Ég og fjölskylda mín viljum að mál Áslaugar Perlu Kristjónsdóttur verði endurupptekið.
Morðið við Engihjalla 27. maí 2000
Ég skrifa þessa grein vegna þess að ég og fjölskylda mín viljum að mál Áslaugar Perlu Kristjónsdóttur, sem lést eftir að henni var hrint yfir handrið á svölum á 10. hæð fjölbýlishúss við Engihjalla árið 2000, verði endurupptekið.
Eftirfarandi er rökin fyrir því að við viljum fá málið endurupptekið:
Þegar við pabbi Áslaugar Perlu fórum til lögreglunnar var okkur sagt að blúndunærbuxur hennar úr satíni hefðu fundist í rassvasa handtekna, tættar í sundur á báðum hliðum.  Gallasmekkbuxur hennar girtar niður að hnjám og önnur krækjan á þeim skemmd.  Hún var í þrennum glænýjum fatnaði; gallasmekkbuxunum, nærbuxunum og íþróttaskóm.
"Ákærði var handtekinn, upp úr 10:00 þennan laugardagsmorgun í íbúð hálfsystur sinnar sem bjó í kjallaranum:  Þá viðurkenndi hann fyrir lögreglu að bera ábyrgð á láti Áslaugar Perlu; hótaði síðan að drepa lögregluna og börn hennar þegar hann losnaði eftir 15-20 ár, vegna þess verknaðar er hann hefði framið núna.
Hálfsystir ákærða og mágur sögðu hann ofbeldishneigðan undir áhrifum.  Þau töldu hann eiga mörg mál hjá lögreglu.
Frásögn lögreglumanns á slysadeild sama dag:  Þá blístraði ákærði skyndilega og sagði síðan splash; eins og hann væri að líkja eftir að einhver félli niður úr mikilli hæð og lenti síðan á harðri flöt.  Það fór hrollur um hann allan.  Fannst hann vera að lýsa falli Áslaugar Perlu og þegar hún lenti á jörðunni.  Hann endurtók þetta í fangageymslu lögreglunnar.  Hann reyndi líka að ráðast á svarta konu sem var að þrífa þarna, en lögreglumaður brá fyrir hann fæti, þá öskraði hann á eftir henni; helvítis svertingja tussan þín.

 

Úrdráttur úr fyrstu yfirheyrslu þriðjudaginn 30. maí. Þá voru mörg sönnunargögn komin fram:

 

Eins og játning ákærða.  Þegar borið var efni, sem sýnir húðfitu, á rör handriðs mátti sjá handaför á sitt hvorum enda þess og langt fitufar í miðið eftir líkama.  Þess dekkra þess nýlegra, það var nærri svart.  Ljósmynd af stúlku upp við handriðið, sem náði henni um brjóst, hún jafnhá Áslaugu Perlu.  Á brunastigapalli ljósmynd af veski hennar og fótspor eftir ákærða.  Þaðan innangengt frá svölum.  Stærð svala 150x155sm.  Hæð handriðs 120sm.  Samt voru engin gögn lögð fram.  Ákærði vill ekki svara hvort til átaka hafi komið á milli þeirra áður en hún féll niður.  Í lok yfirheyrslu segist hann ekki vilja segja af hverju þetta gerðist og ekki heldur hvernig það gerðist, en hann eigi sök á því að stúlkan féll fram af. Rannsóknari spurði ekki neitt út í þessar fullyrðingar, heldur steinþagði.

