Skúli Margeir Óskarsson Gunnarstein fæddist 3. september 1948. Hann lést 9. júní 2024. Útför Skúla fór fram 24. júní 2024.

Að áeggjan skólabróður míns í MR, Snorra Agnarssonar, sem síðar varð prófessor í tölvunarfræði, bróður Gústafs heitins Agnarssonar, afreksmanns í ólympískum lyftingum, hóf undirritaður á árinu 1974 að stunda lyftingaæfingar í Sænska frystihúsinu þar sem nú stendur hús Seðlabanka Íslands. Þar voru samankomnir allir helstu lyftingamenn landsins á höfuðborgarsvæðinu. Aðstæður voru hrörlegar hvað hreinlæti varðaði, en þær urðu menn gera sér að góðu þar sem ekki var í önnur hús að venda. Meðal þeirra, sem þarna æfðu, var Skúli Margeir Óskarsson, ættaður frá Fáskrúðsfirði. Greinilegt var að þar var einbeittur maður á ferð sem tók æfingarnar alvarlega og hafði ástríðu fyrir íþróttinni. Eftir að lokað var á lyftingamenn í húsinu árið 1976 stóð lyftingadeild KR, með Ólaf heitinn Sigurgeirsson í broddi fylkingar, fyrir því að endurreisa hálfónýtt þvottahús í eigu Reykjavíkurborgar í Laugardal við gömlu Þvottalaugarnar. Í þessu Mekka lyftingamanna og valinkunnra frjálsíþróttamanna, sem nefnt var Jakaból, var aðstaðan mun betri en áður, enda þótt húsnæðið væri ekki stórt. Á þessum tíma voru þeir sem stunduðu kraftasport ekki hátt skrifaðir af sumum og sættu jafnvel fordómum. Það átti einnig við um fólk sem sást á hlaupum út um borg og bý í ýmsum veðrum og lá víst stundum við að menn sneru sig úr hálsliðnum við að góna á þessar furðuverur. Nú er öldin allt önnur, sem betur fer.
Sá sem þetta ritar kynntist Skúla vel í Sænska frystihúsinu og Jakabóli þar sem við æfðum saman um sex ára skeið og urðum góðir félagar. Hann var sannkallaður gleðigjafi, spaugsamur og orðheppinn með afbrigðum, jákvæður og upplífgandi. Við kepptum saman á mörgum mótum innanlands og Norðurlandamótinu í kraftlyftingum árið 1978 í Borgå (Porvoo) í Finnlandi. Það er eftirminnileg ferð. Á þessum árum hafði Skúli lítið fé milli handanna og var einstaklega nægjusamur eins og hann var reyndar alla tíð. Hann bjó á þessum tíma í litlu herbergi á vinnustað sínum, Nýju Blikksmiðjunni í Ármúla, þar sem hann eldaði ofan í sig og var ekki annað að sjá en hann þrifist vel.
Skúli var afreksmaður í kraftlyftingum, setti heimsmet í réttstöðulyftu, fyrstur Íslendinga til að setja slíkt met, auk fjölda Íslands-, Norðurlanda- og Evrópumeta. Hann vann til tvennra bronsverðlauna á heimsmeistaramótum í kraftlyftingum, auk þrennra gullverðlauna á Norðurlandamótum og fjölda titla innanlands. Sökum afreka sinna var hann tvívegis kjörinn Íþróttamaður ársins og var tekinn í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2017. Hefði Skúli ekki orðið fyrir axlarmeiðslum í slysi þegar ferill hans náði hæstum hæðum, en þau meiðsl háðu honum verulega í bekkpressu, er ég nokkuð viss um að hann hefði orðið heimsmeistari í bæði skiptin á fyrrnefndum heimsmeistaramótum. Sökum andlegs og líkamlegs atgervis hefði Skúli án vafa geta orðið afreksmaður í öðrum íþróttagreinum en þeirri sem hann valdi. Hann var ótrúlega eljusamur við æfingar, mikill keppnismaður, með stálvilja og múlþrjóskur.
Eftir að lyftingaferli mínum lauk skildi leiðir okkar Skúla, en alltaf þegar ég hitti hann á förnum vegi var sem dagur ei meir hefði liðið frá því við áttum sem mestan og bestan félagsskap. Gleðigjafinn Skúll hafði ekkert breyst. Minnisstætt er þegar Skúli sagði mér eitt sinn frá því hve mjög hann hlakkaði til að hætta að vinna og hve margt hann ætlaði að taka sér fyrir hendur í framtíðinni, þ. á m. að boða saman félaga úr lyftingunum og rifja upp gömlu góðu tímana. En því miður fór öðruvísi en ætlað var og alvarlegur heilsubrestur rétt í þann mund sem hin ánægjulegu tímamót gengu í garð kom í veg fyrir að hann gæti notið lífsins sem skyldi með eiginkonu sinni, fjölskyldu og vinum. En sem fyrr seiglaðist hann í gegnum þær áskoranir sem hann stóð frammi fyrir eftir áföllin, naut lífsins eins og kostur var og gaf af sér uns yfir lauk.
Þessi mikli afreksmaður og gleðigjafi er nú farinn alltof snemma yfir móðuna miklu. Hans er saknað, en minningar um góðan mann munu um ókomna tíð hlýja þeim sem þetta ritar um hjartaræturnar.

Helgi I. Jónsson.