Bocuse d´Or-heimsmeistarakeppnin er virtasta keppni einstaklinga í matreiðslu og er haldin í Lyon í Frakklandi þessa dagana. Keppni hófst í gær, sunnudaginn 26., og seinni dagurinn er í dag, mánudag, 27. janúar.
Sindri Guðbrandur Sigurðsson, fulltrúi Íslands, hóf keppni fyrir hönd Íslands í morgun klukkan 9 á staðartíma. Alls eiga tuttugu og fjórar þjóðir keppnisrétt í Lyon eftir að hafa unnið til þess í forkeppni í sinni heimsálfu.
Sindri vann keppnina Kokkur ársins 2023 á Íslandi. Sindri náði 8. sæti í Bocuse d´Or Europe í Þrándheimi í mars 2024. Undirbúningur hefur staðið yfir mánuðum saman og tæpt tonn af eldhúsáhöldum og tækjum hefur verið sent út til Lyon.
Þjálfari Sindra er Sigurjón Bragi Geirsson, Bocuse d´Or keppandi 2023, og aðstoðarmaður Sindra er Hinrik Örn Halldórsson.
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/01/25/stora_stundin_hja_sindra_ad_renna_upp/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/05/27/mjog_anaegdur_med_arangurinn_i_bocuse_d_or/
Sindri sjötti í eldhúsinu
Sindri er sjötti keppandinn í röðinni sem mættir í eldhúsið í Lyon og hóf keppni eins og áður sagði klukkan 9 á staðartíma. Verkefni hans er að elda og bera fram humar, barri, sellerí og sellerírót á silfurfati og síðan kynna fyrir dómurum á disk og kjötfati þar sem aðalhráefnið er dádýr, andalifur og ávaxtameðlæti.
Fiskrétturinn verður borinn á borð fyrir dómnefndina klukkan 13.40 og kjötrétturinn klukkan 14.30 á íslenskum tíma.
Hvert þátttökuland á fulltrúa í dómarapanel Bocuse d´Or og mun Þráinn Freyr Vigfússon dæma fyrir hönd Bocuse d´Or-akademíunnar á Íslandi. Úrslitin munu liggja fyrir seinnipartinn í dag, 27. janúar og verða þá kunngjörð.
Íslendingar hafa tvisvar hreppt brons í keppninni
Vert er að geta þess að Bocuse d´Or-akademían á Íslandi er hópur fyrrverandi keppenda sem heldur utan um þátttöku Íslands í keppninni en Íslendingar hafa náð góðum árangri í keppninni. Bocuse d‘Or-keppnin hefur verið haldin síðan árið 1987 en fyrsti íslenski keppandinn tók þátt árið 1999. Það var Sturla Birgisson og náði hann fimmta sæti. Síðan þá hafa Íslendingar ávallt verið í tíu efstu sætunum en bestum árangri náði Hákon Már Örvarsson árið 2001 og Viktor Örn Andrésson árið 2017, en þeir fengu báðir bronsverðlaun.
Fjöldi Íslendinga er mættur út til að fylgja Sindra eftir og hvetja hann nú til dáða. Hægt verður að fylgjast með keppninni á vefsíðu hennar hér.