Þórarinn Kópsson fæddist í Reykjavík 24. apríl 1960. Hann lést á hjartadeild Landspítalans 11. júní 2024.

Foreldrar hans voru Alda Þórarinsdóttir, f. 31. desember 1935, frá Norðfirði, d. 9. apríl 2010, og Kópur Z. Kjartansson, f. 24. maí 1933, frá Fremri-Langey, Breiðafirði. Vinkona Kóps er Guðrún Stefánsdóttir. Systkini Þórarins eru Ægir, f. 1955, Kolbrún, f. 1957, og Kjartan, f. 1968.

Eftirlifandi eiginkona Þórarins er Edda Maggý Rafnsdóttir, f. 13. október 1958, og gengu þau í hjónaband 10. október 1998. Foreldrar hennar voru Svanfríður Kristín Benediktsdóttir, f. 6. desember 1925, d. 12. október 2009, og Rafn Jónsson, f. 4. september 1931, d. 10. apríl 1966. Börn Eddu og Þórarins eru: 1) Benedikt Þorri, f. 5. mars 1994. Maki hans er Gintare Jaudegiene, f. 11. maí 1989. Hennar börn eru Matas, f. 2007, Jokūbas, f. 2011, og Gabija, f. 2014. 2) Alda Þyri, f. 18. ágúst 1997. Eiginmaður hennar er Reynir Haraldsson f. 22. júlí 1995. Barn þeirra er Hrafnkatla, f. 2023.

Þórarinn ólst upp í Árbæ í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla árið 1980 og námi til löggildingar fasteigna- og skipasala frá Háskóla Íslands árið 2005.

Þórarinn starfaði við sölumennsku alla tíð, lengst af við sölu á fasteignum, eða frá árinu 2003. Áður en hann hóf feril sinn við sölu á fasteignum starfaði hann við ýmislegt annað. Hann vann nokkur ár við að selja málningu en sá svo mikil tækifæri í að selja tölvur og einkenndust starfsár hans eftir menntaskóla að mestu leyti af því. Hann breytti aðeins til og gerði út rútu í nokkur ár á tíunda áratugnum en sneri sér svo aftur að því að selja tölvur, rétt áður en hann ákvað að einbeita sér alfarið að sölu á fasteignum. Hann var með sinn eigin rekstur alveg frá því hann hóf þann feril til dauðadags.

Útför Þórarins fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 24. júní 2024, klukkan 13.

Elsku Tóti.

Þessi kveðjuorð eru svo óskiljanleg og ótímabær því að tíminn þinn hér á jörðu í 64 ár var allt of stuttur - of stuttur fyrir fjölskylduna þína og of stuttur fyrir vini þína.

Við kynntumst Tóta er Edda fór að slá sér upp með sér yngri manni og var nú oft gantast með það er við hittumst.

Tóti var einstaklega þægilegur, skemmtilegur og viðkunnalegur og var ávallt mikið hlegið og opnar umræður um allt milli himins og jarðar. Tóti fylgdist vel með og var hörkuduglegur í öllu sem hann lagði fyrir sig. Hann gat rætt um allt milli himins og jarðar, hvort sem var pólitík eða íþróttir. Aðallega var fylgst með fótboltanum og sérstaklega ef Reynir tengdasonur í Fjölni var að keppa eða Aron okkar var að spila - Tóti fylgdist með sínum.

Tóti greindist barnungur með sykursýki og í þá daga voru læknavísindin varðandi sykursýki ekki eins langt á veg komin og í dag og átti Tóti við heilsuleysi sitt að stríða vegna eftirkasta sykursýkinnar. Aldrei kvartaði Tóti þó hann hafi þurft að ganga í gegnum sitt heilsustreð og heilsustríð en ávallt var brosið, hlýjan og einlægnin á sínum stað.

Edda Maggý var auðvitað þitt hald og traust ásamt ykkar yndislegu börnum og nýlega bættust við nokkur barnabörn, Hrafnkatla litla og eitt lítið afa og ömmubarn á leiðinni. Við vitum að þú fylgist spenntur með í Sumarlandinu elsku vinur.

Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)


Elsku Edda, Benni, Alda Þyri og fjölskyldan öll hjartans samúð til ykkar allra. Minningin um yndislega Tóta mun ávallt lifa í hjörtum okkar.


Helga, Jóhann, Svana, Heba, Aron og fjölskyldur.

Kæri mágur, svili og vinur, Þórarinn Kópsson, hefur yfirgefið þessa jarðvist. Tóti hafði átt við mikil veikindi að stríða í mörg ár og verið lagður inn á sjúkrahús nokkuð oft, en kom alltaf til baka fullur af lífsvilja og þá tók við góður tími. En nú í júní þurftu ástvinir að horfast í augu við að í þetta sinn var þessu lokið. Mikil sorg og söknuður ástvina. Þórarinn var svo ungur og ótímabært andlát. Við sáum Tóta fyrst er Edda Maggý systir okkar kynnti hann fyrir stórfjölskyldunni. Þau smullu vel saman. Oft var fjör þegar stórfjölskyldan kom saman yfir kaffibolla á heimili Svönu (mömmu), en þangað kom hópurinn oft til að njóta samveru. Nú fór í hönd góður tími, vinna, ferðalög og húsnæðiskaup og margt brallað. Þá kom að því að fjölskyldan stækkaði. Gifting og fæðing tveggja barna þeirra eru minnisstæðar stundir. Fyrst fæddist Benedikt Þorri og svo Alda Þyri, yndisleg og góð börn - stolt foreldranna. Börnin uxu úr grasi og urðu fullorðin. Við tók góður og bjartur tími. Þá kom að því að Tóti fékk nýtt stórt hlutverk, sem var afahlutverkið, sem var honum afar kært og naut hans sín vel í því. Við fjölskyldan öll eigum margar góðar minningar frá fyrri tíma, bæði í leik og í starfi sem gott er að minnast.
Elsku Edda, Benni og Alda missir ykkar er mikill en minningin lifir og gott að eiga góðar minningar að ylja sér við. Eins allar unaðs og samverustundir með eiginmanni, föður og afa.


Aðeins eitt líf.

Ég á aðeins eitt líf,
það er mér mjög dýrmætt.
Ég reyni að lifa því
og ég vanda mig.

Samt veikist ég,
verð fyrir vonbrigðum og særist.

Að lokum slokknar á líkama mínum,
hann deyr og verður að moldu.

Ég á aðeins eitt líf,
en það gerir ekkert til,
ég sætti mig við það.
Því líf mitt er í Jesú
og það varir að eilífu.
(Sigurbjörn Þorkelsson)

Hvíldu í friði elsku Tóti, minningin lifir.

Sigurborg, Jón Konráð og fjölskylda.

Elsku pabbalingurinn okkar, þrjóski og skemmtilegi kallinn okkar.
Við trúum því varla að þú sért farinn frá okkur en þú varst kallaður burt allt of snemma.
Við biðum eftir því að þú kæmir heim af spítalanum eins og þú hafðir gert svo oft áður en okkur óraði ekki fyrir því að stuttu seinna værum við að kveðja þig. Þrátt fyrir þrálát veikindi tókst þér alltaf að vera jákvæður og húmorinn var alltaf á réttum stað.
Við systkinin erum þér svo þakklát fyrir góða æsku og yndislegar minningar um góðan og fyndinn pabba. Þú varst alltaf með pabbabrandarana á reiðum höndum og hikaðir ekki við að segja þá oftar en einu sinni (eða jafnvel oftar en tíu sinnum).
Við vorum ekki endilega alltaf sammála um allt og þú varst með sterkar skoðanir á ýmsum hlutum en við lærðum fljótt að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Þú varst alltaf besti pabbalingurinn okkar. Það var alltaf gott að vera nálægt þér og þú gafst allra bestu pabbaknúsin. Það var hægt að leita til þín um allt milli himins og jarðar og þú varst alltaf með ráð undir rifi hverju. Þú sýndir öllu sem við gerðum áhuga og sýndir okkur umhyggju og hlýju og mikið sem við eigum eftir að sakna daglegu símtalanna frá þér. Í dagsins amstri var alltaf ánægjulegt að heyra í þér, þótt það væri bara til að heyra röddina þína.
Við trúum því og treystum að hvar sem þú ert sértu í góðum höndum hjá ömmu Öldu.

