Elskuleg frænka mín og móðursystir er látin. Helga var kona sem stóð ekki á skoðunum sínum og vissi hvað hún vildi, enda alveg ófeimin að segja hvað henni fannst, en það risti ekki djúpt. Þau hjónin ráku síldarplanið Neptúnus á Seyðisfirði og við fjölskyldan komum öll til að vinna í síldinni. Ég var bara 10 ára og náði varla í botninn á tunnunni en fékk að prófa að salta. Helga og Kalli ferðuðust oft til Spánar á þessum árum og keypti hún m.a. fermingarkjólinn minn og hvíta skó með litlum hælum. Þetta var algjör prinsessukjóll, mjög fallegur. Þegar síldin hvarf keyptu þau hótelið á Seyðisfirði og ráku það um tíma. Vann ég þar eitt sumar í mötuneytinu. Þaðan lá leiðin til Patreksfjarðar og ráku þau þar fiskiútgerð. Helga rak verslun um tíma í kjallaranum á húsinu þeirra. Ég heimsótti þau þegar börnin mín voru lítil og eins og alltaf var vel tekið á móti okkur. Helga var alltaf tilbúin að taka á móti fjölskyldunni. Síðar fluttu þau

...