sun. 26. jan. 2025 23:10
Yfirvöld í Ísrael höfðu gefið út að þau hygðust ekki hleypa íbúum Gasa yfir á norðurhluta strandarinnar fyrr en ráðstafanir hefðu verið gerðar til að sleppa Yehud úr haldi Hamas.
Yehud snýr heim, sem og íbúar á Norður-Gasa

Hamas mun í vikunni sleppa sex gíslum úr haldi á Gasaströndinni gegn því að Ísraelsmenn leyfi íbúum á Norður-Gasa að snúa aftur heim, að sögn Benjamíns Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels.

Breska ríkisútvarpið greinir frá en þetta er gert í sam­ræmi við vopna­hlés­samn­ing Ísraels og Hamas-samtakanna.

Meðal gíslanna sem á að sleppa er Arbel Yehud en ísra­elsk stjórn­völd höfðu sakað Ham­as um brot á vopnahléssamn­ing­um með því að sleppa fjórum her­mönn­um úr haldi á und­an Yehud, þar sem stríðandi fylkingar hefðu sammælst um að óbreyttir borgarar yrðu í forgangi.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/01/25/204_sleppt_ur_haldi/

Yf­ir­völd í Ísra­el höfðu í kjöl­farið gefið út að þau hygðust ekki hleypa íbú­um Gasa yfir á norður­hluta strandarinnar fyrr en ráðstaf­an­ir hefðu verið gerðar til að sleppa Yehud.

Íbúar á Norður-Gasa hafa því síðustu tvo daga beðið við tálma sem Ísraelsher hefur sett upp, sem hindrar för þeirra til Norður-Gasa.

Frá vopnahléssamþykkt hefur sjö gíslum verið sleppt úr haldi Hamas og rúmlega 200 palestínskum föngum sleppt úr fangelsum í Ísrael. Enn eru 87 í gísl­ingu en þar af eru 34 tald­ir látn­ir.

til baka