Búnaðarþing var haldið í byrjun mars. Allt of fátt markvert gerðist á þessu þingi, ræðan sem ég hélt þar fyrir réttum þrem vikum er því miður enn í fullu gildi og því leyfi ég mér að birta hana hér.
Þeir sem búa nú um stundir í dreifbýli á Íslandi eru ekki nema 21 þúsund manns. Það eru um 6% af heildar mannfjölda í landinu. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir neinum hér á Búnaðarþingi hvernig það er að búa úti á landi, en það er sláandi að komast að því að við erum helmingi færri en þeir sem teljast vera innflytjendur; nýir Íslendingar af fyrstu eða annarri kynslóð.

            Staða landsbyggðarinnar er svo veik og okkur fækkar svo hratt að einmitt núna þurfum við að átta okkur á hvað er á seyði.

 

            Markmið stjórnvalda er að viðhalda byggð í landinu, en það er augljóslega ekki að takast.

            Sjávarafla er hægt að vinna hvar sem er annars staðar en úti á landi.

            Ferðaþjónustuna er hægt að reka beint frá Reykjavík.

            Landsmót hestamanna eru meira að segja haldin í Reykjavík.

En af hverju er þetta svona? Af hverju virðist ekkert geta virkað í rétta átt?

            Samgöngur, fjarskipti, þjónusta og orkumál veita fólki á landsbyggðinni ekki forskot til nokkurs hlutar. Það vita allir. Svo eru það launin. Vinkona mín sem er tölvunarfræðingur á Suðurlandi, segir að mánaðarlaun í þeirri grein hækki um 200 þúsund kall við það eitt að fara suður yfir Hellisheiði.

            Til hvers ætti fólk að búa úti á landi þegar það þýðir bara minna af næstum öllu?

 

            Eina atvinnugreinin sem krefst heilsársbúsetu úti á landi og verður ekki mönnuð með farandverkafólki, er hefðbundinn landbúnaður. Strúktúrinn í byggðinni úti á landi byggist á því að þar séu menn að heyja á sumrin og að gegna á veturna. Ef við erum ekki að því, þá er bara miklu auðveldara að lifa lífinu annars staðar.

            Einhverjar samfélagsumbætur eru gagnslausar til að styrkja byggð ef landbúnaðurinn fer á hausinn.

 

            Vörurnar sem við framleiðum skipta engu máli í þessu samhengi. Íslenskan almúga og túrista mun vera hægt að fóðra með innfluttu fæði. Það er verið að því í stórum stíl og stendur til að bæta verulega í. En dreifbýlinu á Íslandi verður ekki hægt að bjarga þegar hefðbundnu búgreinarnar verða nafnið eitt; þegar íslenska sveitin verður orðin nokkrir húsdýragarðar og einkarekin byggðasöfn til að skreyta ferðamannastaði hér og þar. 

            Við verðum að fá aftur þetta eina forskot sem getur gagnast okkur til að halda áfram að vera til. Þetta forskot er hlutverk okkar og tækifæri til að framleiða mat á Íslandi, til að neyta á Íslandi.

            Sama hvað einhverjum kann að finnast það gamaldags og á skjön við stefnu undanfarinna áratuga. Við erum bara komin að þeim mörkum að nú er þetta spurning um að snúa við eða hætta. Og það er stjórnvalda að ákveða með hverjum þau ætla að standa og til hvers.

 

            Núverandi búvörusamningar til 10 ára ásamt nýlega gerðum tollasamningum við Evrópusambandið, eru ekkert annað en tímasett áætlun um að leggja niður landbúnað á Íslandi. Og hugmyndafræðin á bak við þessa samninga er svo fáránleg að það er varla hægt að tala um það.

 

            Frá árinu 2007 hefur tollvernd verið skert aftur og aftur til að mæta furðulegum draumum nokkurra manna um markaðssigra í útlöndum. Útrásarvíkingar síðustu 10 ára eru íslenskir rollu- og beljubændur. Sem halda í alvöru að vörur sem þarf að framleiða með ríkisstyrk til að selja hér heima, geti skapað gróða ef þær eru seldar á yfirfullum mörkuðum í útlöndum. Í staðinn fáum við innflutning á vörum sem eru seldar ódýrar en það sem kostar að framleiða sambærilegar vörur hér. Hvernig á svona lagað að geta gengið upp?

            Þetta er einhver sá allra versti díll sem hægt er að hugsa sér. Allar búgreinar í landinu tapa á þessu, svínarækt, alifuglarækt, garðyrkjan og í raun þjóðfélagið allt.

            Búvörusamningarnir, sem í raun og veru hafa það markmið að leggja niður kvótakerfin, voru gerðir af bændaforystunni í algerri óþökk meirihluta bænda. Kúabændur vildu aldrei leggja af kvótann, þeir hefðu fellt slíkan samning svo að þar neyddist forystan til að bakka aðeins.

