Vegna heimildamyndar Björns Brynjúlfs Björnssonar um meintan frímerkjaþjófnað.
Mikudagskvöldið 7. apríl 2021 var sýnd í sjónvarpinu heimildamynd eftir Björn Brynjúlf Björnsson sem nefnist „Leyndarmálið“ og er þar reynt að svipta hulunni af uppruna svonefnds „Biblíubréfs“ sem selt var árið 1972. Biblíubréfið er hluti af bréfi sem árið1874 var sent til þáverandi sýslumanns í Árnessýslu, Þorsteins Jónssonar á Kiðjabergi í Grímsnesi, en á því eru fleiri skildingafrímerki en á nokkru öðru bréfi. Af þeim sökum er hér um að ræða afar verðmætan safngrip, sem metinn er á hundruðir milljóna.
Heimildamyndin er á margan hátt fimlega gerð og ef ekki er haft í huga að búið er að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram er hún býsna spennandi. Útgangspunkturinn eru ummæli tengdaföður Björns, Haralds Sæmundssonar, sem rak frímerkjaverslun fyrr á árum, að Skúli Helgason fræðimaður (1916-2002) hafi komið bréfinu á framfæri með ólögmætum hætti og er heimildamyndin tilraun til að renna stoðum undir þá fullyrðingu. Þegar efni myndarinnar er skoðað nánar kemur þar þó fátt fram, sem rennir styrkum stoðum undir slíkt, og skulu nú raktir nokkrir efnisþættir myndarinnar til að sýna það nánar.
Haustið 1972 bárust fréttir um fyrirhugaða sölu Biblíubréfsins, nefnt svo vegna þess að sagt var að það hefði fundist inní gamalli Biblíu. Halldór Gunnlaugsson bóndi á Kiðjabergi var barnabarn Þorsteins Jónssonar sýslumanns í Árnessýslu, en honum var bréfið upphaflega sent, og taldi Halldór sig hafa eignarrétt á umræddu bréfi. Lagði hann því fram kæru með ósk um rannsókn og mætti hjá sakadómi Árnessýslu 21. febrúar 1973 þar sem hann reifaði kröfur sínar. Hann nefndi m.a. að nokkrar Biblíur hefðu horfið frá Kiðjabergi sem voru til á æskuárum hans en „segir að hann geti ekki bent á neinn er hann gruni um að hafa tekið greindar Biblíur.“
Í heimildamyndinni er með talsverðri fyrirhöfn „leitast við að sanna“ að Skúli Helgason hafi oftar en einu sinni komið að Kiðjabergi að leita muna handa fyrirhuguðu byggðasafni í Árnessýslu, einkum á árunum milli 1950 og 1960 og hefði af þeim sökum átt hægt með að komast yfir Biblíubréfið þar. Skúli hafði haft milligöngu um að fá muni á byggðasafnið, m.a. borðbúnað og eitt skjal sem tengdust Þorsteini á Kiðjabergi. „Sönnunin“ leiðir hins vegar fram að Halldór bóndi hafi þekkt Skúla vel, úr því hann var nánast heimagangur að leita þar muna. Það hefði því mátt nefna í heimildamyndinni að í skýrslu sakadómsins ýjar Halldór engu orði að því að Skúli hefði tekið Biblíur frá Kiðjabergi eða aðra hluti ófrjálsri hendi. Hefur sum sé engan grun á honum.
Nú hefur Þjóðskjalasafn Íslands í greinargerð frá 12. maí[1] í vor leitt líkur að því að Biblíubréfið hafi horfið eftir að gögnum sýslumannsembættisins í Árnessýslu var skilað á Þjóðskjalasafnið árið 1910 og þá er orðið erfitt fyrir Skúla Helgason að komast í gögn sýslumannsins í ferðum sínum að Kiðjabergi, mörgum árum áður en hann fæddist! Í því blaðarusli, sem Skúli skoðaði þar, að því er segir í heimildamyndinni, fann hann engin gögn sýslumannsembættisins, heldur einkaskjal úr eigu Þorsteins sýslumanns sem hann kom á Byggðasafnið.
