL-strandklúbburinn er á Burj Al Arab-hótelinu með útsýni yfir Persaflóa. Klúbburinn er opinn árið um kring, þótt slíkir klúbbar séu vinsælli yfir kaldari mánuðina. Matseðillinn er ekki af verri endanum; kældir forréttir og Miðjarðarhafsinnblásnir sjávarréttir, lúxuskokteilar og eftirréttir. Staðurinn er opinn langt fram á kvöld svo hægt sé að njóta sólsetursins við Persaflóa og fá sér sundsprett undir stjörnubjörtum himninum.