mán. 27. jan. 2025 10:05
Flutningaskip sjást hér liggja við bryggju í Tartus.
Rússar missa mikilvæga höfn

Sýrlensk stjórnvöld hafa rift samkomulagi við Rússa um rekstur hafnaraðstöðu í borginni Tartus við Miðjarðarhaf. Rekstur hafnarinnar er nú í höndum sýrlenskra yfirvalda. 

Ný ríkisstjórn Sýrlands, sem tók við völdum í lok síðasta árs eftir að hafa steypt Bashar al-Assad Sýrlandsforseta af stóli, rifti samkomulaginu sem var gert við rússneska verktakafyrirtækið Stroytransgaz. Það var undirritað árið 2019 og átti að gilda í 49 ár.

Samkvæmt samningum stóð til að Rússar myndu fjárfesta upp á sem nemur um 500 milljónum dala til að nútímavæða höfnina, en upphæðin jafngildir um 70 milljörðum króna.

Fram kemur í umfjöllun Newsweek að sýrlensk stjórnvöld séu með þessu að reyna að draga úr viðveru og áhrifum Rússa í landinu og ljóst þykir að þetta muni skaða samskipti ríkjanna. 

 

Högg fyrir Rússa

Þetta er mikið högg fyrir rússneska flotann því höfnin í Tartus hefur verið þeim mikilvæg og veitt þeim aðgang að Miðjarðarhafinu. 

Tollstjórinn í Tartus, Riad Judy, segir að allar tekjur sem koma inn í tengslum við hafnarstarfsemina muni nú renna í ríkissjóð. 

til baka