Mér brá heldur betur í brún þegar karlalið Fylkis í fótbolta voru sakað um kynþáttaníð á dögunum. Það skal tekið mjög skýrt fram að ég er stuðningsmaður Fylkis enda mitt uppeldisfélag og það félag þar sem sonur minn stundar sínar íþróttir í dag.

Ég átti mjög erfitt með að trúa þessu og sem betur fer kannski þá var ég og er lítið í vinnu þessa dagana þar sem ég er í fæðingarorlofi. Ég var því ekki mikið að kafa ofan í málið, eins og ég hefði eflaust gert ef ég væri við vinnu á hverjum degi.

Ég ákvað hins vegar að kafa aðeins ofan í það eftir að KSÍ tilkynnti að sambandið myndi ekki aðhafast frekar í málinu á mánudaginn síðasta.

Það ætti að vera öllum ljóst að það að ásaka einhvern um kynþáttaníð er háalvarlegt. Kynþáttaníð er eitthvað sem á ekki að sjást í fótboltanum og blessunarlega hefur íslenski boltinn verið nánast laus við kynþáttaníð frá því að ég man eftir mér í það minnsta.

...