Önnur yfirheyrsla 31. maí, úrdráttur:

Þegar yfirheyrslur eru hálfnaðar er ákærði spurður hvaða nærbuxur fundust tættar í sundur í rassvasa hans?  Það eru hennar.  Hvers vegna rifnar?  Ég reif þær.  Hvernig?  Það er bara eitt orð yfir það harkalegt kynlíf.  Þá spyr rannsóknari hvort hann eigi við að um kynmök hafi verið að ræða.  Hún vildi hætta, sagði ákærði.  Ég var að fara, hún kom og var að æsa sig og ég bara hrinti henni.  Spurður, hvað hann gerði eftir það?  Ég man það ekki.  Spurður hvar hann hafi verið er hann hrinti stúlkunni:  Ég var hjá svölunum eða eitthvað, ég man það ekki.   Hvernig sneri stúlkan er hún fór fram af svölunum?  Bakinu að mér, brjóstinu að svölunum.  Sagði gallasmekkbuxurnar hefðu verið girtar upp um hana þegar hann hrinti henni.  Honum var ekki sagt að réttarlæknir sagði þær þétt vafðar um ökkla og kálfa og þær  þannig dregnar niður áður en hún lenti á jörðunni, því þær féllu þétt að fótleggjum hennar.  Heldur ekki sagt að hann hafi skilið eftir sig fótspor á brunastigapalli og veski Áslaugar Perlu.
Tæknideild lögreglu safnaði saman öllum sönnunargögnum og skilgreindi þau.  Þau voru fjölmörg.  Eitt þeirra skilaði sér fyrir dóm í héraðsdómi; förin á röri handriðs.

Ég lét gera margar tilraunir til að hrinda mér yfir 120sm háan steinvegg; fætur hreyfðust lítillega og hendur lentu mjúklega á efstu brún veggjarins, samt var afmarkað plássið merkt með krít og nýtt til hins ýtrasta.  

Annar karlmaður yfirheyrir 6. júní.  Úrdráttur:

Spurður hvort þau hafi rætt um kynmök áður en til aðdraganda þeirra kom og hvað hún hafi látið í ljós um vilja til þeirra?  Ég get ekki sagt að það hafi verið rætt, en þessi kynmök sem áttu sér stað voru með hennar samþykki.  Spurður hvort hann hafi sjálfur girt niður um hana smekkbuxurnar, eða hún sjálf:  Ég man það ekki.  Honum ekki bent á að buxurnar voru tættar utan af henni með afli eins og nærbuxurnar.  Tölurnar til hliðar á smekkbuxunum voru hnepptar og á sínum stað.  Þær féllu að mittinu. Tölurnar voru boltaðar niður þess vegna sáust engin ummerki um átök á tölum eða tölufestingum. Vinstra axlabandið var ekki losað af tölunni á smekknum heldur afli beitt.   Hvert fóru þau eftir að komið var úr lyftunni:  Ég man það ekki.  Hvort þeirra ýtti á lyftuhnappinn?  Ég man það ekki.  Hann kannast ekkert við að önnur axlabandafestingin hafi verið skemmd.  Spurður hvar og hvernig kynmök hafi átt sér stað.  Á stigaganginum held ég, bæði standandi og liggjandi held ég.  Honum sýndar ljósmyndir af stúlkunni við handriðið.  Hvernig gat hún fallið fram af handriðinu, með því að hann ýtti henni?  Ég veit það ekki.

Það líða meira en tvær vikur í næstu yfirheyrslu, sem var 21. júní.  Úrdráttur:

