fim. 27. feb. 2025 23:22
Bjarni Már Magnússon og Ólína Kjer­úlf Þor­varðardótt­ir.
Segir Ísland verða að taka meiri ábyrgð á eig­in ör­yggi

Það er hlutverk akademíunnar að henda fram á borð hugmyndum sem að hrinda einhverju af stað.

Því segist Bjarni Már Magnússon ánægður með að aðsend grein hans í Morgunblaðið í gær hafi opnað á umræður um íslenskan her.

„Maður býst við einhverju svona, þetta er svo viðkvæmt. En það hefur svona ágætis umræða sprottið upp um þessi mál,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Aðspurður segist hann ekki hafa orðið var við að neinn annar hafi misskilið grein hans sem svo að skoðun hans hafi nokkurt að gera með Háskólann á Bifröst.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/02/26/vopn_islendinga_liggi_ekki_i_hervaldi/

Horfi ekki á herleysi sem styrk

„Í fyrsta lagi veit ég hreinlega ekki um neinn sérfræðing á sviði varnar- og öryggismála sem lítur á herleysi sem styrk,“ segir Bjarni, en Ólína Kjer­úlf Þor­varðardótt­ir, samstarfskona hans á Bifröst, gagnrýndi málflutning hans og sagði að styrkur Íslands fælist í hyggju­viti og póli­tísk­um lausn­um, frek­ar en hervaldi.

„Fyrir utan það að Ísland er ekki herlaust. Önnur ríki eru með herafla hérlendis og hafa séð um varnir landsins,“ segir Bjarni.

„Þar fyrir utan sinna borgaralegar stofnanir eins og landhelgisgæslan hernaðarlegum verkefnum hérlendis – í mínum huga er það í of miklum mæli sem þau gera það, miðað við að þetta eru borgaralegar stofnanir, en það er önnur saga.“

„Þá myndi lítið gerast hérna“

„Uppbygging sérhæfðs hers á grunni núverandi ríkisstofnana sem sinna varnartengdum verkefnum myndi tryggja öflugan viðbúnað landsins,“ sagði Bjarni í aðsendri grein sinni í Morgunblaðið.

Herskylda tíðkist í hinum Norðurlandaríkjunum og ætti alvarlega að skoða upptöku hennar hér á landi.

Þetta sagði Ólína hins vegar „þýðingarlausa tillögu“.

„Við erum 400 þúsund manna örþjóð og það seg­ir sig sjálft að við mun­um aldrei geta komið upp burðugum her, sem hefði nokk­urt viðnám gegn millj­ónaþjóð sem færi að ásæl­ast okk­ar land eða okk­ar auðlind­ir,“ er haft eftir Ólínu úr umfjöllun mbl.is.

Aðspurður segir Bjarni smæð Íslands oft notaða sem rök gegn umdeildum málum á við íslenskan her, en það eigi við um alla þætti íslensks þjóðlífs, „þannig að ef við hugsum alltaf þannig þá myndi lítið gerast hérna“.

Íslenskar drónasveitir

Herskyldu má útfæra á ólíkan hátt, hún þarf ekki að þýða að allir yrðu skikkaðir í herinn og þaðan í stríð.

Herskylda gæti þýtt að einstaklingar fari í herþjálfun við 18 ára aldurinn svo þeir séu betur undirbúnir, ekki að þeir séu endilega sendir í neinar baráttur.

Aðspurður segir Bjarni vel hægt að finna einhverjar útfærslur á íslenskum her sem hentað gæti Íslandi betur fyrir breytta tíma.

Í grunninn sé gríðarlega mikilvægt að Íslendingar taki meiri ábyrgð á eigin öryggi.

„Eitt dæmi sem ég sé fyrir mér er að Ísland gæti verið með mjög öflugar drónasveitir til að fylgjast með Íslenskum hafsvæðum. Það er tækni sem verður sífellt ódýrari.“

 

til baka