Birgir Þ. Kjartansson hefur látið gera minnisvarða um 34 franska skútusjómenn sem fórust hér við land árið 1870 og verður hann afhjúpaður í kirkjugarðinum á Staðarstað á miðvikudaginn. Honum er málið skylt en langalangafi hans var prestur á staðnum og langafi hans smíðaði kisturnar.
Birgir Þ. Kjartansson segir það hafa tekið á að grafast fyrir um örlög frönsku sjómannanna sem fórust hér við land 1870 og hugsa til ástvina þeirra heima í Frakklandi.
Birgir Þ. Kjartansson segir það hafa tekið á að grafast fyrir um örlög frönsku sjómannanna sem fórust hér við land 1870 og hugsa til ástvina þeirra heima í Frakklandi. — Morgunblaðið/Eyþór

Spakt veður var við Faxaflóa að morgni 28. mars 1870 en útlit þó ískyggilegt. Er leið að hádegi rauk á ofsaveður af landnorðri en gekk síðan í hafsuður, að því er fram kom í Þjóðólfi nokkrum dögum síðar. Lenti fjöldi skipa í hinum mestu hrakningum, þar á meðal nokkrar franskar fiskiskútur sem voru að veiðum úti fyrir Staðarsveit. Reyndu þær að halda sjó og bíða af sér fárviðrið sem gekk ekki niður fyrr en daginn eftir.

Fyrstu fréttir voru uppörvandi en tvö fiskiskip, St. Joseph og Puebla, rak upp nálægt Gömlueyri á Mýrum og varð mannbjörg, 45 manns voru samtals á skipunum og björguðust þeir allir. En svo fór lík að reka á land í Staðarsveit, eitt af öðru. Þótti mönnum einsýnt að alla vega tvö skip hefðu farist en lengi stóð á því að menn áttuðu sig á því hve mörg skip fórust við ofanverðan Flóann í þessu mannskaðaveðri.

„Lík franskra sjómanna var að reka fram eftir öllu vori,“ segir Birgir Þ. Kjartansson

...