mán. 27. jan. 2025 11:16
Deepseek er afar öflug.
DeepSeek kemur á óvart: Kínverjar að taka forystu?

Kínverska gervigreindarfyrirtækið DeepSeek hefur vakið mikla athygli en spjallmenni fyrirtækisins er nú það forrit sem hefur verið sótt mest á lista Apple yfir vinsælustu öppin sem hefur verið hlaðið niður. Óvæntur uppgangur fyrirtækisins hefur komið mörgum á óvart.

Mörgum sérfræðingum þykir magnað hvernig DeepSeek hefur tekist að etja kappi við bandarísk gervigreindarfyrirtæki.

Sótt hratt fram

Fram kemur í umfjöllun AFP að kínverska fyrirtækið hafi hrist upp í tæknigeiranum vestra og sótt að bandarískum stórfyrirtækjum á borð við Nvidia og Meta, en bandarísku fyrirtækin hafa varið háum fjárhæðum til að ná forskoti í þróun gervigreindar.

DeepSeek er sprotafyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til kínversku borgarinnar Hangzhou, en þar er að finna fjölmörg tæknifyrirtæki.

 

Öflugt tól

Hægt er að sækja DeepSeek sem app fyrir snjalltæki eða borðtölvur. Forritið getur nú þegar gert mikið af því sem vestrænir keppninautar þeirra hafa fram að færa, t.d. að semja lagatexta, aðstoðað við áætlanagerð eða búið til uppskrift miðað við það sem er til í ísskápnum hverju sinni.

Þá getur forritið tjáð sig á fjölmörgum tungumálum. Það segir þó við AFP að enska og kínverska séu þau tungumál sem það sé sterkast í.

 

Tölum um eitthvað annað

Það býr þó við ýmsar takmarkanir eins og önnur kínversk spjallmenni, eins og t.d. Ernie Bot frá fyrirtækinu Baidu. Þegar DeepSeek er spurt um Xi Jinping, leiðtoga Kína, eða um stefnumál kínverskra stjórnvalda í héraðinu Xinjiang, þá vill DeepSeek tala „um eitthvað annað“.

En þegar það kemur að ýmiss konar flókinni úrvinnslu, s.s. að skrifa flókna kóða til að reikna flókin stærðfræðidæmi, þá eru greinendur sammála því að það hafi komið mönnum í opna skjöldu hve öflugt DeepSeek er.

„Það sem við höfum séð er að DeepSeek [...] kemur best út eða er um það bil á pari við bestu bandarísku kerfin,“ segir Alexandr Wang, sem er forstjóri Scale AI, í samtali við CNBC.

 

Gerir mikið fyrir minna

Þegar horft er til uppruna DeepSeek þá kemur það mönnum enn meira á óvart hversu háþróað það er.

Í grein þar sem sagt er frá tilurð forritsins kemur fram að það hafi verið þjálfað með því að nota aðeins brot af þeim örflögum sem vestrænir keppinautar byggja sína tækni á.

Sérfræðingar hafa löngum talið að Bandaríkin hafi skákað Kínverjum á þessu sviði með framleiðslu á mjög öflugri örflögutækni. Með þessu, og með því að koma í veg fyrir að Kínverjar geti komist yfir sömu tækni, þá myndu Bandaríkin ná forskoti í gervigreindarkapphlaupinu.

Aðeins dropi í hafið borið saman við keppinautana

En forsvarsmenn DeepSeek segja að þeir hafi aðeins varið um 5,6 milljónum dala (um 780 milljónir kr.) í þróun kerfisins. Það er aðeins dropi í hafið borið saman við þá milljarða dala sem bandarísku fyrirtækin hafa sett í þróun gervigreindar.

Verð á hlutabréfum í stórum tæknifyrirtækjum í Bandaríkjunum og í Japan hafa tekið dýfu á sama tíma og DeepSeek sækir í sig veðrið á mörkuðum.

Á föstudag lækkaði verð á bréfum í bandaríska örflöguframleiðandanum Nvidia um þrjú prósent. Nvida er stærsta fyrirtækið á heimsvísu þegar kemur að því að selja gervigreindarhugbúnað og -vélbúnað.

Japanska tæknifyrirtækið SoftBank varð einnig fyrir höggi á föstudag, en við lokun dags lækkaði verð á bréfum þess um átta prósent. SoftBank er einn af lykilfjárfestum í nýju verkefni sem Trump Bandaríkjaforseti hefur hrundið af stað til að efla gervigreindarinnviði í Bandaríkjunum. Verðmiði verkefnisins nemur 500 milljörðum dala.

 

Spútnik-stund?

Fjárfestirinn Marc Andreessen, sem er náinn ráðgjafi Trump, segir að DeepSeek sé eins konar Spútnik-stund á tímum gervigreindar. Með orðum sínum vísar hann til sovéska gervihnattarins sem var skotið á loft árið 1957 og varð þar með fyrsta geimfarið sem var sett á braut um jörðu. Það varð til þess að geimkapphlaup hófst á tímum kalda stríðsins.

„DeepSeek R1 er magnaðasta og tilkomumikla uppgötvun sem ég hef nokkru sinni séð,“ skrifaði Andreessen í færslu á X.

Rétt eins og vestrænu keppinautarnir Chat-GPT, Llama frá Meta og and Claude, þá byggir DeepSeek á gríðarstóru tungumálakerfi, þ.e. kerfið þjálfar sig með því að meðtaka gríðarlega mikið af texta daglega.

Byggir á opnum hugbúnaði ólíkt bandarísku keppinautunum

En ólíkt fyrirtækjunum sem eru með heimahöfn í Sílíkondal í Bandaríkjunum, þá er DeepSeek öllum opið (e. open source). Það þýðir að allir hafa aðgang að kóðum appsins, geta séð hvernig það virkar og breytt því að vild.

„Við lifum á tímum þar sem fyrirtæki sem er ekki bandarískt heldur hinu upphaflega verkefni áfram um opna gervigreind (e. OpenAI), þetta er svo sannarlega opin rannsókn í fremstu röð sem valdeflir alla,“ segir Jim Fan, sem er rannsóknarstjóri hjá Nvidia, í færslu sem hann birti á X.

til baka