„Það var auðveld ákvörðun að setja þessa bók saman. Þegar fyrirtækið var að nálgast áttræðisafmælið, í mars 2024, kom Haukur Alfreðsson hjá Sögufélagi Loftleiða að máli við mig og lagði til að ég gerði veglega ljósmyndabók um sögu félagsins, bók sem gerði þessu mikla Loftleiðaævintýri skil. Ég hélt það nú og hófst handa,“ segir Sigurgeir Orri Sigurgeirsson inntur eftir því hvað hafi orðið til þess að hann hafi ákveðið að skrásetja sögu Loftleiða og gefa út bókina Loftleiðir sem kom út í fyrra.
Segir hann óhætt að fullyrða að mikil rannsóknarvinna hafi legið að baki bókinni.
„Þó ekki beinlínis fyrir bókina sjálfa. Ég bjó að því að hafa gert heimildarmynd um Alfreð Elíasson og Loftleiðir árið 2009. Við gerð myndarinnar vann ég talsverða undirbúningsvinnu sem nýttist mjög vel við gerð bókarinnar. Vinnan fólst í að safna saman ljósmyndum úr sögu félagsins og skanna þær. Aðeins brot af ljósmyndunum sem ég skannaði endaði í myndinni. Textinn í bókinni er byggður á frábærri ævisögu Alfreðs Elíassonar, sem Jakob F. Ásgeirsson skrifaði 1984, og viðtölum sem ég tók við Loftleiðafólk við gerð myndarinnar.“
Einstakt safn ljósmynda
Spurður hvort hann hafi þurft að leita fanga víða segist Sigurgeir Orri hafa fengið ljósmyndir hjá ýmsum starfsmönnum Loftleiða.
„Þar á meðal voru Halldór Sigurjónsson yfirflugvirki, Magnús Guðmundsson flugstjóri, Kristjana Milla Thorsteinsson, eiginkona Alfreðs Elíassonar, Alfreð Olsen flugvélstjóri, Baldur Bjarnasen flugvélstjóri, Jóhannes Markússon flugstjóri, Einar Runólfsson yfirflugvirki og Dagfinnur Stefánsson flugstjóri ásamt fleirum,“ útskýrir hann og bætir því við að Stefán Nikulásson áhugaljósmyndari hafi fest fyrstu ár Loftleiða á filmu.
„Safnið hans er einstakt og nýttist vel við gerð bókarinnar sem, og ljósmyndasafn Icelandair. Enn fremur voru Elías Alfreðsson og Eiríkur Líndal safnari mjög hjálplegir með ýmiss konar auglýsingaefni, bæklinga, flugáætlanir og fleira. Sjálfur keypti ég svo nokkuð af auglýsingaefni af síðum sem selja slíkt safnaradót.“
Mesti fengurinn hafi þó verið í safni sænska ljósmyndarans Lennarts Carlén, sem vann fyrir Loftleiðir á árunum 1956 til 1973.
„Við Haukur Alfreðsson heimsóttum ekkju Lennarts, Suzette Reding Carlén, í maí en hún býr í Lúxemborg. Hún var mjög örlát og hjálpsöm og afhenti okkur einar þúsund ljósmyndir úr safni Lennarts. Hún sagði það hafa gert sér gott í sorgarferlinu að fara í gegnum safnið hans og finna myndir tengdar Loftleiðum en hún hafði fram að þessu ekki treyst sér til að líta í safnið hans vegna of margra minninga, trega og sorgar,“ segir hann og nefnir í framhaldinu að Suzy, eins og hún sé ávallt kölluð, hafi setið fyrir á mörgum auglýsingamyndum Lennarts fyrir Loftleiðir.
„Þau kynntust, eins og lög gera ráð fyrir, á Hótel Loftleiðum. Suzy hafði ásamt tveimur öðrum Lúxemborgarmeyjum verið ráðin sem flugfreyja hjá Loftleiðum úr hópi 500 umsækjenda og þær komu til Íslands á námskeið einn vordag 1968. Þær sátu við borð á yfirfullum veitingastaðnum þegar Lennart birtist og spurði hvort hann mætti deila borði með þeim.
Suzy varð strax hrifin af þessum ævintýramanni sem ferðaðist um heiminn og tók ljósmyndir. Þótt tuttugu ára aldursmunur væri á þeim áttu þau mjög vel saman, voru bæði flökkufólk í eðli sínu og varð einnar dóttur auðið.“ Bætir hann því við að Lennart hafi verið einstaklega fær ljósmyndari og hrókur alls fagnaðar. „Með góðri nærveru og gamansemi náði hann fram góðri stemmningu í myndum sínum. Hann var þar að auki gríðarlega fær flugvélaljósmyndari, bæði í lofti og á jörðu niðri.“
„Mamma, sjáðu hvað ég fann!“
Tengist þú sjálfur Loftleiðum eða einhverju í sögu þess persónulega?
„Kynni mín af Loftleiðafólki byrjuðu á frekar neikvæðum nótum. Þegar ég var kornabarn og svaf í vagni fyrir utan heimili mitt gerði einn meðlimur Loftleiðafjölskyldunnar, Kjartan Olsen að nafni, sér lítið fyrir og rændi mér úr vagninum. Hann fór með mig heim til sín og sagði við mömmu sína: „Mamma, sjáðu hvað ég fann!“ Móðir hans, Lilja Olsen, fékk áfall og skilaði mér aftur heim með innilegri afsökunarbeiðni. Kjartan var þá um sjö ára gamall. Ég held að hann hafi viljað fjölga í Loftleiðafjölskyldunni og fundist ég eiga þar heima.
Þegar ég óx úr grasi urðum við Kjartan mestu mátar og spiluðum stundum hnífaparís í garðinum heima. Í eitt skiptið vildi ekki betur til en svo að hann kastaði hnífnum óvart í fótinn á mér,“ segir Sigurgeir Orri og tekur fram að hann sé enn með ör við stóru tána þar sem hnífsblaðið sökk í holdið. „Þetta var, að mig minnir, í síðasta skiptið sem ég spilaði hnífaparís við Kjartan.
Hann er mikill grallari og húmoristi en pabbi hans var Olav Olsen, flugstjóri hjá Loftleiðum og einn af hinum frægu Olsenbræðrum sem allir voru Loftleiðamenn. Elsti bróðirinn, Kristinn, stofnaði Loftleiðir með Alfreð Elíassyni og Sigurði Ólafssyni en heimili Óla og fjölskyldu hans var skáhallt á móti æskuheimili mínu á Þinghólsbraut í Kópavogi.“
Viðtalið í heild sinni má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins í gær.