Biblíubréfið var upphaflega ekki umslag utan um bréf eins og nú tíðkast að nota, heldur hluti arkar sem bréf var skrifað á og síðan brotið saman og heimilisfang skrifað utan á. Er því lýst nákvæmlega í yfirlýsingu Þjóðskjalasafnsins. Sá partur bréfsins, sem frímerkin eru á, hefur því verið skorinn frá bréfinu sjálfu vísvitandi og þá væntanlega eftir að bréfið kom á safnið.
Ef svo er, að bréfið hafi horfið úr safni sýslumannsembættisins eftir að því var skilað á Þjóðskjalasafnið, skipta heimsóknir Skúla Helgasonar að Kiðjabergi nákvæmlega engu máli. Hafi bréfið verið tekið úr gögnunum á Þjóðskjalasafni útilokar það ekki aðild Skúla að málinu, en hins vegar stækkar hópur „grunaðra“ verulega og nær yfir aðra öld.
Í framhaldi af kæru Halldórs Gunnlaugssonar á Kiðjabergi hófst rannsókn í Reykjavík á uppruna bréfsins og hvort því hefði verið komið á framfæri til sölu með ólögmætum hætti, var lagt kapp á að hraða þeirri rannsókn því ætlunin var að bréfið færi á uppboð í Þýskalandi þann 10. mars það ár.
Haukur Bjarnason lögreglumaður annaðist þessa rannsókn. Hann hafði samband við nokkra frímerkjaáhugamenn og bóksala og innti þá eftir hugsanlegri verslun með annars vegar gamlar Biblíur og hins vegar áðurnefnt bréf eða umslag. Einnig höfðu nokkrir aðilar samband við lögregluna sem höfðu séð fréttir í blöðunum um málið. Í allri þessari rannsókn veturinn 1973, sem telur hátt í 50 blaðsíður, kemur nafn Skúla Helgasonar hvergi fyrir og hefði verið eðlilegt að þess yrði að einhverju getið í heimildamyndinni.
Björn Brynjúlfur hafði lögregluskýrslurnar greinilega undir hendi við gerð myndarinnar en þegar skýrslurnar eru skoðaðar kemur notkun hans á þeim mjög á óvart, þar sem hann getur í engu um það að rannsóknin beinist ekki síst að þeim þætti, að bréfið hafi verið geymt hjá fjölskyldu í Landeyjunum. Vitaskuld dregur það úr kenningu myndarinnar, sem miðar öll að því að sanna sekt Skúla, en svo blygðunarlaus þöggun er ámælisverð við rannsóknarblaðamennsku sem þessa. Þá er þess að geta að tilvist bréfsins í Landeyjum er alls ekki ósennileg þar sem tveir af afkomendum Þorsteins sýslumanns bjuggu þar í sveit, fyrst sonur hans Halldór Ólafur sem var prestur á Krossi frá 1882-1898 og síðar var Ingi Gunnlaugsson sonarsonur Þorsteins bóndi í sömu sveit og átti konu þaðan. Skúli Helgason mun engar tengingar hafa haft þarna austur og þessi þaggaða Landeyjatenging, sem var þáttagerðarmanninum vel kunnug, dregur enn úr trúverðugleika þeirrar myndar sem dregin er upp.
Það kemur raunar fram í myndinni að þeir Haraldur og Magni R. Magnússon, sem ráku Frímerkjamiðstöðina, höfðu sjálfir skáldað upp þá sögu, að bréfið hafi upphaflega fundist í gamalli Biblíu og ef það er rétt má kalla ámælisvert að leiða lögreglurannsóknina þannig á villigötur.
