Segja má að ein manneskja hafi náð athygli nær allra landsmanna í gær þegar hún bauð sig fram í formannssæti Sjálfstæðisflokks. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var á línunni í Ísland vaknar í morgun og ræddi þar um ákvörðun sína, stuðninginn og spennandi tímabil framundan en hún hefur mætt á ófá þorrablótin á síðustu dögum og útilokar ekki að þau verði fleiri.
„Ég er bara alsæl. Ótrúlega þakklát fyrir stuðninginn sem ég fann fyrir í gær,“ sagði Áslaug við þá Bolla Má og Þór Bæring í beinni útsendingu.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/01/26/aslaug_bydur_sig_fram_i_formannssaetid_2/
Ótrúlega þakklát
Hún lýsti ánægju sinni með mætinguna í framboðsfögnuðinn: „Það var ótrúleg mæting, hátt í 400 manns sem komu, sem ég er ótrúlega þakklát fyrir. Svo voru hátt í 2.000 manns að fylgjast með streyminu. Ég get ekki verið annað en ótrúlega þakklát fyrir þann stuðning og áhuga.“
Áslaug útskýrði að hún hafi ákveðið að „láta slag standa“ og bjóða fram krafta sína í það stóra verkefni sem felst í því að byggja upp Sjálfstæðisflokkinn að nýju.
Hún sagði einnig frá merkinu sem hún hyggst nota í kosningabaráttu sinni, sem er hennar persónulega merki og vísar til fálkans, merkis Sjálfstæðisflokksins. Hún leggur áherslu á að merkið kæmi þó ekki í stað fálkjans heldur væri hugsað sem tákn hennar eigin baráttu.
„Ég hef alltaf talað fyrir því að við þurfum að uppfæra okkur að einhverju leyti, stíga inn í framtíðina og þora því, en samt byggja á okkar sterku grunnstefnu og gildum til að ná meiri árangri.“
Ferðalag um landið og þorrablót
Áslaug hló þegar hún var spurð hvort hún hefði mætt á mörg þorrablót, en þau hafa verið fjögur á síðustu dögum. Þá sagði hún aldrei að vita nema þau verði fleiri úti á landi, þar sem hún ætlar að verja næstu dögum í ferðalög.
„Þá fær maður að heyra nákvæmlega hvað fólki finnst“
„Ég ætla að heimsækja fólk og sjálfstæðisfólk um landið og ræða verkefnin framundan hjá okkur. Það skiptir máli og það að fara á þorrablótin, ég er þingmaður landsins alls. Auðvitað sérstaklega Reykvíkinga en það er mjög mikilvægt að koma og hitta fólk, vera í góðu talsambandi og hlusta. Það er nú sjaldan meira en á þorrablótum sem fólk lætur mann meira heyra það. Þá fær maður að heyra nákvæmlega hvað fólki finnst,“ sagði Áslaug og vætti við:
„Ég ákvað nú bara að vera á bíl og hlusta á þetta allt saman og átti ótrúlega góð samtöl. Áslaug segist þó ekki síður njóta þess að borða sjálfan þorramatinn enda alin upp við að borða hann í hesthúsinu.
„Ég fæ mér hann að sjálfsögðu, einn góðan kjamma,“ sagði hún glettnislega.
Hún bætti við að hún njóti samskipta við fólk og að stjórnmál séu fyrir henni hjartans mál: „Ég hef ótrúlega gaman að fólki og fólk sem þekkir mig veit að ég er í stjórnmálum af ástríðu. Ég nýt þess að eiga í samskiptum við fólk og nýt þess að kynnast því sem það er að starfa við og hverjar áskoranirnar eru. Af því að við erum í pólitík til að reyna laga það og gera betur.“
Hér má hlusta á spjallið við Áslaugu Örnu í heild sinni: