Björn Bragi Arnarsson, uppistandari og sjónvarpsmaður, gerði létt grín að félaga sínum, tónlistarmanninum Jóni Jónssyni, þegar hann óskaði honum hjartanlega til hamingju með nýjasta verkefni sitt, stofnun fyrsta kynlífsklúbbs Íslands, Aphrodite, í story á Instagram-síðu sinni í gærdag.
Birti hann færsluna í kjölfar greinar Vísis.
Í greininni var sagt frá því að íslenskur karlmaður á fertugsaldri, sem kallar sig Jón Jónsson, væri með stór áform um að opna kynlífsklúbb, sérstaklega ætlaðan swing-samfélaginu á Íslandi.
Jón Jónsson er þó líklega dulnefni mannsins sem hefur áður rætt við fjölmiðla í tengslum við swing-senuna á landinu.
„Til hamingju með nýja verkefnið Jón Jónsson. Veit að þetta verður „success“ eins og allt sem þú tekur þér fyrir hendur,” skrifaði Björn Bragi við skjámynd af frétt Vísis.
Tónlistarmaðurinn var ekki lengi að svara Birni Braga á Instagram.
„Þetta er ekki ég sko. Þetta er venjulegur fjölskyldufaðir á fertugsaldri,” skrifaði Jón, sem sjálfur er fjölskyldufaðir á fertugsaldri, en tónlistarmaðurinn á fjögur börn og fagnar fertugsafmæli sínu í lok októbermánaðar.