Í myndinni er sagt frá því að maður hafi komið til Magna í Frímerkjamiðstöðinni á Skólavörðustíg í maí eða júní 1972, með ljósmynd af Biblíubréfinu og spurt hann um verðmæti þess. Maðurinn kom tvisvar í verslunina en hafði síðan ekki oftar samband við Magna, að hans sögn. Það kemur fram í viðtali við Magna í myndinni, og er samhljóða framburði hans í sakadómi 1973, að hann hafi ekki þekkt manninn sem spurði hann um verðmæti bréfsins. Skv. frásögn Magna var hann svo upptekinn við að skoða myndina af bréfinu, að hann tók lítið eftir honum. Hann treysti sér ekki til að lýsa manninum en taldi hann hafa verið um fimmtugt og sagðist ekki hafa hitt hann síðan, „þekkti hann ekkert.“
Svo virðist sem Haraldur Sæmundsson hafi ekki hitt umræddan mann í þetta skipti, hann hafði verið upp á efri hæð búðarinnar, og eru þeir Magni ekki samhljóða um það atriði. Einnig er óljóst af málsgögnunum, hvort maðurinn kom með bréfið sjálft eða einungis ljósmynd af því, en þegar þeir félagar fóru að leita kaupenda að bréfinu erlendis höfðu þeir ljósmyndir af því undir höndum.
Haraldur var ekki yfirheyrður í rannsókn lögreglunnar 1973 og kom heldur ekki sjálfviljugur á hennar fund með upplýsingar, hvorki þá né síðar, sem verður að teljast einkennilegt ef hann hefur haft grun um að Skúli hafi verið viðriðinn málið.
Magni var við rekstur Frímerkjamiðstöðvarinnar á Skólavörðustíg frá 1964 og síðan eigin verslun neðarlega á Laugavegi til 2005.[2] Skúli Helgason bjó öll þessi ár og til æviloka í næsta nágrenni, á Óðinsgötu 26 og 32, og hefur flesta daga átt leið um Skólavörðustíginn og Laugaveg. Það má því heita útilokað að Magni hafi ekki þekkt Skúla, svo auðkennilegur hann var í útliti og framkomu auk þess að vera þekktur fræðimaður á sinni tíð. En Magni segir skýrt bæði í heimildamyndinni og í yfirheyrslunum 1973 að hann hafi ekki þekkt manninn, sem bauð honum bréfið til kaups vorið 1972.
Í heimildamyndinni segir að Gunnar M. Guðmundsson lögmaður hafi komið í Frímerkjamiðstöðina, væntanlega haustið 1972, og beðið þá félaga að selja Biblíubréfið, hann hafi verið eins konar „fulltrúi“ seljandans, en Haraldur Sæmundsson sá um að flytja bréfið úr landi og tókst að selja það sænskum frímerkjaáhugamanni.
Í myndinni er „sannað“ með nokkurri fyrirhöfn, að Skúli og Gunnar hafi þekkst, og því velt upp að hugsanlega hafi Gunnar aðstoðað Skúla eftir slysið. Kunningsskapur þeirra á milli þarf ekki að koma á óvart enda Gunnar mikill áhugamaður um þjóðlegan fróðleik og sögu Árnessýslu sem var sérsvið Skúla Helgasonar.
Í heimildamyndinni er greint frá því að ágreiningur hafi orðið með Skúla og sýslunefnd Árnessýslu út af uppbyggingu byggðasafns fyrir sýsluna, sem var Skúla mikið hjartans mál, en upp úr því samstarfi hafi slitnað kringum 1960. Er látið að því liggja að Skúli hafi ekki talið sig „skulda“ fósturhéraði sínu neitt eftir að hann flutti þaðan og því væntanlega ekki hafa talið sig þurfa að skila umræddu skildingabréfi til sýslumanns eða byggðasafnsins, hefði hann komist yfir það. Ekki er auðvelt að meta slíkar staðhæfingar en nefna má að Skúli vann fyrir sýslunefndina um árabil eftir að hann flutti til Reykjavíkur og að hann var vakinn og sofinn yfir sögu og velferð heimahéraðs síns, ekki þurfti lengi að ræða við hann til að finna, að heimasýslan var honum allt. Tal um einhvers konar „hefnd“ Skúla gagnvart sýslunefndinni eða heimasýslu sinni er vægast sagt illa grundað og ómerkilegt.