Fimm áverkar taldir upp samkvæmt skoðun læknis.  Ákærða sagt að búið sé að finna lækni til að framkvæma geðheilbrigðisrannsókn á honum.  Þarna var ákveðið að gera hann ósakhæfan.
Ákærði man ekki eftir að hafa orðið fyrir neinum áverka.
Lögreglan tók líkamsskoðunina miklu alvarlegar.  Hún skoðaði áverka og fatnað og tók ljósmyndir til sönnunar.  Það voru tíu áverkar, blóð á sumum þeirra og á fatnaði hans.  Eftirfarandi áverkar komu hvergi fram; hvorki í yfirheyrslu hjá lögreglu, né í héraðsdómi:
 1.        Klór á hægri kinn.
 2.        Hægra megin á hálsi.
 3.        Framanverðri öxl.
 4.        Neðan við hægra brjóst.
 5.        Á framanverðri vinstri öxl.
 6.        Við vinstra brjóst.  Þar fannst blóð á íþróttatreyju Á.
 7.        Aftan við vinstra eyra, blóðkögglar í sárinu.
 8.        Á miðju baki.  Þar fannst einnig blóð á íþróttatreyju Á.
 9.        Neðarlega á baki.  Þar fannst blóð bæði á nærbuxum og íþróttatreyju Á.
10.       Á framhlið síðbuxna hans voru sýnileg óhreinindi á vinstra hné og hægra læri.
Honum tjáð að ekki séu fleiri spurningar frá rannsóknara og hvort hann vilji tjá sig um eitthvað.  -  Þetta var greinilega síðasta yfirheyrslan.  - Verjandi segist þá telja að ekki hafi komið fram, að hinn kærði hafi hvorki vitað á hvaða hæð hann fór úr lyftunni né á hvaða hæð atburðurinn gerðist.  Þá spurður hvort þeirra ýtti á lyftuhnappinn.  Ég man það ekki.  Spurður aftur á hvaða hæð hann fór út úr lyftunni:  Hann þóttist ekki vita á hvaða hæð hann fór út úr lyftunni, samt stjórnaði hann för.  Það voru einhver átök á milli hans og stúlkunnar, sem gæti skýrt áverkana á honum,  Það gæti hafa komið þegar samræðið átti sér stað en ég veit ekki, sagði hann í lokin.
Það var farið í sérhverja íbúð í blokkinni nema á 10. hæð enda engar íbúðir þar.  -  Ákærða var hvergi í yfirheyrslum bent á að engar íbúðir væru á 10. hæð, hann vissi það sjálfur, samt bjó hálfsystir hans í kjallaranum  Hann vissi líka að innangegnt var af svölunum á brunastigapallinn.
Yfirheyrslu yfirborðskenndar, ekkert gert til að komast að sannleikanum og þeim hætt áður en þeim var lokið.  Engin sönnunargögn notuð.
Áverkar á Áslaugu Perlu:  Rispur í andliti og úlnliðssvæði utanverðu.  Skrámur á fingrum og hnúum.  Mar á vinstri framhandlegg utanverðum.  Mar á hægri og vinstri olnboga aftanvert.  Marblettur 2,5-3 sm í þvermál á enni, auðsjáanleg risastór kúla við kistulagningu.  Afrifa á ytri kynfærum; 1 sm á breidd 4 sm á lengd.  Hæstiréttur gefur sterklega í skyn að dóttir mín hafi samþykkt þessa afrifu, en hún kom þegar ákærði reif nærbuxurnar undan henni.
Áslaug Perla og ákærði fóru út úr leigubíl fyrir utan blokkina klukkan 10 mínútur fyrir 9:00 að morgni laugardags.  Þau þekktust ekki neitt.  Hún hélt hún væri að fara í partí.  Vitni í héraði.
Fyrir utan lyftuna á tíundu hæð veittist hann að henni af svo miklum offorsi og afli að hann náði með einu átaki að þröngva hnausþykkum gallasmekkbuxunum niður um hné.  Hún skall aftur fyrir sig á gólfið og fékk marblett á hægri og vinstri olnboga aftanvert.
Henni tókst ekki að standa upp aftur, því hún var fjötruð um fætur, en náði að sparka í hann með öðrum fæti á vinstra hné og hinum á hægra læri.  Ákærði gerði strax aðra atlögu; tætti þá nærbuxurnar í sundur á báðum hliðum með offorsi og enn aðra þar sem hann reif þær undan henni og stakk þeim síðan í rassvasann.  Á framhlið síðbuxna hans voru sjáanleg óhreinindi á vinstra hné og hægra læri.  Sjáanleg óhreinindi á utanverðri bakhlið nærbuxna hennar og blóðkám í klofbót þeirra.  Afrifa á ytri kynfærum, 1x4 sm.
Það fannst eingöngu DNA-snið af lim hans í leggöngum hennar.  Hann hélt limnum ekki inni, þá kreppti hann hnefann og kýldi hana af öllu afli í ennið.  Þar sást risastór kúla við kistulagningu.  Ekki hægt að skilgreina áverka eftir höggið, því höfuðkúpan mölbrotnaði.
Áslaug Perla missti meðvitund.  Hann tók hana í fangið og bar hana 4,5 metra að handriði svalanna, notaði annan olnbogann til að opna svaladyrnar.  Við handriðið rankaði hún við sér og rak upp skelfingaróp.  Íbúi á 9. hæð hrökk upp af svefni við öskur, heyrði hvorki sagt neitt né öskrað á móti. Á sitt hvorum enda handriðs mátti sjá handaför og í miðið sást langt fitufar eftir líkama.
Ákærði gat hætt við.  Það gerði hann ekki, heldur lagði hana á magann á handriðið og þröngvaði líkama hennar yfir það.  Hún féll 26 metra niður á steinsteypta stéttina.  Hann horfði á eftir henni.  Smekkbuxurnar voru vafðar þétt um ökkla og kálfa, þegar hún fannst nokkrum mínútum síðar.
Hann var með veski hennar yfir axlirnar, fór inn í stigahúsið og lét veskið falla á gólfið. Skildi skófar eftir sig þar. Síðan niður brunastigann á næsta pall og reykti nokkrar sígarettur.  Fór síðan og lagði sig.
Íbúi fór að horfa á Með afa með börnum sínum, sem hófst kl. 9.  Hann var nýbyrjaður, þegar hann varð þess var að eitthvað féll framhjá glugganum.  Hann heyrði mikinn dynk:  Áslaug Perla dó kl. 9:00.  Leigubílsstjórinn kom heim til sín um kl. 9, sagði það 10 mínútna akstur.
Við málflutning fyrir Hæstarétti lagði verjandi ríka áherslu á, að hvorki ákærði né hin látna hefðu borið sérstök merki þess, að til átaka hefði komið. -  Þar minntist ríkissaksóknari hvorki á áverka Áslaugar Perlu né þá sem hún skildi eftir sig á ákærða.  Eina sem hann sagði sem skipti máli var að hún hefði verið að hámarki 10 mínútur inni í blokkinni.


