— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Framkvæmdir standa nú yfir vegna endurgerðar svæðisins við Hlemm. Sem kunnugt er hefur biðstöð Strætó verið flutt á Skúlagötu meðan á þessum framkvæmdum stendur og veitir ekki af enda er svæðið sundurgrafið eins og sjá má á myndinni. Skipta þarf um lagnir og leggja nýtt yfirborð á kaflanum frá Rauðarárstíg við gömlu gasstöðina og yfir gatnamót Laugavegar og Rauðarárstígs. Stefnt er að því að þessum hluta framkvæmda á svæðinu ljúki eftir eitt ár, sumarið 2025, að því er segir á vef Reykjavíkurborgar. Þegar svæðið tekur á sig endanlega mynd verður Klyfjahestur Sigurjóns Ólafssonar fluttur af sínum stað á nýja svæðið nær mathöllinni.