Neysla matvæla og áhrif þess á umhverfið hefur mikið verið í umræðunni upp á síðkastið. Enda er alveg ljóst að það skipar stóran sess í hlýnun jarðar af völdum gróðurhúsaáhrifa. Hvort sem það er grænmeti, ávextir, korn eða kjöt þá hefur ræktunin alltaf áhrif á umhverfið en í ræktunarferlinu þarf m.a. að nota vatn og ýmsar lofttegundir losna í andrúmsloftið. Það er auðvelt að verða ráðþrota í þessum málum en það er hins vegar ýmislegt sem við getum gert.

Það er mjög mismunandi hvort bóndi sé með nautaeldi eða lífrænt grænmeti. Mengandi heyskapur, flutningur fóðurbæti og mikil vatnsnotkun fylgir landbúnaði þar sem áhersla er á kjötframleiðslu. Auðvitað losna líka gróðurhúsalofttegundir við ræktun á baunum, grænmeti og korni en magnið er margfalt minna en í kjötframleiðslunni. Það er því ekki af ástæðulausu sem margir hafa gerst vegan eða vegetarian. Á meðan neysla á 1 kg af lambakjöti veldur losun 40 kg koltvíoxíðs veldur neysla á 1 kg af baunum losun 2 kg koltvíoxíðs. Þetta eru sláandi tölur sem má finna á heimasíðu Environmental working group. Ef allir heimsbúar myndu draga úr eða hætta kjötneyslu væri hægt að minnka loftmengun alveg gríðarlega mikið.

Matamílur er hugtak sem segir til um hversu margar mílur maturinn þinn hefur ferðast. Og það segir sig auðvitað sjálft að því lengra sem hann hefur þurft að ferðast, því meiri er mengunin. Þess vegna er mikið talað um að rækta sjálfur, kaupa staðbundið eða velja vörur sem hafa ferðast stutt. Við neytendur skipum mikilvægt hlutverk þar sem neysla okkar hefur áhrif á hvernig verslanir panta vörur. Ef að við sækjumst mikið í að kaupa ávexti frá Suður-Ameríku, krydd frá Asíu og sælgæti frá Bandaríkjunum, þá panta verslanastjórarnir það. Besta lausnin væri að setja lög um hversu langt matur og vörur almennt mega ferðast. En það næstbesta er að við neytendur höfum áhrif.

Í kjölfarið á þessari umræðu langar mig að koma með litla hugmynd. Það er ekki víst að allir taki vel í hana og það er fullkomlega í lagi. En hún tengist sem sagt því að við lifum í aðeins of miklum lúxus. Við getum keypt okkur mangó frá Brasilíu, kíkt á ströndina á Balí eða pantað mat heim að dyrum. Lífstíllinn okkar hentar ekki sjálfbærri þróun og þess vegna þurfum við að gera breytingar. Ein breyting væri að hætta með flutning á ávöxtum sem koma frá öðrum heimsálfum. Já það myndi þýða engin ananas, mangó, lárperur né bananar. Þegar maður er vanur að geta fengið eitthvað hvenær sem er, þá er óhugsandi að missa það. Öllu er samt hægt að venjast. Áður fyrr fékk fólk enga ávexti nema epli á jólunum og það lifði ágætis lífi. Enda væri ekki slæm hugmynd að flytja nokkra gáma af þessum framandi og góðu ávöxtum í kringum jólin. Það myndi gera þá enn þá sérstakari og betri. Það sem felst í þessari hugmynd minni væri að björgunarsveitin okkar hér á Íslandi myndi sjá um þennan flutning og vera með sérstakan ávaxtarmarkað í desember. Þá myndi verðið vera hærra en í matarverslunum en hagnaðurinn myndi renna í starfsemi björgunarsveitarinnar. Með þessum hætti væri hægt að hætta með flugeldasölu sem skapar mikla mengun þrátt fyrir að vera skemmtileg hefð. Það væri kannski frekar hægt að hafa bara flugeldasýningar í stað þess að einstaklingar komist yfir flugeldana. En með því að bjóða upp á ferska og góða ávexti í desember er hægt að skapa nýja hefð. Þá förum við fersk inn í nýja árið.

Ég vil að lokum benda á að ég er ekki með háskólagráðu í náttúruvísindum né greinum tengdum umhverfismálum. Ég er einungis umhverfissinni sem sæki mér fróðleik í bókum, blöðum, netinu og frá öðru fólki. Þessi hugmynd mín í þessari grein er ef til vill eitthvað sem enginn getur hugsað sér og finnst örugglega einhverjum hún vera fáránleg. En það þarf róttækar breytingar á mörgum þáttum lífstíls okkar og ég er að reyna leggja mitt að mörkum. Við þurfum öll að leggja hendur saman og finna lausnir sem við getum unnið með. Af því að á þessu stigi málsins, þá gengur dæmið ekki upp nema allir taki þátt.

*Save earth for future generations*

Höfundur er umhverfissinni og jógakennari.