Fólkið í Eflingu á það skilið að fá að taka ákvarðanir um sín innri mál án afskipta formanna annarra stéttarfélaga
Er þetta í lagi?
Um áramótin bárust þau tíðindi að nýr stjórnmálaflokkur, Sósíalistaflokkur Íslands, hygðist bjóða fram í verkalýðsfélögum og eftir áramótin auglýsti flokkurinn eftir fólki sem væri óánægt með stjórn Eflingar og vildi velta henni úr sessi. Félagsmenn voru hvattir til að gefa kost á sér í framboð gegn sitjandi stjórn félagsins. Það er ekki nýtt að félagsmenn í stéttarfélögum rísi upp gegn sitjandi stjórnum stéttarfélaga. Það er lýðræðislegt og sjálfsagt mál.  Það þekki ég mjög vel frá síðustu árum Verkamannafélagsins Dagsbrúnar þar sem óánægður hópur í félaginu bauð fram gegn sitjandi stjórn ár eftir ár á tíunda áratugnum. En það er alveg nýtt að stjórnmálaflokkur sem er að mestu leyti undir stjórn eins manns með vafasama fortíð gagnvart launafólki og aldrei hefur komið nálægt verkalýðsmálum beiti sér með þessum hætti.  Það eru tíðindi. Það eru reyndar mjög vond tíðindi fyrir verkafólk og samtök þess.

Rifjum aðeins upp söguna. Stéttarfélögin í landinu hafa lengi verið án afskipta stjórnmálaflokka. Beinum tengslum milli stjórnmálaflokka og verkalýðshreyfingar lauk 1942 þegar skil voru gerð milli Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins. Ástæðan var nokkuð augljós. Flokksmenn allra stjórnmálaflokka voru félagsmenn í stéttarfélögum Alþýðusambandsins. Þeir vildu ekki að ASÍ væri beitt í flokkspólitískum tilgangi. Framboð Sósíalistaflokks Íslands er einmitt ætlað  að gera þetta.  Það blasir við á heimasíðu flokksins að hann skilgreinir sig sem róttækan sósíalistaflokk. Hann ætlar að bylta þjóðfélaginu.  Allir stjórnmálaflokkar eru að mati Sósíalistaflokksins spilltir og gengnir í sæng með auðvaldinu. Í Eflingu-stéttarfélagi eru félagsmenn í öllum stjórnmálaflokkum. Ég tel mig alveg vita hvernig margt af því fólki hugsar sem aðhyllist viðhorf VG, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokksins eða Framsóknarflokksins. Í trúnaðarráði Eflingar sem og í félaginu öllu er fólk úr öllum þessum flokkum og ef ég þekki það fólk rétt, þá mun það ekki láta bjóða sér svona innrás stjórnmálaafla inn í félagið.

Málflutningur forystu hins nýja framboðs er í samræmi við þetta. Þar er byrjað á því að hóta verkföllum. Nú hef ég nokkra reynslu af verkföllum af langri starfsævi í mínu stéttarfélagi hér áður fyrr. Verkföll eru neyðarráðstöfun. Þau eru neyðarhemillinn þegar allt annað hefur verið reynt. Það þarf að hafa fólkið með sér í gegnum langan aðdraganda að verkfalli. Verkföll eru ekki til að hafa í flimtingum. Enginn sem vill láta í alvöru taka mark á sér í baráttu fyrir betri kjörum, byrjar á því að hóta andstæðingunum. Stéttarfélög hafa alltaf haft það markmið að ná samningum fyrir sitt fólk og betri kjörum. Það er ekki takmark í sjálfu sér að efna til illinda á vinnumarkaði eins og lesa má úr málflutningi Sósíalistaflokksins.

