Lítil dagsbirta getur stuðlað að þunglyndi, kvíða, lélegra minni og einbeitingu, því sólarljósið með sína skæru birtu, örvar framleiðslu taugaboðefna.
Hér áður fyrr lagðist fólk á bæn fyrir sólarguðinum. Við höfum litið svo á að þetta sé til marks um fávísi forfeðra okkar. En getur verið að sólardýrkun hafi verið skynsemistrú?


Hvað er skynsamlegt við sólardýrkun?

Mikill fjöldi rannsókna hefur verið gerður á áhrifum sólarinnar á heilsu – bæði jákvæðum og neikvæðum. Neikvæðum áhrifum hefur kannski verið haldið meira á lofti en þeim jákvæðu og margir forðast því sólarljósið í lengstu lög af ótta við t.d.  sólbruna, sortuæxli og ótímabæra öldrun húðarinnar.  En jákvæð áhrif sólarljóssins eru þó mun meiri og fleiri en þau neikvæðu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur í skýrslu frá 2006, að hnattrænt álag sjúkdóma (Global Burden of Disease) sé meira vegna of lítils sólskins en of mikils. (1) Þessi niðurstaða er tilkomin vegna þess að sjúkdómar, sem skortur á sólskini getur valdið, eru yfirleitt alvarlegri en áhrifin af of miklu sólskini. Þannig eru tengsl á milli lítils sólskins og ýmissa alvarlegra sjúkdóma eins og sjálfsónæmissjúkdómanna MS og  Sykursýki 1, hjartasjúkdóma, beinkramar, ristilkrabba, brjóstakrabbameins, ADHD og geðklofa. En sólarljós virðist að einhverju leyti geta komið í veg fyrir þróun þessara sjúkdóma.

Neikvæð áhrif sólarljóssins, s.s. sólbruni, öldrun húðar, ský á auga og húðkrabbamein, eru ekki talin jafn alvarlegir og íþyngjandi sjúkdómar nema helst sortuæxli sem er lífshættulegt. Þessi neikvæðu áhrif má auðveldlega koma í veg fyrir með því að sýna hófsemi í sólböðum og útivist í sólskini, s.s.  nota sólgleraugu á jöklum, sjó og vötnum ef verið er í glampandi sólskini vegna endurkastsins og forðast að horfa beint í sólina. Forðast að vera úti í beinni sól frá kl. 12 til 17 þegar verið er í sólarlöndum að sumarlagi, nema vel varinn af fatnaði, barðastórum höttum eða sitjandi í skugga. Þumalputtareglan er að fara í skugga eða hylja húðina þegar hún byrjar að roðna.

En síðan er það kannski komið út í öfgar hversu mikið við verndum okkur fyrir geislum sólar, þar sem þeir eru margir sem ekki fara út fyrir dyr hér á landi, án sólgleraugna og sólarvarnar. Þannig fer fólk á mis við D-vítamínframleiðslu sem fer fram í húðinni þegar sólin skín á hana og jákvæðum áhrifum sólargeislanna á tauga- og hormónaframleiðslu þegar þeir lenda á ljóshimnu augans að ekki sé minnst á losun NO úr húð í blóðrás, sem getur lækkað of háan blóðþrýsting.

Sólarleysið og andleg líðan

Við Íslendingar fáum ekki mikið af öflugum sólargeislum niður til okkar, þar sem oft er himinninn skreyttur margvíslegum skýjum eða jafnvel litaður grár heilt yfir. Rigning og súld er frekar algeng veðurlýsing, einkum á suðvesturhorni landsins þar sem flestir búa, og  sér það hver heilvita maður að ekki er það öflug dagsbirta sem vanalega umlykur okkur.  Skyldi það hafa áhrif á geðið?


Ef tekið er mið af rannsóknum er svarið já. Lítil dagsbirta getur stuðlað að þunglyndi, kvíða, lélegra minni og  einbeitingu.  Það er vegna þess að sólarljósið með sína skæru birtu, örvar ljósnæmar frumur í lithimnu augans sem hrindir af stað seytingu mikilvægra hormóna og taugaboðefna s.s. serotóníns, dópamíns, melatonins og  cortisol sem hafa mikil áhrif á vellíðan okkar og svefn. (2; 10) Sólguðinn færir þannig manninum gleði og vellíðan í gegnum lithimnu augnanna. Þunglyndi og kvíði er meiri þar sem lítils sólarljóss gætir og skortur á sólarljósi að morgni og yfir daginn, getur valdið vöntun á melatonini sem við þurfum fyrir góðan svefn. (3)

Áhugaverð rannsókn var birt 2016 (4) á tengslum milli nærsýni og sólarljóss. Niðurstöður benda til þess að unglingar sem fái meiri útivist og sólarljós verði síður nærsýnir.


Betri svefn eftir mikla dagsbirtu

Taugakerfið þarf á mikilli dagsbirtu að halda til að framleiða serotonin, sem gerir okkur hress, en það skortir oft hjá þeim sem þjást af þunglyndi. Ljósnæmar frumur í augnbotnunum virkja heilaköngulinn til að seyta serotoníni út í líkamann. Þetta hefur síðan áhrif á svefninn okkar. Ef serotonin framleiðslan hefur ekki verið næg yfir daginn vegna birtuleysis minnkar framleiðsla melatonin sem gefur okkur þessa góðu værð og  syfju sem við þurfum svo á að halda til að ná góðum svefni. Það er fleira sem getur truflað svefninn eins og bláa ljósið sem stafar frá sjónvarps-, tölvu- og  símaskjám. Þetta bláa ljós virkar eins og dagsbirtan og örvar framleiðslu hressileika taugaboðefnisins serotonins, sem er ekki það sem okkur vantar, svona rétt fyrir svefninn.  Því er gott að ná sér í  forrit fyrir síma og tölvur sem sía bláa ljosið frá og hægt er að kaupa sérstök gleraugu sem blokkera bláa ljósið og horfa með þau á sjónvarpið á kvöldin. Einnig sofa margir með augnlokur til að tryggja nægilega dimmu fyrir framleiðslu melatonins.

