Þegar öllu er á botninn hvolft þá er árangur eini mælikvarðinn á gæði ríkisstjórnar
Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson

Snemma aðfaranótt sunnudags var þingi frestað eftir mikla törn þar sem fjöldi mála var afgreiddur sem lög og þingsályktanir. Fjármálaáætlun, útlendingalög, lögreglulög, lög um listamannalaun, ferðamálastefna, lög um sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka, fjáraukalög vegna kjarasamninga og málefna Grindavíkur, húsaleigulög og lög sem fela í sér miklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu voru meðal þeirra mála sem Alþingi afgreiddi. Öll eru þessi mál mikilvæg fyrir íslenskt samfélag.

Mikil deigla í stjórnmálum

Það væri ofmælt að ríkisstjórnin nyti mikilla vinsælda þessa dagana. Er því líkt farið og með flestar ríkisstjórnir í norður- og vesturhluta Evrópu. Það er mikil deigla í stjórnmálum þessi misserin sem lýsir sér meðal annars í nokkru flugi stjórnmálahreyfinga á jöðrum stjórnmálanna, hægra og vinstra megin.

Eftirfaraldurstíminn reynist mörgum erfiður. Ofan á efnahagslegar áskoranir sem eru eftirköst þess að lönd heimsins