Dagbjört Kristjánsdóttir fæddist 23. janúar 1933. Hún lést 22. júní 2024. Útför hefur farið fram.

Elsku hjartans móðir mín, Dagbjört Kristjánsdóttir, er látin. Hún lést á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu á Rangárvöllum 22. júní síðastliðinn. Ég var hjá henni þangað til yfir lauk. Andlát hennar var friðsælt og stundin falleg.

Dagbjört fæddist að Görðum á Djúpavogi við Berufjörð 23. janúar 1933. Hún var næstyngst í fimm systkina hópi. Eldri systkin hennar voru Ragnar, Ingólfur og Laufey og síðast fæddist Arnór, litli bróðir mömmu.

Mamma hafði strax mikinn áhuga á bókum og vildi ung vita um hvað þær fjölluðu. Þegar Laufey systir hennar, tveimur árum eldri en mamma, þá sjö ára, var að æfa sig að lesa fylgdist mamma vel með. Hún sat á móti systur sinni við eldhúsborðið. Nokkru síðar kom í ljós að mamma var orðin læs, tæplega fimm ára. Hún hafði því lært að lesa á hvolfi. Þegar hún var sex ára fékk hún að fara með Laufeyju systur sinni í skólann. Þar undi mamma hag sínum vel. Henni fannst gaman að læra og hafði yndi af ljóðum. Mörg ljóðanna sem hún lærði utan að í Barnaskólanum á Djúpavogi kunni hún alla sína ævi. Síðast fór hún með Gunnarshólma fyrir mig, fallega og reiprennandi, í september í fyrra.

Þegar mamma var 13 ára lauk hún fullnaðarprófi og hlaut hæstu einkunn yfir skólann. Kennarahjónin, þau Guðmundur Pálsson og Ásdís Steinþórsdóttir, buðu Dagbjörtu að koma með sér til Reykjavíkur og búa hjá sér, í Vesturbænum. Mamma fór einn vetur í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hún hóf svo nám í Verslunarskóla Íslands 15 ára gömul. Hún vann fyrir sér á sumrin og var dugleg við að finna sér sumarvinnu.

Á árunum í Verslunarskólanum eignaðist hún lífstíðarvinkonur og -vini. Órofa vinskapur var alla tíð við þær Kolbrúnu Friðþjófsdóttur, Kollý og Ragnhildi Eiríksdóttur, Lillu.

Sumarið 1952 varð örlagaríkt. Þá fór mamma að vinna í skógræktinni á Tumastöðum í Fljótshlíð. Það sumar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum, Inga Björgvini Ársælssyni frá Eystri-Tungu í Vestur-Landeyjum. Mamma varð ástfangin af Inga og einnig af Suðurlandsundirlendinu. Hún sagði mér að hún hefði aldrei fyrr séð svo mikla víðáttu. Okkar á milli kölluðum við það víðáttuna miklu.

Mamma útskrifaðist úr Verslunarskólanum vorið 1953. Hún komst ekki í útskriftarferðina til Kaupmannahafnar því hún bar mig undir belti. Dagbjört fór því heim á Djúpavog til foreldra sinna og fæddi frumburðinn. Við mamma erum því fæddar í sama húsi. Þau Ingi giftu sig 1954. Mamma starfaði hjá nokkrum fyrirtækjum. Ég man eftir Vinnufatagerðinni, Landssímanum, Alþýðublaðinu og Mancher & co. Alls staðar eignaðist Dagbjört vini. Þau Ingi skildu að skiptum.

Árið 1966 brá mamma sér í Kennaraskólann, þá 33 ára. Aldur hennar virtist engu máli skipta. Þótt bekkjarfélagarnir væru 16 til 17 ára eignaðist hún í Kennó lífstíðarvini. Nánustu vinir hennar þar voru þau Trausti Ólafsson og Ingunn Þóra Magnúsdóttir.

Mamma var komin á rétta hillu og elskaði kennarastarfið. Íslenskan varð hennar aðalfag og varð hún mjög farsæll íslenskukennari, bæði í grunnskóla og framhaldsskóla.

Ég var ung að árum þegar mamma sagði mér að þegar hún kæmist á eftirlaun ætlaði hún að njóta ævikvöldsins á Djúpavogi. Hún sagði mér að oft hefði hún saknað mömmu sinnar þegar hún var við nám í Reykjavík. Fyrstu árin mín söng hún fyrir mig undurfallega vögguvísu, sem Antonía mamma hennar hafði sungið fyrir hana.

Mamma naut traustrar hjálpar bróðursonar síns, Ólafs Áka Ragnarssonar, við að undirbúa eftirlaunaárin. Óli frændi fann handa henni mjög fallegt og vandað hús á Djúpavogi, Vörðuna 15. Þetta var fallegasta heimili sem Dagbjört hefur átt. Hún flutti á heimili sitt 2003 og horfði á Búlandstindinn út um eldhúsgluggann sinn. Þarna lifði mamma eins og blómi í eggi í átta ár. Þá missti hún húsið sitt vegna vanefnda náins ættingja og varð nauðug að fara frá Djúpavogi, sumarið 2011.

Dagbjörtu bauðst að leigja kjallaraíbúð í Borgarnesi hjá Ingibjörgu yngri dóttur sinni. Ævikvöldið varð henni erfitt því hún var heimilislaus frá 2011. Var hún oft einmana og afskipt. Elsku mamma mín, sem var glaðlynd að eðlisfari, var oft dauf og sorgmædd. Í október 2022 tók ég mömmu á heimili mitt í Þykkvabænum. Henni fannst dásamlegt að vera komin á sitt elskaða Suðurlandsundirlendi.

Við fórum á Djúpavog í október 2022. Það var dásamleg ferð og nutum við mamma þess að heimsækja fæðingarstað okkar beggja. Þar var mömmu fagnað af vinum og vandamönnum. Mamma bjó hjá mér í Þykkvabænum í eitt ár. Var hún hrókur alls fagnaðar í matarboðum og kaffiboðum og ýmiss konar viðburðum og ferðalögum.

Dagbjört fór í langtímavistun á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu þ. 10. október 2023. Umönnunin á Lundi var til fyrirmyndar og kann ég því starfsfólki miklar þakkir. Þau sýndu mömmu öll bæði kærleika og virðingu. Innilokunin olli því að Dagbjörtu fór mjög hratt aftur. Um miðjan mars var mamma komin í hjólastól og gat ekki lengur gengið. Hún gat heldur ekki matast sjálf. Ég kom oft til hennar og mataði hana. Oft áttum við notalegar stundir. Páskadag, þ. 31. mars, varð Dagbjört fyrir áfalli og hætti að tala. Á laugardegi þann 22. júní var hringt í mig og sagt var að mjög væri dregið af mömmu. Það voru orð að sönnu, því hún andaðist fjórum klukkustundum síðar.

Mér er minnisstætt að ég fór með mömmu til öldrunarlæknis þ. 26. september í fyrra. Ég sagði honum sögu Dagbjartar. Öldrunarlæknirinn var búinn að starfa í yfir 40 ár. Hann sagði: Það er einn hópur í samfélaginu sem á ENGAN málsvara og það eru aldraðir. Þessi ummæli eru umhugsunarverð.

Ég kveð mömmu mína með miklum söknuði, einnig kveðja elsku mömmu dætur mínar Unnur Björt og Rakel Eva, tengdasonur minn Snorri Ólafsson og fjögur börn þeirra Unnar Bjartar.

Megi góður Guð blessa ástkæra móður mína og minningu hennar.

Rós Ingadóttir.