Tónleikaröðin Velkomin heim hefur göngu sína á ný á morgun, sunnudaginn 7. júlí. Markmið tónleikaraðarinnar er að bjóða ungu tónlistarfólki, bæði úr klassíska og rythmíska geiranum, sem er við það að ljúka námi erlendis eða er nýútskrifað, að koma fram. Anna Elísabet Sigurðardóttir víóluleikari ríður á vaðið með tónleikum í Hörpuhorni á sunnudag kl. 16 en með henni leikur Bjarni Frímann á píanó. Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari kemur síðan fram 14. júlí ásamt strengjakvartett. Þann 21. júlí kemur söngkonan Anna Guðrún Jónsdóttir fram og 28. júlí kemur söngkonan Vera Hjördís Matsdóttir fram.