Ingólfur Ómar skrifaði mér á mánudag: Nú stendur landsmót hestamanna yfir dagana 1.-7. júlí í Víðidal í Reykjavík og langar mig að senda þér tvær vísur:

Hristir makkann hvessir brár
hálsinn frakkur reisir.
Hruflar bakkann, yfir ár
ólmur blakkur þeysir.

Og:

Spriklar létt og spænir mold
sprækur glettur vekur.
Hófum nettum flengir fold
fimur sprettinn tekur.

Margt hefur verið vel kveðið um hesta og nærtækast að fletta upp í Páli Ólafssyni:

Eg hef selt hann yngra Rauð,
er því sjaldan glaður.
Svona er að vanta veraldar-auð
og vera drykkju-maður.

Páll orti um hestinn Glófaxa eða Glóa, sem Guðmundur á Hoffelli hafði gefið honum:

Ó, hvað mín er lundin létt

...