Stutt umfjöllun af tegundir femínisma í Íran og hvernig femínisma er háttað þar í landi.

Finna má femínisma í Íran sem afleiðingu af nútímasamfélagi, en þó í öðru ljósi en í vestrænum samfélögum. Þar sem að orðið Femínisti gæti komið þér í vandræði eftir því hvaða ríkisstjórn er við völd, er hugtakið kvenréttindasinni notað í Íran.


Það eru nokkrar tegundir af femínistum og femínisma í Íran: Fyrst er vestræni veraldlegi femínistinn, sem er í minnihluta. Mikill meirihluti þeirra aðgerðarsinna hefur annaðhvort flúið land eða verið fangelsaður.

Annar hópur kvenréttindasinna, sem forðast að kalla sig femínista eru annaðhvort íslamskir femínistar eða femínistar sem eru múslimar. Mikilvægt er að átta sig á mismuninum á þessum tveim hópum, en hann er sá að íslamskir femínistar starfa fyrir yfirvöldin í landinu, eða tengjast þeim á einhvern hátt. Íslamstrúin tekur það mög skýrt fram að allir séu jafnir. Hugmyndafræði þessa hóps íranskra femínista byggist á að prédika sanngirni, réttlæti og óhlutdrægni. Þar af leiðandi frá  þeirra sjónarhorni eru öll kyn jöfn, en eru líkamlega ekki eins byggð, og því skuli þeir sterkbyggðari hafa meiri ábyrgð og með meiri ábyrgð fylgja meiri réttindi og því ættu kynin ekki að hafa sömu réttindi. Þessi hópur réttlætir ójöfn réttindi kynja með því að segja að jafnrétti væri í raun ekki í þágu kvenna.

Þriðji hópurinn er svo femínistar sem eru múslimar sem trúa á jafnrétti ásamt því að trúa á íslam, og láta femínisma passa inn í þeirra hugmyndafræði og túlka trúarbrögðin í nýju ljósi, á þessum nýju tímum sem við lifum á.

Lögin um íslamska stjórn í Íran hafa komið á ójöfnuði á næstum öllum sviðum og stigum samfélagsins. Íslamska stjórnin stuðlar að, og framfylgir ójöfnuði meðal annars í fjölmiðlum og menntakerfinu. Samfélagið hefur því þessa stóru gjá á milli kynja, og bæði karlar og konur leggja sitt af mörkum til að viðhalda þessari gjá. Margir hafa ekkert annað val en að standa bara á hliðarlínunni og fylgjast með sameiginlegum ójöfnum hefðum, og börn eru alin upp með þeirri hugmynd að konur skuli vera algerlega háðar karlkyns fjölskyldumeðlimum sínum. Femínismi er talin til öfgahreyfingar af mörgum og samfélag femínista er fámennt.

Tahmineh Milani og Masih Alinejad eru opinberir íranskir femínistar. Milani er leikstjóri og hefur leikstýrtm kvikmyndum sem brjóta upp hefðbundna ímynd íranskra kvenna. Hún hefur hlotið ákæru á hendur sér og verið ásökuð um að vera andstæðingur írönsku byltingarinnar vegna kvikmynda sinna. Alinejad er rithöfundur og blaðamaður og stóð fyrir hreyfingunni „My Stealthy Freedom“. Alinejad opnaði facebook síðu sem hvetur íranskar konur til að birta af sér mynd án hijab. Hér má finna síðuna: https://www.facebook.com/StealthyFreedom/.