Segja má að kappræðan hafi þróast eftir því, sem upphafið gerði væntingar um og óneitanlega hafði Trump þegar mikla yfirburði, þótt ekki hafi allt í málflutningi hans verið gallalaust.
— Morgunblaðið/Árni Sæberg

Mörgum Bandaríkjamönnum þykir þeir vera nokkru nær eftir langþráðar kappræður þeirra Donalds Trumps forseta árin 2017 til seinni parts janúar 2021 og Joe Biden forseta frá þeirri stundu og því sem næst í hálft ár eða svo til viðbótar, eða allt þar til að hann hefði setið Hvíta húsið í fjögur ár til viðbótar og átta ár samfellt, haldi hann sæmilegri heilsu. En satt best að segja, eru þeir ekki orðnir margir sem telja eða trúa því að núverandi forseti myndi þrauka svo lengi, þótt hann myndi merja sigur 5. nóvermber nk., enda vart um það deilt, að honum hefur hrakað stórlega frá því hann tók við af Trump í janúar 2021.

Mörgum þykir það raunar sýna verulegt ábyrgðarleysi og jafnvel bíræfni, af hálfu demókrata, að stilla Joe Biden upp til endurkjörs, við þær aðstæður sem blasa nú orðið við hverjum manni, sem hefur gripsvit á stöðu forsetans núna, og hvað þá þeim sem starfa sjálfir náið með forsetanum og vita nákvæmlega hvernig komið er.

...