mán. 27. jan. 2025 10:29
Ádám Hanga reynir að stöðva Jón Axel Guðmundsson í fyrri leik Íslands og Ungverjalands í undankeppni EM.
Mæta Íslandi án síns reyndasta leikmanns

Ungverski körfuknattleiksmaðurinn Ádám Hanga hefur tilkynnt að hann hafi lagt landsliðsskóna á hilluna eftir 17 ára feril með landsliði Ungverjalands, sem einmitt mætir Íslandi í gríðarlega þýðingarmiklum leik 20. febrúar.

Hanga var í lykilhlutverki hjá Ungverjum þegar þeir töpuðu naumlega fyrir Íslandi, 70:65, í fyrri leik liðanna í undankeppni EM í Laugardalshöllinni í febrúar á síðasta ári. Hann er talinn einn fremsti körfuboltamaður Ungverjalands á síðari árum.

Hann er 35 ára gamall framherji sem leikur með Joventut Badalona á Spáni og áður með m.a. Real Madrid, Barcelona og Rauðu stjörnunni í Belgrad.

Hanga var valinn besti varnarmaðurinn í Euroleague árið 2017, varð meistari í Euroleague með Real Madrid árið 2023 og hefur tvisvar orðið spænskur meistari með sama félagi. Þá hefur hann þrisvar orðið spænskur bikarmeistari með Barcelona.

Leikur Ungverjalands og Íslands fer fram í Szombathely í Ungverjalandi 20. febrúar. Með sigri þar tryggir Ísland sér sæti á EM 2025 en Ungverjar eiga enn von um að ná sætinu af Íslandi ef þeir vinna leikinn með meira en fimm stiga mun.

til baka