Úr bréfi til héraðsdóms 22. júní frá sýslumanni Kópavogs. Innihaldið, krafa um geðrannsókn á ákærða:

 Vettvangsrannsókn sýndi ummerki um mannaferðir á 10. hæð hússins, beint upp af þeim stað þar sem stúlkan fannst, þ.e. á brunastigapalli.  Þar fannst m.a. veski hinnar látnu og för af skóm ákærða.  Það er bara eitt orð yfir það “harkalegt kynlíf”.  Inntur nánar eftir tildrögum þessa sagði kærði að kynmök hefðu byrjað milli hans og Áslaugar Perlu, með samþykki hennar en að þeim hafi lokið þegar hún vildi hætta og að það hafi gerst án þess að honum hafi orðið sáðlát.  Í framhaldinu hafi komið til æsinga og hann hrint henni að handriðinu á svölunum.
Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar við lögregluyfirheyrslur hefur hinn grunaði ekki fengist til að þess að lýsa því sem gerðist í þann mund er stúlkan fór fram af svölunum.
Þá komu einnig fram við skýrslugjöf grunaða fyrir dómi, atriði sem að mati rannsóknara benda til þess að ákærði hafi beitt bæði blekkingum og valdi til þess að ná fram vilja sínum um kynmök við stúlkuna.