Benedikt Þorri og Alda Þyri.

Kveðja

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)

Sofðu rótt, ég veit að þú ert kominn til mömmu þinnar.

Saknaðarkveðja, þinn

pabbi.

Elsku besti bróðir og vinur, þú veist ekki hvað það er erfitt að koma þessum orðum niður á blað, já brostu bara. Ég kann ekki að nota réttu orðin eins og þú. Mikið á ég eftir að sakna þín og símtalanna frá þér og heyra þig segja "uppáhalds systir mín", og hláturinn í okkur sem fylgdi á eftir. Ef ég heyrði ekki í þér í nokkra daga, eða þú nentir ekki að tala við mig þá vissi ég að þú værir veikur, en ekki eyddir þú orðum í að kvarta. Þær eru ófáar góðu minningarnar með þér, ein þeirra er frá því vorum krakkar um ferð sem farin var á Norðfjörð, tjaldað var á Akureyri og við lékum okku við tjörnina og þú passaðir vel uppá að systir þín dytti ekki ofaní, þó þú værir fimm og ég að verða átta og þannig var það alla þína ævi alltaf að passa uppá litlu stóru systur. Þú hafðir frjóa hugsun og tókst þér oftast að framkvæma það sem þér datt í hug, t.d. á unglingsárunum ákvaðstu einn daginn að kaupa þér hest og stundaðir þú hestamennsku í nokkur ár. Ýmislegt var brallað saman í gegnum árin ásamt Kjartani, Ægi og fjölskyldum, einu sinni unnum við systkynin öll hjá sama fyrirtæki á sama tíma og var ég sótt af þér og Kjartani á hverjum morgni og frumburðinum komið í pössun og mér komið til vinnu á réttum tíma. Seinna unnum við aftur öll undir sama þaki, öll með okkar skoðanir. Svona var þetta, fjölskyldan tengdist alltaf vel í gegnum vinnu og leik, með smá hléum, en þegar við hittumst öll töluðu við yfir hvort annað með tilheyrandi hávaða. Ekki gleymi ég ferðunum upp í Bláfjöll, Gaui smalaði fjölskyldunni saman í rútuna og svo var brunað af stað og deginum eytt uppí fjalli, jeppaferðirnar voru líka ófáar, Þrisvar sinnum bjuggum við saman, í tvö skipti áður en þú kynntist Eddu þinni. þú og Edda, komin með tvo litla anga, sem þú dýrkaðir, opnuðu síðan dyr ykkar fyrir fimm manna fjölskyldu í níu mánuði og erum við ævinlega þakklát fyrir það og þær frábæru minningar frá þeim tíma. Ógleymalegt er grillið í fyrrasumar, sem þétti okkur enn betur saman. Því miður hrakaði heilsu þinni síðustu árin og setti mark sitt á lífsgæðin þín, þá var ein manneskja sem kom þér alltaf til að brosa, Hrafnkatla afastelpan þín. Vænt þótti þér um þitt fólk og heimurinn vissi af því. Ég get klárlega haldið endalaust áfram, en læt staðar numið hér, ég veit þú ert hjá mömmu í sumarlandinu, minningin lifir.

Elsku Edda, Alda, Benni og fjölskyldur, sendum ást og styrk til ykkar á þessum erfiðu tímum.


Ég hugsa til þín

Í þér fann ég ró
og brotsjó
þú varst litrófið allt
bæði heitt og kalt
en með göldrum gastu bætt
allt súrt og sætt
já huggun, að elska þig
svo dýrmætt,
- já dýrmætt.

Að hugsa til þín
það gerir mér gott
ég finn styrk í því
þó þú sért farinn á brott

Í þér fann ég mig
og sýrustig
gróf frammíköll
og hlátrasköll
Þú skilur eftir sár
og tregafull tár
en huggun, að hafa átt með þér
nokkur ár,
- já nokkur ár

Að hugsa til þín
það gerir mér gott
ég finn styrk í því
þó þú sért farinn á brott
(Mugison)

Saknaðar kveðja, elsku bróðir og vinur, þín systir og mágur

Kolbrún og Guðjón.