Áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. En það er lögleg vara hér á landi, ólíkt því sem var fyrir um öld síðan, sem betur fer. Og bannárin teygðu sig raunar langt fram eftir tuttugustu öldinni hvað veikasta áfengið snertir, svo sérkennilegt sem það er. Stundum er sagt að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta, en það er líka staðreynd að óhóflega drukkið vín veldur mikilli ógleði af ýmsu tagi, bæði hjá drykkjumanninum og þeim sem nærri standa.

Þetta hefur verið notað sem rök fyrir því að stýra þyrfti aðgangi að áfengi og hafa hann mjög takmarkaðan. Af þeim sökum sá ríkið lengst af um áfengissölu hér á landi og hafði aðgengi erfitt. Þetta hefur breyst mikið, áfengisverslanir hafa sprottið upp og eru á aðgengilegustu stöðum og jafnvel með kælum, væntanlega til að flýta neyslunni.

Í Spursmálum á mbl.is kom fram á dögunum að þessar ríkisverslanir væru nú yfir fimmtíu talsins á landinu, sem er vel í lagt.

...