Úr svarbréfi hérðasdóms:

Í kröfu sýslumanns er því hvergi hreyft, að nauðsyn beri til geðrannsóknar.  Hins vegar er vísað til þess, að rannsókn lögreglu hafi ekki varpað nægjanlega skýru ljósi á aðdraganda þess að Áslaug Perla féll fram af svölum íbúðahússins.  Verður af kröfuskjali sýslumanns helst ráðið, að hin umkrafða geðrannsókn eigi að bæta hér úr.  Engin lagaheimild er fyrir hendi til sérstakrar geðrannsóknar í slíku augnamiði.  Með hliðsjón af framangreindu er þess krafist að kröfunni um að kærði sæti sérstakri geðrannsókn verði hafnað.
Verjandi hafði samband við rannsóknara 6. júlí, sagðist hafa borist til eyrna að Áslaug Perla hafi sent SMS-boð skömmu fyrir andlátið sem bent gæti til sjálfsvígstilhneiginga.  Hann hringdi í Tal, fékk að vita að síðasta SMSið var sent einum og hálfum mánuði fyrr, þá týndi hún símanum.
Þess vegna mætti dómurinn á vettvang 8. desember.  Stúlka jafnhá Áslaugu Perlu, klædd sömu smekkbuxum og skóm stillti sér upp við handriðið, sem náði henni um brjóst.  Reyndu viðstaddir að gera sér grein fyrir hvort hún hefði getað klifrað yfir handriðið af sjálfsdáðum, en þeir létu ekki sannfærast.

4. október er haldin stutt yfirheyrsla af rannsóknara

Spurður hvar ákærði hafi verið er hann horfði á eftir henni:  Ég horfði á hana fara fram af handriðinu og svo þegar hún lenti sagði hann, en fallið tók 2,3  sekúndur.  Hvernig gat hún fallið fram af handriðinu, með því að þú ýttir henni?  Ég veit það ekki. 

Ríkissaksóknari fékk lögregluskýrslur 6. október, þá snöggur að senda beiðni um geðrannsókn:.  Beiðnin samþykkt.
Ákærði kærði beiðnina.  Hæstiréttur taldi atbeina dómstóla þyrfti ekki enda kæmi fram í gögnum að hann væri samþykkur að aflað yrði vottorðs sálfræðings Fangelsismálastofnunar um viðtöl sem hann átti við hann.  Þegar ákærði vissi að þá yrðu viðtölin birt fyrir dómi neitaði hann.  Þá var ákveðið að senda málið til héraðsdóms, þrátt fyrir að það væri órannsakað.
Rannsóknari skilaði ekki rannsóknarskýrslu, en ríkissaksóknari gerði ekki athugasemd við vöntun hennar og gaf út ákæru um manndráp 10. nóvember.  Ég held það hljóti að vera álitamál hvort ríkissaksóknari hafi átt rétt á að gefa út ákæru án þess að hafa rannsóknarskýrsluna í höndum, þar sem lögin gera fastlega ráð fyrir henni.
Hérðaðsdómur trúði ekki frásögn ákærða, taldi framburð hans ótrúverðugan, en studdist við ýmis gögn sem dómnum þótti sanna að ákærði hefði í raun kastað Áslaugu Perlu fram af svölunum.  Einnig að ýmislegt benti til þess að samfarir hans við Áslaugu Perlu hafi verið gegn vilja hennar.  Rifnar nærbuxur, beygluð sylgja af smekkbuxunum og áverkar á líkama hennar.
Hæstaréttardómur var í algjörri þversögn við héraðsdóm.  Hann var byggður á sandi; engin sönnunargögn, engin rannsóknarskýrsla og hunsun vitna í héraði.  Tæknimaður hjá lögreglu fjallaði um förin á rörinu í héraðsdómi, en Hæstiréttur hunsaði þær upplýsingar.
Héraðsdómur fékk prófessor í eðlisfræði við H.Í. til að vinna álitsgerð um fallið, sem var unnin samkvæmt útreikningum eðlisfræðinnar og var upp á margar síður:  Hinni látnu hafði verið kastað yfir handriðið með takmörkuðum krafti eða hún látin falla niður.
Eftir uppsögn héraðsdóms óskaði ákærði eftir, að dómkvaddur yrði matsmaður til að gefa álit um tilteknar spurningar.  Héraðsdómur synjaði beiðninni.  Hún kærð til Hæstaréttar, sem samþykkti að talað yrði við eðlisfræðing og lífeðlisfræðing í gegnum síma til að álykta út frá eðlisfræðilegri þekkingu þeirra einni saman.  Engin álitsgerð.

