NATO þarf að bregðast með skýrum hætti við vaxandi ógn í veröldinni

Þriggja daga leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins, NATO, hefst í Washington á morgun, þar sem stofnsamningur bandalagsins var undirritaður 4. apríl fyrir 75 árum. Ísland var meðal þeirra tólf ríkja sem tóku þátt í að stofna Atlantshafsbandalagið og hefur, líkt og önnur aðildarríki þess, notið þess öryggis sem aðildinni fylgir.

Á þessum 75 árum hafa miklar breytingar orðið á bandalaginu sem sést best á því að aðildarríkin eru nú 32 og þau nýjustu Finnland og Svíþjóð, sem fyrir nokkrum árum hefði verið talið útilokað að gerðust aðilar enda með langa hefð fyrir hlutleysi og hafa átt flókin samskipti við Sovétríkin og síðar Rússland. Eftir innrás Rússlands Pútíns inn í Úkraínu fyrir rúmum tveimur árum breyttist viðhorfið hratt og bæði þessi ríki töldu í ljósi vaxandi ógnar óhjákvæmilegt að sækjast eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu.

...