Gæsluvarðhald yfir fjórum mönnum sem handteknir voru í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir lögreglu var framlengt fyrr í mánuðinum. Munu þeir því sæta gæsluvarðhaldi að óbreyttu fram í júlí. Málið fer nú til héraðssaksóknara að sögn Elínar Agnesar Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.

Lögregla lagði hald á samtals rúmlega sex kíló af kókaíni og amfetamíni í málinu sem hefur verið til rannsóknar hjá embættinu um nokkurt skeið. Það snýr að skipulagðri brotastarfsemi, innflutningi og sölu og dreifingu á fíkniefnum hér á landi, peningaþvætti og vopnalagabrotum. Fíkniefnin voru meðal annars falin í eldhúspottum.