Loks er því haldið fram í heimildamyndinni að Skúli hafi verið illa stæður og hafi haft litlar tekjur eftir að hann lenti í slæmu bifreiðaslysi árið 1966. Sagt er að Skúli hafi leigt íbúðina á Óðinsgötu 26, þar sem hann bjó um 10 ára bil, sem er alrangt, hann átti þá íbúð. Þess hefði líka mátt geta, að áður en Skúli eignast íbúðina á Óðinsgötu 26 hafði hann átt og selt tvær fasteignir í Árnessýslu, hús á Svínavatni og annað á Selfossi. Skúli var langt því frá að vera fátæklingur og leit ekki á sig sem slíkan.
Skv. skattframtölum Skúla voru tekjur hans raunar ekki miklar á árunum kringum 1970 og næstu ár. En þess ber að gæta að Skúli var ekki þurftafrekur maður og lifði jafnan spart. Vorið 1972 keypti Skúli stærri íbúð en hann bjó í áður og er ýjað að því í myndinni að hann hafi notað peningana fyrir Biblíubréfið til þeirra kaupa. Í myndinni segir að kaupin hafi farið fram haustið 1972, þó áður en Haraldur Sæmundsson seldi bréfið til Svíþjóðar sem var í desember. Rétt er að kaupin voru gerð vorið 1972, þótt ekki hafi verið gengið frá afsali fyrr en 30. september það ár.
Skv. skattframtölum Skúla átti hann íbúð í húsi við Óðinsgötu 26 sem hann seldi fyrir 925.000 krónur vorið 1972, en keypti í staðinn íbúð á Óðinsgötu 32 fyrir 1.300.000 krónur, mismunurinn er 375.000 kr. Árið 1969 fékk hann bótagreiðslur vegna áðurnefnds bifreiðaslyss upp á 650.900 krónur og notaði stóran hluta þeirrar upphæðar einmitt til að fjármagna mismuninn á verði gömlu og nýju íbúðarinnar. Honum var því engin þörf á að hagnýta sé hagnað af sölu Biblíubréfsins til að fjármagna íbúðakaupin. Botninn úr fjárþörf Skúla til að fjármagna íbúðakaup er því algerlega farinn.
Hér að framan hefur ýmislegt verið dregið fram til að sýna að röksemdafærsla Björns Brynjúlfs í myndinni sé að minnsta kosti mjög bláþráðótt. Hér hefur ekki verið afsannað að Skúli Helgason gæti hafa átt hlut að máli en hins vegar er ekkert annað en orð tengdaföður Björns sem bendir til sektar Skúla. Allar þær „sannanir“ sem leiddar eru fram í myndinni eru haldlitlar, sleppt er að minnast á allt það sem gerir Skúla ólíklegan en bendir á aðra líklegri möguleika og sumt af því sem sagt er reynist beinlínis rangt.Heimildamynd um þetta sérstæða mál er sjálfsagt spennandi efni fyrir þá sem ekki þekkja til mála, en hér eru heimildir meðhöndlaðar með svo ósanngjörnum og hlutdrægum hætti að úr verður ósmekkleg aðför að látnum heiðursmanni.
[1] https://skjalasafn.is/frettir/vegna_umfjollunar_um_bibliubrefid_i_heimildarmyndinni_leyndarmalid.
[2] Eins og hann orðar það í viðtali í Vísi 18. febrúar 2005, „Það þekkja mig allir ...“

Höfundar eru vinir Skúla heitins Helgasonar.