            En sauðfjárbændur vöruðu sig ekki á því að afnám greiðslumarks gæti nokkurn tíma komið til greina. Það hafði ekki einu sinni verið tekið til umræðu.

            Á aukafundi Landssamtaka sauðfjárbænda, sem haldinn var meðan á samningsgerðinni stóð, héldu strákarnir í samninganefndinni því fram að fulltrúar ríkisins hefðu strax vísað samningsmarkmiðum sauðfjárbænda út fyrir sjóndeildarhringinn og afnám greiðslumarks væri algjör krafa þeim megin frá.

Þetta var tóm lygi. Við vitum það núna.

            Það er búið að ljúga og svíkja upp á bændur setti af skuldbindingum sem munu að óbreyttu gera ókleift að stunda nokkurn búskap með nokkurri reisn á Íslandi. Og málarekstur stórkaupmanna, sem nota nú mikla peninga til að brjóta niður varnir Íslands gegn innflutningi á ófrystu hráu kjöti, ógerilsneyddum eggjum og ógerilsneyddri mjólk, bætist þar ofan á.

            Á fundi fyrir nokkrum vikum varð ég þess áskynja að stjórnarmenn BÍ, sem þóttust hafa miklar áhyggjur af því málefni, höfðu ekki einu sinni lesið stórmerka grein Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, um þetta málefni. Grein Jóns heitir Fullveldi Íslands og EFTA-dómstóllinn. Hún birtist í Bændablaðinu þann 30. nóvember síðastliðinn og átti ekki að geta farið fram hjá neinum sem eitthvað léti sig þessi mál varða.

            Sinnuleysið og svikin gagnvart landbúnaðinum er nefnilega ekki hægt að skrifa einvörðungu á stjórnvöld og vonda stjórnmálaflokka.

            Bændaforystan svíkur bændur. Búgreinarnar svíkja hver aðra. Hver einasti maður er lentur í samkeppni við nágranna sinn. Og Landssamtök sauðfjárbænda gefa landbúnaðarráðherra uppskriftina að smánarlegri og ónauðsynlegri mismunun, þegar til stendur að hjálpa eitthvað upp á þá sem eru verst settir.

            Þegar svona er komið er tómt mál að tala um einhverja samstöðu meðal bænda.

            Okkar verstu óvinir sjá nú sína villtustu drauma rætast fyrir okkar eigin tilverknað.

 

Til að komast út úr þessari stöðu duga hvorki moð né málamiðlanir.

            Hér þarf einfaldlega að horfast í augu við staðreyndir, sem ég held að séu ekki nema þrjár.

1.         Landbúnaður er nauðsynlegur til að viðhalda byggð á Íslandi.

2.         Til að landbúnaður lifi, þarf skýra landbúnaðarstefnu, sem jafnframt er viðurkennd sem hluti af alvöru byggðastefnu.

            Það þarf að vera tryggt að landbúnaðarstefnan sé fjármögnuð og að hún þjóni markmiðum sínum sem alvöru byggðastefna.

3.         Einu aðferðirnar sem nokkurn tíma hafa virkað til að halda í horfinu fyrir okkur bændur, hafa verið verjurnar okkar tvær: Framleiðslustjórnun og tollvernd.

            Og það hefur ekkert breyst. Við getum aldrei annað en tapað, hægt eða hratt, fyrir lágu verði og innstreymi á vörum, nema við höfum þessar bjargir. Alveg sama hvað okkur langar mikið til þess.

            Það vor mun vonandi aldrei koma að veturgamall hrútur berji af sér alla fullorðnu hrútana. Og satt að segja vona ég að ástandið í veröldinni verði aldrei svo dapurt að við Íslendingar getum sigrað allan heiminn.

            Nú er ég búin að nefna flest sem ég vildi sagt hafa. En eitthvað er þó eftir.

            Ég hef lagt áherslu á nauðsyn framleiðslustjórnunar og að halda í greiðslumarkið. Höfum það á hreinu að það kemur ekki til greina að endurúthluta framleiðsluheimildum eða stuðningi til þeirra sem fram að þessu hafa framleitt utan kvóta eða komið sér hjá því að búa innan ramma greiðslumarks. Að búa til ný kerfi undir nýju nafni væri dæmigerð aðferð til að koma því í framkvæmd en menn skulu ekki láta sér detta í hug að reyna slíkt.

            Annað atriði er enn ónefnt, en það eru umhverfismálin.

            Hvernig fer það saman að þykjast ætla að kolefnisjafna landbúnaðinn og tala gegn innflutningi í öðru orðinu og að hæla sér af útflutningi til Japan í hinu orðinu? Þarf ekki að vera aðeins samkvæmari sjálfum sér, ef það á að taka mark á manni?

Ég bara spyr.

Höfundur er bóndi í Arnarholti í Biskupstungum.