EM-hópurinn Íslenska liðið sem leikur í B-deild Evrópumótsins í Búlgaríu.
EM-hópurinn Íslenska liðið sem leikur í B-deild Evrópumótsins í Búlgaríu. — Ljósmynd/KKÍ

Ísland hefur náð sínum besta árangri á Evrópumóti U20 ára landsliða kvenna í körfubolta frá upphafi eftir frækinn stórsigur á Írum, 88:45, í Búlgaríu í gær.

Írar stóðu vel að vígi fyrir leikinn og hefðu komist í undanúrslit með sigri. Ísland varð hins vegar að vinna með 20 stiga mun til að komast upp fyrir bæði Írland og Úkraínu í annað sæti riðilsins.

Íslensku stúlkurnar náðu 23 stiga forskoti í lok fyrri hálfleiks eftir magnaða frammistöðu í öðrum leikhluta og fylgdu því rækilega eftir í síðari hálfleiknum.

Þær mæta nú Belgíu í undanúrslitum á morgun en Tékkland, sem vann riðilinn, mætir Hollandi. Tvö eða þrjú af þessum liðum vinna sér sæti í A-deild.

Agnes María Svansdóttir skoraði 26 stig, Eva Elíasdóttir skoraði 22 og tók 8 fráköst, og Anna Vignisdóttir skoraði 12 stig. Kristrún Ólafsdóttir tók 10 fráköst.