Landið okkar á einfaldlega ekki að vera til sölu fyrir alls konar ævintýramennsku sem lofar mörgu án þess að hugsað sé um afleiðingar seinna meir.
Úrsúla Jünemann
Úrsúla Jünemann

Eyjan okkar er auglýst sem hreint, óspillt og fallegt land. Þannig viljum við fá endalausan ferðamannastraum og græða sem mest. Enn rísa hótel og gististaðir á ólíklegustu stöðum. Er ekki tími kominn til að staldra við og hugsa málin? Erum við ekki að grafa undan ferðaþjónustunni með óhóflegu verðlagi og stappfullum áfangastöðum án þess að innviðir séu í lagi?

Þetta er eitt dæmi. En margt er verra. Gróðafíkn sumra er endalaus. Við höfum laðað hingað stóriðjufyrirtæki sem gleypa rafmagn og arður þeirra fer að mestu úr landi. Gagnaver nota einnig mikið rafmagn, mest til þess að grafa eftir rafmynt. Við höfðum gert óhagstæða samninga og auglýst Ísland sem „low energy land”. Þetta hefur kostað að byggja stórar vatnsaflsvirkjanir sem hafa skemmt dásamlega náttúru á óafturkræfan hátt. En almenningur borgar ennþá hátt rafmagnsverð, og atvinnuvegir eins og til dæmis garðyrkja og ylrækt einnig. Þá er lítið talað um atvinnusköpun og matvælaöryggi.

...