Íbúum fjölgar hratt á Reykjanesi.
Íbúum fjölgar hratt á Reykjanesi.

Reykjanesbær áætlar að þörf sé á 2.200 íbúðum á næstu tíu árum enda er gert ráð fyrir að íbúum muni fjölga um ríflega 2.800 manns, það er um 13%, á næstu fimm árum. Bærinn telur að fjöldi íbúða sem er í byggingu í dag sé ekki í takt við fólksfjölgun í sveitarfélaginu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) greinir frá því að Reykjanesbær hafi staðfest endurskoðun á húsnæðisáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2024. Í áætluninni er áætlað að íbúum sveitarfélagsins muni fjölga um 24% á næstu tíu árum.

Lóðir fyrir rúmlega 2.700 íbúðir eru nú þegar byggingarhæfar og stefnir sveitarfélagið á að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir 3.120 íbúðir á næstu fimm árum með það að markmiði að lóðaframboð mæti íbúðaþörfinni.