Það er hægt að snúa vörn í sókn. Það á ekki síst við um stjórnmálastarf.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Í nýlegri skoðanakönnun Maskínu mælist Sjálfstæðisflokkurinn með tæp 15% fylgi. Þetta er mikil breyting frá því flokkurinn var að mælast með 30-35% og jafnvel meira fylgi í könnunum fyrir ekki svo löngu. Ekki er auðvelt að finna einhverja eina skýringu á þessu litla fylgi flokksins. Þær eru nokkrar. Innra starf flokksins hefur verið fjölbreytt og öflugt undanfarið þannig að á þeim vettvangi er ekki að finna skýringuna. Þá beinast spjótin að forystu flokksins, jafnt á Alþingi og í borgarstjórn.

Stuðningur við stjórnmálaflokk snýst um málefni og traust, jafnt á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þar skiptir miklu máli traust til þeirra sem eru í forystusveitinni og ekki síður málflutningur þeirra á opinberum vettvangi og samskipti við hinn almenna flokksmann. Á hinn bóginn getur fylgið við einstaka stjórnmálaflokka minnkað verulega ef forystumenn þeirra tengjast með óeðlilegum hætti hagsmunum einstakra fyrirtækja eða hagsmunahópa.

...