Málinu áfrýjað til Hæstaréttar

Þar sem dómarar Hæstaréttar hunsuðu allar upplýsingar vitna í héraði, þá höfðu þeir engin gögn til að dæma eftir.
Sýnishorn úr dómi Hæstaréttar 21. júní 2001:  1.  Þótti ljóst af álitsgerðum dómkvaddra matsmanna að Á hefði þurft að fylgja hrindingu sinni eftir með verulegum krafti.  Var talið fullvíst, að það hefði hann einmitt gert.  … Áður hafði hann rifið nærbuxur utan af stúlkunni og fundust þær tættar í rassvasa hans við handtöku.  Hann gaf ekki aðra skýringu á því en að um hefði verið að ræða “harkalegt kynlíf.”  ... voru smekkbuxur vafðar um ökkla og kálfa ...  Réttarlæknir; sagði þær hafi verið þannig dregnar niður, áður en hún lenti á jörðinni, því þær féllu þétt að fótleggjum hennar.  2. Þau hafi haft samfarir við svalirnar á 10. hæð með samþykki hennar, en hún hafi þó fljótlega viljað hætta.  3.  Þegar ákærði viðurkenndi fyrir lögreglu að bera ábyrgð á láti Áslaugar Perlu þá stendur í dómnum:  Við mat á þýðingu þessa framferðis ákærða verður að líta til þeirrar staðhæfingar hans, að hann hafi í fyrstu talið sig eiga sök á falli stúlkunnar, en síðar séð að það væri miklum vafa bundið.
1) Hrinding er ein hreyfing ekki margar.  Prófessorinn var sá eini sem var  dómkvaddur og eini sem vann álitsgerð.  Það er látið að því liggja að að þeir hafi verið sammála um þessa niðurstöðu, en svo var ekki.  Það var aðeins vitnað í annan þeirra sem hringt var í.
2) Dóttur minni var nauðgað.  Dómurinn laug upp á hana.  Einhvers staðar á stigaganginum svaraði ákærði inntur eftir hvar meint harkalegt kynlíf hafi átt sér stað og í annað sinn svarar hann; á stigaganginum, held ég, standandi og liggjandi, held ég.

3) Þessi maður, sem sannanlega þröngvaði dóttur minni yfir rörið á handriði svalanna.
 Ég sótti um endurupptöku á málinu 2006 hjá Ríkissaksóknara með aðstoð dómsmálaráðherra, fékk neitun.  Aftur 2009 vegna nauðgunar sem var órannsökuð, fékk líka neitun þá.  Ég sendi beiðni til endurupptökunefndar 2015 og fékk neitun.  Sendi aftur beiðni 2017, þá lét ég fylgja með 75 síður úr lögregluskýrslum, sem sönnunargögn, en fékk aftur neitun.  Í 211. gr. laga um meðferð sakamála er fjallað um endurupptöku dæmdra mála í Hæstarétti.  Þar stendur:  Ef verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, þá getur Hæstiréttur orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið.  Það er eingöngu hægt að taka upp mál til endurupptöku ef sakamaður á í hlut.  Ef lögunum verður breytt er hægt að taka upp mál dóttur minnar. 

Ásdís Perla

Höfundur er móðir Áslaugar Perlu.