Ólöf
Home
Friend requests
Messages
2
Notifications
Account Settings
This note is published. Edit note
Bakpokinn og ferðalagið
ÓLÖF MELKORKA LAUFEYJARDÓTTIR·SATURDAY, 16 DECEMBER 2017
7 reads

Í dag fagna ég.
Fagna með fólki sem kemur mislangt að og hver og einn með sinn bakpoka á bakinu. Innihald pokanna þekki ég misvel því ekki eru allir á því að sýna hvað safnast hefur í hann á mislöngum tíma. Allir þessir pokar líta þokkalega vel út á yfirborðinu. Vegna aldurs eru flestir þeirra snjáðir, en þeim hefur verið þokkalega tilhaldið, svo ég dreg þá ályktun að allt sé bara í stakasta lagi með innihaldið.
Minn poki er skrautlegur, lítur út eins og bútasaumur. Klunnalegur og krumpaður hér og þar. Æði oft hefur minn poki verið óskipulagður og ruslaralegur að innan, sumu hreinlega ýtt í lokuð hólf þar sem rennilásinn hefur náð að festa sig og ekki viljað opnast. Það hefur truflað mig að ná ekki að opna sum hólfin og taka til. Ég hef nefninlega óttast að skilja bakpokann eftir þar sem einhver gæti opnað hann og fundið í lokaða hólfinu það sem ég vil að sé gleymt og ekki sýnilegt öðrum.
Allir pokar hafa einhverskonar innihaldslýsingu. Í lokaða hólfinu mínu má finna ákveðin grömm eða prósentur af skömm. Ég vil ekki að mín skömm sé sýnileg, eða eigum við að segja að ég hélt að ég vildi ekki að skömmin mín væri sýnileg öðrum.
Skömmin er eins og matarsódi sem hefur verið mislesinn í uppskrift af köku, kakan lítur vel út, hefur rétt form og þennan fallega gullbrúna lit með silkimjúkan og geislandi glassúr ofaná. Þessa köku hef ég oft borið á borð fyrir gesti mína. Mér er minnistætt eitt boð þar sem einn gesturinn nartaði í kökuna vandræðalegur á svipinn meðan hinn bað um aukasneið með frosið bros á vör og örvæntingarfull blik í augunum, ekki vitandi hversu stór næsta sneið yrði. Ég hafði sjálf ekki tíma til að bragða á kökunni þar sem ég var frekar upptekin við að bera fram aðrar kræsingar og leggja fallega á borð og að láta allt líta vel út á yfirborðinu. Réttur dúkur í réttum lit, samstætt kaffistell og nýjir kökugaflar. Ég náði þó í einn bita í lok veislu, og það reið yfir mig holskefla af skömm. Kakan var römm og bitur, hún reif í tunguna og góminn og ég náði ekki að kyngja henni. Um andlit á mér breiddist roði og ég reyndi að fela skömmina sem skein úr augnráði mínu.
Það eru liðin örugglega 8 eða 9 ár síðan ég bauð upp á þessa köku, byrjuð að verða meðvituð um hversu djúpt dropinn sem drýpur af skömminni holar steininn. Núorðið í hvert skipti sem ég hugsa til þess augnabliks, þegar gestur minn bað um aukasneið af þessari bitru skömm, festist hláturinn í hálsi mér, það ískrar í mér og ég næ varla andanum. Tárin leka niður vangann og ég finn ánægju af því að finna hitann af roðanum sem færir sig upp hálsinn og upp andlitið og ég leyfi hlátrinum að flæða. Ég hreinlega veit ekki afhverju skömmin má ekki vera til, hún er öðru hvoru gott innihaldsefni og gefur kökunni og lífinu bragð. Ég skoðaði það sem ég hélt að ég þyrfti að skammast mín fyrir og sá að flest voru pínulítil atriði, nokkur korn af salti sem höfðu ýtt undir bragð af lífskökunni minni.
Ég hef tekið til í bakpokanum mínum og opnað hvert hólfið af fætur öðru. Sum hólfin fá mig til að roðna, önnur til að fá mig að langa til að flýja, það er eitt sem fær mig reiða. Svo er það hólfið sem fær mig til að gráta. Eitt hólf sem er að hreinsast vel úr er hólfið þar sem bitur matarsódinn hefur skilið eftir þrálátar hvítar skellur. En það hólf sem er stærst er hólfið þar sem hláturinn, lífsgleðin og þakklætið býr. Ég hef nefninlega tekið saman innihaldið, blandað þeim saman og bakaði í gær eina stóra hvíta, mjúka og loftkennda köku og aðra dökka með silkimjúku kremi. Þær eru klunnalegar, óreglulega skreyttar þar sem ólíkar bragðtegundir mætast, líkt og líf mitt, þar sem ólíkar aðstæður hafa mæst og mótað mig.
Í dag fagna ég að vera manneskja sem skortir í raun ekkert. Ég er ekkert voða gömul en heldur ekki voða ung. Ég nálgast á hægum hraða útgöngudyr úr þessu lífi að innihurð næsta lífs. Ég hlakka til þessa þroska-ferðalags með bakpokann minn, sem ég á auðvelt með að bera þótt bakið sé aðeins bogið, liðir bólgnir, minnið hverfult.
Hjartað fullt af þakklæti að hafa fengið þessi 64 ár sem ég á nú að baki, og ég er afraksturinn af fjölbreytileika lífsins - ég tilheyri þeim hópi fólks á hnettinum sem hefur allt sem ég þarf.

Guðfræðingur og sálgæslufræðingur í Hollandi