Götuleikhús- og listhópar Hins hússins halda uppskeruhátíð í dag, milli kl. 16 og 18, en viðburðurinn nefnist Vængjasláttur. „Tólf listhópar ásamt Götuleikhúsi Hins hússins hafa unnið hörðum höndum í sumar að fjölbreyttri listsköpun,“ segir í tilkynningu. Afrakstur þeirrar vinnu verður kynntur með ýmiss konar listrænum gjörningum í miðborginni. „Vængjaslátturinn er jafnan gleðistund með listgyðjunni þar sem öll geta fundið eitthvað við sitt hæfi, tónlistaratriði, leiklestur, myndlistarsýningar og götuleik,“ segir jafnframt í tilkynningunni.