Sigurhæðir.
Sigurhæðir.

Hlynur Hallsson myndlistarmaður er með sérstaka leiðsögn um verk myndlistarmannanna Ingibjargar Sigurjónsdóttur og Ragnars Kjartanssonar í Menningarhúsi í Sigurhæðum á Akureyri á morgun, 13. júlí, klukkan 13. Verk þeirra Ingibjargar og Ragnars eru innan um eða í innsetningum sem miðla menningararfi staðarins og sögu hússins, eins og segir í tilkynningu.

Í leiðsögninni verður farið um Sigurhæðir með áherslu á verk Ingibjargar og Ragnars. Skoðað verður hvernig þau kallast á við menningararfinn og koma inn með ferska vinkla á efnivið staðarins. Hjónin Matthías Jochumsson og Guðrún Runólfsdóttir létu reisa Sigurhæðir árið 1903 og það var bæði heimili þeirra og vinnustaður.