Aron Pálmarsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, var þokkalega sáttur við stórsigurinn á Argentínu á HM í dag. Nú tekur við löng bið þar sem Ísland þarf að treysta á önnur úrslit til að fara áfram í átta liða úrslit.
„Við gerðum þetta allt í lagi. Við vorum lélegir í 15-20 mínútur og það var erfitt að gíra sig upp í þennan leik. Menn voru enn drullufúlir. Við hristum það af okkur í lok fyrri og svo var þetta aldrei spurning.
Það fór ekki á milli mála að Króatíuleikurinn sat í okkur og við þurfum að vera hreinskilnir með það. Við vissum að við værum að fara að mæta slakari mótherja en við gerðum þetta fínt. Á góðum degi getum við unnið þetta lið töluvert stærra,“ sagði Aron við mbl.is.
Spark í rassinn og hlýddum
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari tók leikhlé í jafnri stöðu um miðjan fyrri hálfleik og eftir það gekk betur. „Hann var að sparka í rassgatið á okkur og við hlýddum því. Við gerðum allt 10-15 prósentum betra.“
Ísland þarf að treysta á að Egyptaland vinni ekki Grænhöfðaeyjar eða að Króatía misstigi sig gegn Slóveníu til að fara áfram í átta liða úrslit. Annars er mótinu lokið hjá íslenska liðinu.
„Nú taka við erfiðir næstu 5-6 tímar. Þetta er erfið staða. Ég veit ekki hvort ég horfi á leikinn eða ekki. Ég fer upp á hótel, fæ mér að borða og lifa í þessu móki sem næstu klukkutímar verða.
Ég hef enga von og enga trú á Slóvenum. Ég ætla ekki að gefa mér neinar vonir og djöfull vona ég að það virki,“ sagði Aron.