Mark Jakob Snær Árnason kemur KA í 2:1 á KA-vellinum í gærkvöld þrátt 
fyrir stórbrotna varnartilburði Birkis Más Sævarssonar.
Mark Jakob Snær Árnason kemur KA í 2:1 á KA-vellinum í gærkvöld þrátt fyrir stórbrotna varnartilburði Birkis Más Sævarssonar. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA er komið í úrslitaleik bikarkeppni karla annað árið í röð, og í fimmta skipti alls, eftir sigur á Valsmönnum, 3:2, í undanúrslitum á KA-vellinum á Akureyri í gærkvöld.

KA-menn mæta annaðhvort Víkingi eða Stjörnunni á Laugardalsvelli 23. ágúst en þeir töpuðu einmitt fyrir Víkingum í bikarúrslitunum í fyrra.

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA yfir strax á 6. mínútu. Patrick Pedersen jafnaði á 39. mínútu eftir fyrirgjöf Gylfa Þórs Sigurðssonar en Jakob Snær Árnason kom KA í 2:1 rétt fyrir hlé eftir skalla Ívars Arnar Árnasonar inn að markinu.

Daníel Hafsteinsson kom KA í 3:1 á 62. mínútu eftir sendingu Hallgríms en Birkir Már Sævarsson minnkaði muninn í 3:2 þremur mínútum síðar með hörkuskoti.

Víkingur og Stjarnan mætast í seinni undanúrslitaleiknum á Víkingsvelli klukkan 19.30 í kvöld.