En þetta leiðir einmitt hugann að því að verkalýðsbarátta er langhlaup þar sem reynir á þolgæði fólks. Reynslan er þar besta vegarnestið. Þess vegna hafa stéttarfélögin þjálfað upp talsmenn sína og forystumenn. Þeir koma allir úr röðum félagsmanna, hafa haft brennandi áhuga á að leiðrétta kjör þeirra sem verra hafa það í þjóðfélaginu. Nýi landsliðsþjálfarinn okkar í handbolta sagði á dögunum að það yrði enginn góður þjálfari nema að læra það. Það þarf að læra allt. Ekkert kemur í stað reynslunnar af vinnu í stéttarfélögunum. Það er ótrúleg einföldun á veruleikanum ef fólk heldur að það gangi inn í forystu stéttarfélaga án þess að hafa nokkuð lagt til á þessum vettvangi áður.  Ekkert er verra en verkalýðsleiðtogi sem stendur frammi fyrir atvinnurekendum með upphrópanir einar.

Ég tel það líka bera vott um nokkurn hroka þegar því er lýst yfir að það þurfi að hreinsa út úr stjórn stéttarfélags alla þá sem þar eru þar sem þeir séu ekki að þjóna félagsfólkinu. Ég hef setið í þessari sömu stjórn Eflingar og þekki þar engan fyrr né síðar sem hefur ekki farið inn í stjórn, brennandi af áhuga á að láta gott af sér leiða. Hið nýja framboð Sósíalistaflokksins á ekki einkarétt á réttlætinu. Það má líka skoða allt starf Eflingar-stéttarfélags undanfarna tvo áratugi og reyna að finna því stað að stjórn félagsins hafi ekki unnið að hagsmunum félagsmannanna. Staðreyndin er sú að hvort sem litið er til starfsemi sjóða félagsins, sjúkra-, orlofs-, fræðslusjóða eða starfsendurhæfingar, þá hefur félagið lyft grettistaki í að bæta og auka réttindi félagsmanna. Launakröfur á hendur atvinnurekendum sýna aldeilis ekki að starfsmenn eða stjórn hafi gengið í björg andstæðinganna.  Í kjaramálum hefur félagið átt frumkvæði að því að reyna að lyfta kjörum þeirra sem verr standa, en því miður hafa stjórnvöld jafnharðan máð út þær kjarabætur og bætt í betur fyrir þá sem betur mega sín með fáránlegum kjararáðsdómum á undanförnum árum.

Svo er það sérstakur kafli út af fyrir sig hvernig foringjar annarra stéttarfélaga hafa beitt sér gegn stjórn Eflingar. Það er bæði ódrengilegt og félagslega heimskulegt. Félagsfólkið í Eflingu á það skilið að fá að taka ákvarðanir um sína forystu án afskipta formanna annarra stéttarfélaga, VR eða VLFA. En þetta er gert með fullu samþykki Sósíalistaflokksins undir forystu formannsefnis framboðsins. Þarna sitja tveir formenn og eitt formannsefni saman og véla um framtíð fólksins í Eflingu-stéttarfélagi. Þykir það bara í lagi.  Þetta er sama fólkið og hefur síðan grafið undan heildarsamtökum launafólks innan ASÍ og hvatt til úrgöngu úr samtökunum. Ég spyr. Er þetta í lagi?

Er þetta í lagi?
Ég vil skora á félagsmenn Eflingar að hrinda þessari árás. Þessi aðferð að forystumenn annarra stéttarfélaga hlutist til um innri stjórn stéttarfélags er er ekki bara árás á stjórn Eflingar. Hún snýst um sjálfsákvörðunarrétt félagsmanna í stéttarfélögum. Að þeir fái að ráða ráðum sínum sjálfir. Hún er árás á allt innra starf stéttarfélaga. Árás á það fólk sem situr í stjórnum stéttarfélaga um allt land og er að vinna að hagsmunamálum launafólksins í félögunum sínum. Nei, þetta er ekki í lagi.

Snorri Ársælsson á langan feril innan Dagsbrúnar og Eflingar-stéttarfélags. Hann var fyrst trúnaðarmaður uppi í Sigölduvirkjun, sjómaður og síðan starfsmaður og trúnaðarmaður Dagsbrúnar hjá Samskipum í nærri tvo áratugi. Þá varð hann starfsmaður og trúnaðarmaður Eflingar meðal bensínafgreiðslumanna hjá Skeljungi um margra ára skeið.