 
Fleiri góðar gjafir frá sólguðinum

Nú hefur verið sýnt fram á að Íslendingar fá of lítið af D vítamíni og líklega flestallir þeir sem búa lengra frá miðbaug en 50 breiddargráðu norðlægrar eða suðlægrar breiddar (11). Hér á Íslandi erum við u.þ.b. á 64 breiddargráðu og húðin nær ekki að framleiða nægilegt D vítamín úr sólargeislunum sem lenda skáhallt á húðinni. Húðin framleiðir D vítamín úr ljóseindum sem þrengja sér oní lög húðarinnar þegar sólin skýn á hana. Ýmislegt hefur áhrifa á það ferli s.s.  fatnaður,  of  mikil líkamsfita, sólarvörn, melanin sem er litarefni sem veldur dökkum lit húðar, árstíð, tími dagsins og  breiddargráða.

D vítamín skortur er alvarlegt vandamál víða um heim og getur aukið líkur á alvarlegum sjúkdómum eins og sjálfsónæmissjúkdóma, hjartasjúkdómum og ristilkrabba.  

Margar rannsóknir sýna tilhneygingu til aukningar í geðklofa því lengra sem farið er frá miðbaug og því kaldara sem loftslag er. Líklegasti sökudólgurinn er talinn vera skortur á D vítamíni.

Síðan má ekki gleyma hinum jákvæðu áhrifum sem sólarljósið hefur á losun Nitric oxíðs NO, út í blóðið.  NO hefur sían margvísleg jákvæð áhrif á líkamann s.s. æðavíkkandi áhrif og  getur þannig lækkað blóðþýsting.

 
Dagsbirtulampar gera gagn sem og dagsbirtuvekjararar, en best er að komast í alvöru sól, og drífa sig út þegar guli boltinn sýnir sig þarna uppi eða skella sér til Kanarí yfir veturinn.


Heimildir

1. Environmental Health Perspectives. (2008). ,,Benefits of sunlight: a bright spot for human health.” April 2008, Vol. 116 Issue 4, pA160-A167. Bls 2-3.
http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2290997/
 

2. Nall, Rachel. (November 9, 2015.) ,,Sunlight and Serotonin.” Healthline. http://www.healthline.com/health/depression/benefits-sunlight#Overview1

3. Nall, Rachel. (November 9, 2015.) “Sunlight and Serotonin.” Healthline. http://www.healthline.com/health/depression/benefits-sunlight#Overview1


4. Williams KM, Bentham GCG, Young IS, et al. ,,Association Between Myopia, Ultraviolet B Radiation Exposure, Serum Vitamin D Concentrations, and Genetic Polymorphisms in Vitamin D Metabolic Pathways in a Multicountry European Study. JAMA Ophthalmol. 2017;135(1):47-53. doi:10.1001/jamaophthalmol.2016.4752

5. Holick, Michael F. (2008). “Vitamin D and Sunlight: Strategies for Cancer Prevention and Other Health Benefits.” CJASN. September 2008. Vol. 3. No 5. 1548-1554. http://cjasn.asnjournals.org/content/3/5/1548.short

6. Holick, Michael F. (2016). “Biological Effects of Sunlight, Ultraviolet Radiation, Visible Light, Infrared Radiation and Vitamin D for Health.” Anticancer Research. March 2016 vol. 36 no. 3 1345-1356. http://ar.iiarjournals.org/content/36/3/1345.long


7. Nall, Rachel. (November 9, 2015.) “Sunlight and Serotonin.” Healthline. http://www.healthline.com/health/depression/benefits-sunlight#Overview1


8. Liu D. et al. (2014). “UVA Irradiation of Human Skin Vasodilates Arterial Vasculature and Lowers Blood Pressure Independently of Nitric Oxide Synthase.” Journal of Investigative Dermatology. Volume 134, Issue 7, July 2014, Pages 1839–1846 doi:10.1038/jid.2014.27 http://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0022202X15368780


9. Ghazaleh Valipour, Parvane Saneei, and Ahmad Esmaillzadeh. (2014) “Serum Vitamin D Levels in Relation to Schizophrenia: A Systematic Review and Meta-Analysis of Observational Studies.” CJEM. July 22, 2014. DOI: http://dx.doi.org/10.1210/jc.2014-1887


10. Cawley, I. Elizabeth o.fl.. ,,Dopamine and light: dissecting effects on mood and motivational states in women with subsyndromal seasonal affective disorder.” J Psychiatry Neurosci. 2013 Nov; 38(6): 388–397.     doi:  10.1503/jpn.120181


11. Wacker, Matthias and Holick, Michael F. Januar 2013. ,,Sunlight and Vitamin D. A Global Perspective for Health.” Dermatoendocrinol. 2013 Jan 1; 5(1): 51–108.  https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3897598/